Síðasta fimmtudag fylltist miðborg Stokkhólms af um 20.000 manns sem komu til að hlusta á líbanska tónlistarkonuna Elissa sem kom fram á torgi Gustaf Adolfs. Elissa, sem lýst er sem einni farsælustu arabísku söngkonu fyrr og síðar, naut sín vel og sagði: „Mér finnst eins og ég sé í arabísku landi.“
Tónlistarkonan kom fram á Menningarhátíðinni í Stokkhólmi sem stóð yfir dagana 14.-18. ágúst. Á heimasíðu hátíðarinnar má lesa:
„Elissa sló í gegn árið 1999 og hefur síðan orðið ein ástsælasta og vinsælasta söngvari Miðausturlanda. Áhorfendur flykkjast á tónleika hennar og þegar hún kom fram í Svíþjóð í fyrsta skipti á menningarhátíð í Gautaborg árið 2015, þá sló hún áhorfendamet þegar yfir 35.000 manns sáu hana á áhrifamiklum tónleikum.“
Dagens Nyheter, DN, á varla til orð til að lýsa átrúnaðargoðinu og skrifar:
„Elissa fyllti Menningarhátíðina á Gustaf Adolfs torgi í miklu stuði á fimmtudaginn.“
Varð að loka torginu vegna mannfjöldans
Elissa kom til Stokkhólms eftir tónleika í Malmö. Þegar 20.000 manns voru samankomin til að sjá tónleika hennar í Stokkhólmi, þá þurfti að loka torginu til að koma í veg fyrir þrengsli. Þegar DN tók viðtal við hana eftir tónleikana, þá sagði hún:
„Áhorfendur voru geðveikt fínir. Mér líður eins og í arabalandi. Ég veit að ég á marga aðdáendur, áhorfendur voru mjög margir hér og í Malmö. Ég er mjög ánægð. Við sem erum listamenn erum mikilvæg fyrir araba í útlöndum. Við erum brú sem tengir þá við heimalöndin sín.“
Settu upp palestínskt sjal
Blaðið hefur rætt við fjölskyldu sem kom til Svíþjóðar frá Sýrlandi fyrir tíu árum.
Frænkan Judy Kanj segist vera mjög stolt og finnst gaman að Svíþjóð „hugsi um hag arabískumælandi borgara og bjóði hingað frægum söngvurum.“ Elissa minnir Judy á eigin æsku.
Þegar einhver úr áhorfendum kastar upp palestínsku sjali setur Elissa það upp, það gerðist einnig í Malmö.