Sænski miðillinn Samnytt greinir frá því í dag, að vinstri stjórnirnar í Stokkhólmi og Gautaborg hafi ákveðið að banna auglýsingar tengdum eldsneyti eins og bensíni, olíu og kolum. Þannig er bannað að auglýsa afurðir, bíla, báta, skip, mótórhjól, flugvélar og allt sem fær orku með brunahreyflum. Þetta þýðir að flugfélög og ferðaskrifstofur geta ekki lengur auglýst ferðalög með flugi á farartækjum almenningssamgangna eða húsakynnum.
Á síðasta ári ákvað vinstri stjórn Stokkhólmssvæðisins að banna auglýsingar á öllu sem hefur með jarðefnaeldsneyti að gera og núna fylgir Västtrafik í V-Gautalandi í kjölfarið. Bannið er sett vegna þess að „minnkun kolefnislosunar gengur ekki nógu hratt.“
„Ferðin verður grænni“ með afnámi málfrelsis
Anton Fendert, Umhverfisflokknum, yfirmaður almenningssamgangna á Stór-Stokkhólmssvæðinu sagði þegar ákvörðunin var tekin:
„Almenningssamgöngur eiga að vera sjálfbær samgöngumáti. Þá eiga auglýsingarnar ekki að vinna gegn sjálfbærnimarkmiðum svæðisins. Þetta er nálgun sem ég tel að farþegar okkar taki vel.“
Fyrirtækið Västtrafik tilkynnir á vefsíðu sinni ákvörðun um sams konar bann:
„Núna verður ferð þín með okkur enn þá grænni. Framvegis munt þú ekki lengur sjá neinar auglýsingar fyrir jarðefnaeldsneyti, bensínbíla eða flugsamgöngur á farartækjum okkar og viðkomustöðum. Mikilvægt skref í þá átt að við drögum sameiginlega úr loftslagsáhrifum.“
Banna auglýsingar sem „stuðla að neikvæðum loftslagsáhrifum“
Þær tegundir auglýsinga sem eru bannaðar eru tengdar jarðefnaeldsneyti eins og bensíni, olíu og kolum ásamt bílum, bátum, bifhjólum, flugvélum og öðrum farartækjum sem knúin eru að hluta eða öllu leyti með jarðefnaeldsneyti. Einnig verða auglýsingar bannaðar á vörum sem eru búnar til með jarðefnaeldsneyti og ekki lengur leyft að auglýsa flug. Bannið nær yfir auglýsingapláss á öllum rútum, sporvögnum, lestum og bátum og um 650 skýlum Västtrafik. Lars Backström, forstjóri Västtrafik, segir við GP:
„Losun koltvísýrings minnkar ekki nógu hratt samtímis og við erum nánast laus við jarðefnaeldsneyti í almenningssamgöngum. Það er ekki skynsamlegt að birta auglýsingar fyrir slíkt sem augljóslega stuðlar að neikvæðum loftslagsáhrifum.“
Að sögn Backström erum við „í miðri loftslagskreppu“ og auglýsingar til að kynda undir henni eru ástæðulausar.