Íslamska miðstöðin „Imam Ali (IAC)“ er stærsta moska fyrir sjía-múslima á Norðurlöndum og er í Järfälla í Norður-Stokkhólmi. Sænska ríkisútvarpið greinir frá því að samkvæmt yfirlýsingu sænsku leynilögreglunnar Säpo, þá hefur moskan verið notuð af leyniþjónustu Írans fyrir njósnir og öryggisógnandi starfsemi í Svíþjóð.
Að sögn Säpo hefur íranska stjórnin notað moskuna í Järfälla norður af Stokkhólmi til að sinna áhrifaaðgerðum og halda uppi eftirliti með innfluttum Írönum í Svíþjóð.
Expressen greindi frá því í síðustu viku að sænsk yfirvöld hafi handtekið Mohsen Hakimollahi, æðstaprest moskunnar og vísa eigi honum úr landi, þrátt fyrir að engin sakamálarannsókn sé í gangi gegn honum.
IAC hefur ekki tjáð sig um frétt ríkisútvarpsins en birti yfirlýsingu eftir uppljóstrunina, þar sem fulltrúar moskunnar neita öllum tengslum við írönsku stjórnina. Í yfirlýsingu moskunnar segir:
„Íslamska miðstöðin IAC er pólitískt óháð og hefur engin tengsl við nein ríki eða stjórnmálaflokka. IAC fær ekki fjárhagsaðstoð frá erlendum ríkjum, þvert andstætt því sem dreift er af fjölmiðlum.“