Lekin gögn sýna áform vinstri manna að kæfa fullveldisraddir innan ESB

Iratxe García, spánskur formaður S&D flokkshópsins á ESB-þinginu.

Gögn hafa lekið út sem sýna áætlun sósíaldemókrata innan ESB, S&D hópsins, um að kæfa niður áhrif, vinsældir og uppgang íhaldssamra og fullveldissinnaðra flokka innan Evrópusambandsins. Planið gengur út á að mynda bandalag með EPP-hóp Ursula von der Leyen, og útiloka allar gagnrýnisraddir frá áhrifum innan ESB. EPP stendur fyrir European Peoples party og S&D fyrir The Socialists and Democrats.

Þessari áætlun er lýst í fimm blaðsíðna trúnaðarskjali sem var lekið á samfélagsmiðla (sjá X að neðan). Í stórum dráttum gengur áætlunin út á það að níða, hæða og frysta úti fullveldissinnaða íhaldsflokka og gera það erfitt fyrir EPP að eiga samstarf við þá.

Meðal annars á að bera kennsl á málefni sem hægt er að nota til að „reka fleyg“ á milli flokkshópanna, krefjast nánara samstarfs við frjálslynda Renew hópinn og Græningja og vera almennt „ákveðnari“ þegar verið er að leiðrétta EPP. Áætlunin inniheldur „ráðstafanir“ til að tryggja að fyrri samþykkt vinstri flokkanna um að einangra íhaldshópinn haldi áfram. Vinstri menn lýsa stefnunni:

„Við munum finna og nýta öll þau mál sem hægt er að nota til að reka fleyg á milli öfgahægriflokka og EPP. “

Tilskipunin ráðleggur eigin meðlimum sínum frá því að vera „of árásargjarnir“ en segir samtímis að miðju-hægri EPP flokkurinn „verði að vita að það muni hafa afleiðingar að horfa í báðar áttir.“

Kommúnistar og kratar í samstarfi til að vinna skemmdarverk á lýðræðinu

Í skjalinu eru einnig lögð fram þau ráð, að sjálfkrafa eigi að útiloka flokkshópa Föðurlandsvina Evrópu og ESN (Europe of Sovereign Nations Group/Hópur fullvaldra þjóða í Evrópu) frá möguleikum til ákvarðanatöku þegar það er hægt. Einnig eiga vinstri menn að forðast að trufla eða ávarpa fulltrúa þessara hópa í ræðustólnum til að lágmarka ræðutíma þeirra. Jafnframt er hvatt til þess að reyna að hindra að þingmenn Íhaldshópsins fái aðgang að sætum í þingferðum erlendis. Ætla vinstrimenn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útiloka íhaldsmenn og fullveldissinna frá öllum valda- og áhrifastöðum. Ef kratar, vinstri-frjálslyndir, Græningjar og EPP ná ekki að mynda meirihluta til að koma niðurstöðu í gegn, þá eiga þeir að vinna með flokkum lengst til vinstri frekar en að leita eftir stuðningi fullveldissinnaðra flokka sem eru gagnrýnir á opin landamæri og fjöldainnflutning.

Lýðræðinu markvisst fargað

Samkvæmt gögnunum er dálítið „flókið“ að einangra ECR-hóp Meloni, því þar eru bæði „stuðningsflokkar“ og „and-evrópskir“ flokkar. Eiga vinstrimenn að taka afstöðu til málefna þeirra „í hverju tilviki fyrir sig.“

Að sögn Anders Vistisen hjá Dansk Folkeparti og Föðurlandsvinum Evrópu, þá sýnir áætlunin að vinstriflokkarnir hafa miklar áhyggjur af framgangi íhaldssamra fullveldissinna og reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útiloka þá frá áhrifum. Vistisen segir:

„Þeir vilja ekki að við verðum með við undirritun breytingartillagna, þeir vilja útiloka þátttöku okkar í æðstu stofnunum ESB þingsins, þeir vilja jafnvel útiloka okkur frá því vera með í nefndarferðum sem fulltrúar kjósenda okkar.“

„Tilraunir þeirra til að einangra okkur ganga langt út yfir það sem eðlilegt er á starfandi þingi. Þetta er verra en hvernig farið er með Valkost fyrir Þýskaland eða Þjóðfylkinguna í Frakklandi. Þetta er verra en hægt er að finna í neinu samfélagi sem skilgreinir sig sem lýðræðislegt.“

Fara efst á síðu