JD Vance varaforseti Bandaríkjanna elskar Evrópu og íbúa Evrópu. En hann rífur leiðtoga Evrópu í tætlur með grjótharðri gagnrýni. JD Vance vill að meginlandið verði sjálfstæð þjóðríki óháð Bandaríkjunum en í samstarfi byggt á gagnkvæmri virðingu. Það er himinn og haf á afstöðu Bandaríkjanna og ESB til lýðræðislegra stjórnarhátta.
Varaforsetinn gagnrýnir innflytjendastefnu ESB sem hann segir að sé svik við lýðræðið:
„Lýðræðið á Vesturlöndum brotnar saman þegar almenningur heldur áfram að biðja um minni fólksinnflutninga en leiðtogarnir verðlauna almenning með enn þá meiri fólksflutningum.“
Vance segir að lausnin sé einföld en róttæk: sérhver þjóð verði að ná stjórn á eigin öryggi, fjárhag og landamærum. Málið er ekki að hætta að starfa saman heldur að starfa saman á grundvelli gagnkvæmrar virðingar:
„Ég vill ekki að Evrópubúar geri bara það sem Bandaríkjamenn segja þeim að gera. Það er hvorki þeirra né okkar hagur.“
Bandaríkin vilja ekki hafa Evrópu sem leiguliða
JD Vance varaforseti segir í viðtali við UnHerd :
„Það er ekki gott fyrir Evrópu að stöðugt vera leiguliði öryggismála hjá Bandaríkjunum.“
Viðtalið er tekið í kjölfar óróa vegna nýrra tolla ríkisstjórnar Bandaríkjanna og kröfu Bandaríkjaforseta um að Nató ríki fari að borga umsaminn hlut til varnarmála samkvæmt Nató samningnum. Bandaríkjamenn hafa einnig rætt að hækka eigi gjöld til varnarmála upp í 5% af þjóðarframleiðslu sem er mikið stökk frá þeim 2% sem verið hafa í gildi og mörg lönd ekki staðið við.