Guðlaug Sverrisdóttir, yfirmaður kvennadeildar háskólasjúkrahússins í Uppsölum í viðtali við sænska sjónvarpið í dag. (Mynd: Skjáskot SVT).
Eitthvað virðist ganga erfiðlega með heilbrigðismálin eins og stendur. Og Íslendingur – einn, kannski fleiri, tengjast málinu. Á árunum 2023 og 2024 voru leg 33 kvenna fjarlægð vegna mistaka á Akademíska sjúkrahúsinu í Uppsölum. Guðlaug Sverrisdóttir er yfirmaður kvennadeildar sjúkrahússins og biður sjúklingana afsökunar. Hún segir rangtúlkun á krabbameinsgreiningu hafa valdið mistökunum. Málið er aðalfrétt sænska sjónvarpsins í kvöld.
Johan Lugnegård, yfirlæknir háskólasjúkrahússins segir:
„Við hörmum mjög það sem hefur gerst.“
Þessum 33 konum var tilkynnt eftir að sýni var tekið úr þeim, að frumubreytingar væru sjáanlegar sem væri undanfari legkrabbameins. Konurnar voru á aldrinum 38 til 85 ára og sjúkrahúsið ráðlagði skurðaðgerð til að hindra frekari útbreiðslu krabbameins í líkamunum.
En greiningarnar voru rangar – og konurnar hefðu ekki þurft að láta fjarlægja legið. Legin voru því skorin burt að óþörfu. Johan Lugnegård yfirlæknir segir í fréttatilkynningu:
„Að fjarlægja leg er mikil aðgerð, með miklum og óafturkræfum afleiðingum. Þetta á ekki að geta gerst en gerðist samt og við biðjum konurnar afsökunar á þessu. Þær hafa fullan stuðning okkar.“
Johan Lugnegård fékk spurningu af blaðamanni, hvort konurnar hefðu ætlað að eignast börn og hann svarað því neitandi og fékk þá spurningu um það, hvernig hann vissi það: „Þær sögðu mér það“ var svarið.“
Hræðilegar fréttir
Heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, Acko Ankarberg Johansson frá Kristdemókrötum, segir málið allt vera „hræðilegar fréttir.“ Hún skrifar í athugasemd til sænska ríkissjónvarpsins SVT í Uppsala:
„Háskólasjúkrahúsið segir að þeim hafi mistekist að tryggja gæði heilsugæslunnar. Það er gott að háskólasjúkrahúsið taki málið alvarlegum tökum og grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að komast til botns í því sem hefur gerst og tryggi að slíkt geti ekki gerst aftur.“
Sjúkrahúsið kærir sig sjálft til eftirlitsyfirvalda
Háskólasjúkrahúsið mun athuga og fylgja eftir öðrum sýnum sem tekin voru á undan því tímabili sem um ræðir til að rannsaka hvort fleiri sambærileg tilvik hafi komið upp. Einnig mun sjúkrahúsið kæra sig sjálft til eftirlitsstofnunar – svo kölluð Lex María kæra – sem venja er í slíkum tilvikum. Guðlaug Sverrisdóttir, yfirmaður heilsugæslu kvenna hjá háskólasjúkrahúsinu í Uppsala segir í fréttatilkynningu í dag:
„Okkur skilst að þetta valdi ekki aðeins áhyggjum hjá viðkomandi sjúklingum, heldur einnig hjá öðrum sem hafa fengið EIN–greiningu. Við erum að skoða, hvort það sama hafi gerst hjá þeim.“
Segjast hafa „gert ráðstafanir“
Að sögn sjúkrahússins hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja að sambærileg mistök geti ekki komið upp aftur. Spítalinn hefur meðal annars tryggt þátttöku sína í landsneti þar sem meinatæknar alls staðar að af landinu meta niðurstöður rannsókna til að fá samræmt mat.
Undanfarið ár hafa að minnsta kosti tvö sambærileg mál átt sér, þar sem leg var fjarlægt úr heilbrigðum konum að óþörfu, eitt í Skaraborg og annað í Blekinge.