Gústaf Níelssyni sagnfræðingi líst ekki allt of vel á þá þróun sem á sér stað á vettvangi stjórnmálanna á Íslandi og á Vesturlöndum. Í þessum viðtalsþætti lýsir hann áhyggjum af viðhorfum stjórnmálastéttarinnar, þar sem meira er lagt upp úr persónulegum hlunnindum en að starfa fyrir umbjóðendur sína, kjósendur. Gústaf segir stjórnmálamenn hafa upp til hópa glata því sem þeir eiga að standa fyrir: „Það vantar allt stuff í þá.“
Nýlegt hneyksli með stöðvun fyrirlestur prófessors frá Ísrael eingöngu vegna þess að hann var gyðingur leiddi Gústaf til að skrifa eftirfarandi bréf til rektor Háskóla Íslands:
OPIÐ BRÉF TIL SILJU BÁRU ÓMARSDÓTTUR HÁSKÓLAREKTORS
„Komdu sæl Silja Bára.
„Vandi fylgir vegsemd hverri”, segir máltækið og mikilvægt er að fólk rísi undir ábyrgð sinni. Leiðtogar standa í stafni; þeir ryðja braut fyrir okkur hin, gæta að grundvallarreglum og láta ekki afvegaleiðast. Leiðtogar gæta þess líka að huga að ólíkum sjónarmiðum, vega rök og álit. Þannig finnst hinn farsæli meðalvegur, sem einhver sátt getur ríkt um. Að öðrum kosti kann ófriður að verða í boði með ófyrirséðum afleiðingum. Sagan geymir mörg dæmi um slíkt.
Þú hefur haldið illa á málum eftir uppákomu í Háskóla Íslands, sem er á þína ábyrgð, er ólátabelgjum tókst að hindra fyrirlestur prófessors frá Ísrael um gervigreind og lífeyrismál, af pólitískum ástæðum. Skömmin er auðvitað þeirra. En hvernig hyggst þú bregðast við?
Þú velur þögnina; treystir þér ekki til þess að hafa skoðun og verja grundvallarhugmyndafræði háskólastarfs, sem er frjáls og óheft umræða og skoðanafrelsi. Hverfi þessi grundvöllur, brestur háskólann bæði þor og áræði; hættir að vera háskóli. Það er vond þróun.
Hristu nú af þér slenið og spurði sjálfa þig, er ég maður eða mús, sem skríður eins langt oní holu sína og kostur er?
Framganga af þessu tagi er ekki rektor Háskóla Íslands sæmandi.
Kær kveðja.
Gústaf Níelsson.”
Gústaf dregur í efa að Silja Bára valdi starfi sínu og bendir á að Jón Steinar Gunnlaugsson fv. hæstaréttardómari hafi farið fram á að henni yrði vikið úr starfi.
Dýrt að taka inn fólk sem vill ekki vinna fyrir sér
Gústaf vitnar í tölur frá Ragnari Árnasyni hagfræðiprófessor um kostnað við hælisleitendur um 100 milljarða og sú tala fer eflaust hækkandi. Gústaf hefur alls ekki neitt á móti innflytjendum, þvert á móti, honum finnst margir þeirra mjög hæfileikaríkir og duglegir og auðgi þjóðarbúið og þjóðarsálina með störfum sínum og þátttöku í mannlífinu á Íslandi. Þetta er fólk sem lærir íslensku og skapar sér og öðrum tækifæri með dugnaði sínum.
Hins vegar eru ekki allir innflytjendur sama sinnis, heldur sækja til Vesturlanda að því að virðist eingöngu til að lifa á velferðarkerfinu og nýta sér góðmennsku annarra. Gústaf bendir á ólíka menningarheima íslams og gilda okkar á Vesturlöndum og á Íslandi en margir og vaxandi árekstrar eru orðnir þvílíkir í Evrópu, að ýmsir tala um möguleika á borgarastyrjöld í löndum eins og Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og jafnvel Svíþjóð. Hann gagnrýnir ESB fyrir að opna löndin fyrir fólki sem síðan sé erfiðleikum bundið ef þá hægt að losna við aftur.
Ég sé það ekki í hendi mér að Þjóðverjar geti sinnt varnarmálum Íslands af neinu viti
Gústaf ræddi um heimsókn Ursula von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB og í kjölfar þeirrar heimsóknar kom hershöfðingi Þýskalands til skrafs við utanríkisráðherra Íslands. Gústaf telur að starfsmenn utanríkisráðuneytisins séu meira eða minna stilltir inn á aðild Íslands að ESB og aðildarferlið í raun komið á dagskrá eftir yfirlýsingu von der Leyen um að aðildarumsókn Íslands sé í fullu gildi. Hann bendir á að varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn sé 70 ára gamall og samstarfið við Bandaríkin hafi reynst Íslendingum afar farsæl.
„Bandaríkjamenn hafa verið Íslendingum afar vinsamlegir allan lýðveldistímann og stutt þá með ráðum og dáð. Ef að menn ætla að fara að fórna þessu á altari Evrópusambandsins, þá líst mér ekki á það satt best að segja.“
ESB ekki nafli alheims
Gústaf segir heiminn ekki þann sama í dag og fyrir nokkrum áratugum síðan. Markaður ESB er 10-12% af heimsviðskiptunum og viðskipti aukast í fjölmennri Asíu. Jafnvel þótt Ísland hætti að eiga viðskipti við Evrópusambandið, þá telur hann að ekki tæki marga mánuði fyrir Ísland að finna nýja markaði til dæmis í Asíu. Hann segir Trump Bandaríkjaforseta vera að aðlaga sig að þessum breyttu tímum.
Varðandi Úkraínustríðið og allt vopnaskak, segir Gústaf almenning vera búinn að fá upp í kok. Venjulegt fólk er ekkert fyrir stríð, þótt stjórnmálamenn og vopnaframleiðendur séu æstir í það eins og Svíar sérstaklega með allan sinn vopnaiðnað.
Smelltu á spilarann að neðan til að hlusta á þáttinn: