Móðir stálps segir ummæli heilsufræðikennara valda vanlíðan

Móðir stálps segir að ummæli heilsufræðikennara, sem hann hafði eftir barnalækni hafa valdið því vanlíðan. Formaður Bandalags kennara segir að kennurum beri að vanda orðræðu sína. Öllum réttindum fylgi skyldur. Formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra segir að þeir sem vinni með skólabörnum verði að vanda orðræðu sína á opinberum vettvangi.
Í Vísi var haft eftir Ragnari G. Bjarnasyni, barnalækni að vaxandi offita meðal barna væri alvarlegt mál upp á framtíðina:
„Við verðum að fara að gera eitthvað… við vitum að það er ekki hollt fyrir neinn að vera í offitu… Okkur er að takast að gera börnin okkar allt of þung. Og það er greinilegt að flest börn sem eru að koma vegna offitu eru að fitna, og fitna ansi hratt… við verðum að skoða hvernig við getum breytt því.“
Móðir stálpsins, sem er „stórt í sniðum“ segir að opinber ummæli barnalæknisins hafi haft neikvæð áhrif á barn hennar og keyrt hafi um þverbak þegar kennari hafi sagt svipuð orð í heilsufræðitíma.
„Það er erfitt þegar ýjað er að því að það sem er að angra barnið mitt sé eitthvað sem sé hættulegt,“ segir Kverúlína Sívertsen, móðir stálpsins.
Kverúlínu finnst vanvirðing fólgin í ummælunum, sem og ummælum annarra barnalækna um sama málefni í öðrum fjölmiðlum.
„Þetta veldur vanlíðan. Bæði hjá mér sem foreldri og hjá barninu mínu.“
Kennari viðhafði sömu ummæli í heilsufræðitíma
Kverúlína segir að baráttuandi hafi tekið sig upp hjá stálpi hennar eftir að kennari sagði í heilsufræðitíma að „offita væri alvarlegt mál“ og að í vinahópi þess hafi þótt mikilvægt að koma skilaboðum sínum á framfæri við kennarann.

Hún segir að vinahópurinn hafi laumast til að hengja fitufána á hurð kennarans. Það hafi þau ítrekað gert, því fáninn hafi alltaf verið tekinn niður.
Börn og unglingar fylgjast með opinberri umræðu
Kverúlína er sjálf langt komin í kennaranámi og segir kennara þurfa að hafa í huga hvernig þeir tali um hin ýmsu málefni út á við. Hún bendir á að börn og unglingar fylgist með og verði vör við opinbera umræðu. Hún vilji sem foreldri ekki þurfa að óska eftir því að kennari komi ekki nálægt kennslu stálps hennar, „en ég var bara heppin, þessi heilsufræðikennari var ekki að kenna mínu stálpi.“
Hún óskaði þó eftir því að kennarinn myndi ekki við neinar aðstæður koma að kennslu stálpsins. „Því ég hef ekki traustið. Og við verðum að hafa það.“ Augljóslega ætti að reka þennan heilsufræðikennara, rétt eins og særindavaldarnir Páll Vilhjálmsson og Helga Dögg Sverrisdóttir voru ,látin fara’.
Hanna Dóra Markúsdóttir er nýkjörinn formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra segir það sína skoðun að kennari þurfi að vanda sig í allri sinni framgöngu og
“skrifa þannig og koma þannig fram að það verði enginn sár. Að það standi enginn sár eftir. Augljóslega ætti löggjafinn að banna skrif sem særa tilfinningar annarra.“