Kvenvæðing er ógn við samfélagið

Kvenvæðingin mikla” er grein eftir Helen Andrews sem birtist 16. október sl. í tímaritinu Compact. Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur þýddi greinina á íslensku.

Vók er ekki ný hugmyndafræði, afsprengi marxisma eða afleiðing vonbrigða eftir Obama-tímann. Vók er einfaldlega kvenlegt hegðunarmynstur sem hefur innleitt í stofnanir þar sem konur voru ekki í meirihluta þar til nýlega.

Árið 1974 voru aðeins tíu prósent blaðamanna hjá New York Times konur. Starfsfólk New York Times varð meirihluta kvenkyns árið 2018; í dag er hlutfallið 55 prósent. Læknadeildir voru meirihluta kvenvæddar árið 2019. Sama ár urðu konur meirihluti háskólamenntaðra launþega í Bandaríkjunum.

Stétt háskólakennara var að meirihluta kvenvædd árið 2023. Enn eru karlar meirihluti stjórnenda í Bandaríkjunum, en það gæti breyst fljótlega, þar sem konur eru nú 46 prósent stjórnenda. Tímalínan passar vel. Vók kom fram á svipuðum tíma og margar mikilvægar stofnanir snerust lýðfræðilega frá meirihluta karla yfir í meirihluta kvenna. Innihaldið passar líka. Allt sem tengist vókinu snýst um að forgangsraða hinu kvenlega fram yfir hið karllega: einlægni og samkennd fram yfir rökhyggju, öryggi fram yfir áhættu, samheldni fram yfir samkeppni.

Hópdýnamík

Hópdýnamík kvenna styður samstöðu og samstarf. Karlar gefa hver öðrum skipanir, en konur leggja til og sannfæra. Allar gagnrýnisraddir eða neikvæðar tilfinningar, ef nauðsynlegt er að tjá þær, verður að hylja undir mörgum lögum af hrósi. Niðurstaða umræðunnar skiptir minna máli en það að hún hafi farið fram og allir tekið þátt í henni. Mikilvægasti kynjamunurinn í hópdýnamík er viðhorf til átaka: karlar heyja átök opinberlega, konur grafa undan eða útiloka andstæðinga sína á óbeinan hátt.

Karlar eru yfirleitt betri í að aðskilja hlutverk en konur, og vók er að mörgu leyti samfélagsleg bilun í að viðhalda þeirri aðgreiningu. Áður fyrr gátu læknar haft skoðanir á pólitískum málefnum, en töldu það faglega skyldu sína að halda þeim utan stofutíma. Nú þegar læknisfræðin hefur orðið kvenvæddari bera læknar merki og slaufur sem sýna afstöðu þeirra til umdeildra málefna, allt frá réttindum samkynhneigðra til ástandsins í Gaza. Þeir fórna jafnvel trúverðugleika starfs síns í þágu pólitískra tískustrauma, eins og þegar læknar sögðu að Black Lives Matter-mótmæli mættu halda áfram þrátt fyrir Covid-lokanir, vegna þess að kynþáttafordómar væru lýðheilsuvandi.

Ógn kvenvæðingar við stofnanir samfélagsins

Ógnin sem samfélaginu stafar af kvenvæðingu er mismunandi eftir atvinnugreinum. Það er dapurlegt að enskudeildir séu nú allar kvenvæddar en aðrar greinar skipta meira máli. Stofnanir eins og fjölmiðlar, sem móta ,,sannleikann,” skipta meira máli. Árið 1974 voru aðeins tíu prósent fréttamanna New York Times konur. Meiri hluti fréttamanna NYT varð kvenkyns árið 2018; í dag eru konur 55% starfsliðsins. Ef miðlar eins og New York Times, bæla niður óvinsælar skoðanir  (enn meira en þeir gera nú þegar), bitnar það á öllum borgurum.

Lögfræði mun ekki lifa af kvenvæðingu

Engri grein stafar jafn mikil hætta af kvenvæðingu og lögfræði. Við treystum öll á starfandi réttarkerfi, og réttarríkið mun ekki lifa af ef lögfræðistéttin verður kvenvædd. Réttarríkið snýst ekki bara um að setja reglur á blað, heldur að fylgja þeim eftir,  jafnvel þegar niðurstaðan er óþægileg eða gengur gegn tilfinningum manns um hvor málsaðilinn eigi skilið meiri samúð.

Kvenvæðing lögfræðinnarmun líkjast Title IX-málsmeðferðarreglum um kynferðislega áreitni í bandarískum háskólum sem voru innleiddar árið 2011 undir stjórn Obama. Þetta málsmeðferðarkerfi skortir mörg þeirra grundvallaratriða sem réttarkerfi okkar hefur í heiðri, eins og rétt sakbornings til að horfast í augu við ákæranda, réttinn til að vita um sakarefnið og það grundvallaratriði að sekt eigi að ráðast af hlutlægum staðreyndum sem báðir aðilar þekki – ekki af tilfinningum annars málsaðila og upplifun hennar af atburðinum.

Ógnin við réttarríkið

Þessar grundvallarreglur réttarríkisins voru fjarlægðar þegar Title IX málsmeðmerðarkerfið var tekið í notkun vegna þess að þeir sem það innleiddu höfðu meiri samúð með ákærendum, sem voru aðallega konur, en sakborningum, sem voru að mestu leyti karlmenn.

Ef lagastéttin verður kvenvædd, mun Title IX-dómstóla ,,siðferðið” fylgja í kjölfarið.   Dómarar munu beygja reglurnar fyrir hópa sem þeir aðhyllast en fylgja þeim eftir með hörðum höndum fyrir óvinsæla hópa (eins og hvíta karlmenn), sem þegar er orðið verulegt áhyggjuefni. Breytingarnar mun  verða gífurlegar – og hræðilegar.

Hin mikla kvenvæðing er fordæmalaus. Aðrar siðmenningar hafa veitt konum kosningarétt, eignarrétt eða leyft þeim að erfa keisaraveldi. Engin siðmenning í mannkynssögunni hefur nokkru sinni prófað að láta konur stýra jafn mörgum grunnstofnunum samfélagsins, frá stjórnmálaflokkum til háskóla til stærstu fyrirtækja okkar. Jafnvel þar sem konur sitja ekki í æðstu stöðum, setja þær tóninn í þessum stofnunum, þar sem karlkyns forstjóri verður að starfa innan marka sem mannauðsstjórinn skilgreinir. Við höfum gert ráð fyrir að þessar stofnanir haldi áfram að starfa eðlilega undir þessum nýju, algerlega framandi aðstæðum. En á hverju höfum við byggt við þá forsendu?

Endurreisum jafnrétti

Vandamálið er ekki að konur séu óhæfari en karlar eða að samskiptamynstur kvenna sé endilega óæðra. Vandamálið er að þessi samskiptamynstur henta ekki öllum markmiðum helstu stofnana samfélagsins. Það er hægt að hafa fræðasamfélag þar sem konur eru í meirihluta, en það mun (eins og meirihluta-kvenvæddu deildir háskólanna nú til dags sýna) hafa önnur markmið en opna umræðu og óhefta sannleiksleit. Og ef fræðasamfélagið leitar ekki sannleikans, hvaða gagn er að því? Ef fréttamenn eru ekki stóískir einstaklingshyggjumenn sem er sama þó að þeir móðgi fólk, hvaða gagn gera þeir þá? Ef fyrirtæki tapar dirfskunni og breytist í kvenlæga, innhverfa skrifræðisstofnun, mun það ekki staðna?

Sanngirni og jafnvægi

Ef hin mikla kvenvæðing felur í sér ógn við siðmenninguna, þá er spurningin hvort við getum gert eitthvað í því. Svarið fer eftir því hvað við teljum hafa verið ástæðu hennar til að byrja með. Margir álíta hina miklu kvenvæðingu vera náttúrulega þróun. Konum hafi loks verið gefið tækifæri til að keppa við karla, og í ljós hafi komið að þær væru einfaldlega betri. Þess vegna séu svo margar konur í fjölmiðlum, við stjórnun stjórnmálaflokka og í æðstu stöðum fyrirtækja.

Tökum lóðin af vogarskálinni

En eru þeir sem kvarta yfir hinni miklu kvenvæðingu ekki bara bitrir yfir því að vera ekki nógu samkeppnishæfir, eins og margir femínistar segja? Nei, vegna þess að kvenvæðing er ekki eðlileg afleiðing þess að konur hafi einfaldlega unnið. Kvenvæðingin er tilbúin niðurstaða félagslegrar verkfræði, og ef við tökum lóðin af vogarskálinni, sem þar eru sett í þágu kvenna, mun hún hrynja innan einnar kynslóðar.

Þyngsta lóðið á vigtinni er mismununarlöggjöf. Það er ólöglegt að ráða of fáar konur. Ef of fáar konur eru í fyrirtækjum og stofnunum, sérstaklega í yfirstjórn, þýðir það málarekstur fyrir dómi með tilheyrandi fjárútlátum. Afleiðingin er sú að vinnuveitendur ráða konur og veita þeim stöðuhækkun sem þær hefðu annars ekki fengið, einfaldlega til að halda tölfræðinni í lagi.

Breytt vinnustaðamenning

Mismununarlöggjöf krefst þess ekki aðeins að vinnustaðir verði kvenvæddir, þeir verða einnig að vera kven-vinsamlegir. Dómstólar hafa ákveðið að myndir af nöktum eða hálfnöktum fyrirsætum á veggjum skemmtistaða eða vinnustaða séu „fjandsamlegt vinnuumhverfi“ fyrir konur, og hefur sú túlkun verið útvíkkuð verulega. Tugir fyrirtækja í Silicon Valley hafa verið kærð fyrir að viðhalda „bræðralagsmenningu“ eða „eitraðri brómenningu“ og lögfræðistofa sem sérhæfir sig í þessum málum hrósar sér af dómssáttum sem nema frá $450.000 upp í $8 milljónir.

Konur geta kært yfirmenn sína fyrir að reka vinnustað sem minnir á bræðralagshús, en karlar geta ekki kært þegar vinnustaðurinn minnir á Montessori-leikskóla. Vinnuveitendur verða að fara varlega og gera vinnustaðamenninguna ,,mjúka.” Ef konur dafna betur á slíkum vinnustöðum, þá er það ekki vegna þess að þær eru raunverulega  eitthvað ,,betri” en karlar, heldur vegna þess að leikreglunum hefur verið breytt þeim í vil.

Karlar flýja kvenleg norm

Margt má ráða af því hvernig kvenvæðing hefur tilhneigingu til að aukast með tímanum. Þegar stofnanir ná 50–50 kynjahlutfalli, virðast þær missa jafnvægið og verða æ kvenvæddari. Frá árinu 2016 hafa lagadeildir orðið kvenvæddari með ári hverju; árið 2024 voru konur 56 prósent nemenda. Sálfræði, sem einu sinni var að mestu fræðigrein karla, er nú nær alveg kvenvædd – 75 prósent doktorsgráða í sálfræði fara til kvenna. Stofnanir virðast hafa vendipunkt, þar sem jafnvægi breytist í aukna kvenvæðingu

Það lítur ekki út eins og konur séu að skáka körlum út af borðinu. Það er eins og karlar séu að hverfa, á flótta undan kvenlegum normum sem smátt og smátt taka yfir áður karllægar stofnanir. Og skiljanlega. Hvaða karlmaður vill vinna þar sem eðlislægir eiginleikar hans eru ekki velkomnir? Hvaða karlkyns doktorsnemi með vott af sjálfsvirðingu myndi velja fræðistörf þar sem kollegar hans forðast hann fyrir að hafa ákveðnar skoðanir eða tjá umdeilda afstöðu?

Glugginn er að lokast

Glugginn til að gera eitthvað í hinni miklu kvenvæðingu er að lokast. Við erum nú í millitímabili þar sem konur eru meirihluta laganema en meirihluti dómara er enn karlmenn. Eftir nokkra áratugi – með áframhaldandi lóð í þágu kvenna á vogarskálinni – mun kynjahlutfallið ná sinni ,,náttúrulegu” niðurstöðu. Margir telja að vók sé búið að vera, en ef vók er afleiðing lýðfræðilegrar kvenvæðingar, þá mun það ekki hverfa meðan lýðfræðin helst óbreytt.

Endurheimtum sanngirni

Lausnin á kvenvæðingarvandamálinu krefst þess ekki að við lokum neinum dyrum í andlit kvenna. Við þurfum einfaldlega að endurheimta sanngjarnar reglur. Núverandi kerfi krefjast þess bókstaflega að konur vinni alltaf. Annað er ólöglegt. Miðum ráðningar aftur við raunverulega hæfileika fólks. Hættum að krefjast að vinnustaðamenning taki aðeins mið af því hvað konum finnst þægilegt. Tökum neitunarvaldið af mannauðsstjóranum. Það mun koma mörgum á óvart hve mikið af kvenvæðingu samfélagsins má rekja til stofnunar mannauðsdeilda.

Ég ekki aðeins kona. Ég er einnig manneskja með margvíslegar og oft óvinsælar skoðanir, sem mun eiga erfitt uppdráttar ef samfélagið kvenvæðist enn meira, með tilheyrandi óþoli fyrir skoðunum sem ekki eru kvenlægar.  Ég er móðir sona, sem munu aldrei ná fullum þroska ef þeir þurfa að vaxa upp í kvenvæddu samfélagi. Ég er — við erum öll — háð stofnunum eins og réttarkerfinu, vísindarannsóknum og lýðræðislegri stjórnmálastarfsemi, sem eru undirstöður vestrænnar menningar og við munum öll þjást ef þær hætta að valda þeim verkefnum sem þær voru hannaðar til að sinna.

Helen Andrews er höfundur Boomers: Fólkið sem lofaði frelsi en skilaði hörmungum.

Íris Erlingsdóttir
Þýðandi er fjölmiðlafræðingur

Fara efst á síðu