Kötturinn drepur edrú mýsnar jafn mikið og þær drukknu

Það var ánægjulegur endurfundur að ná sambandi við Gústaf Níelsson sagnfræðing á Spáni eftir töluverðan tíma frá síðasta viðtali. Gústaf sagði líka að af mörgu væri að taka bæði á Íslandi og einnig sérstaklega í heimsmálunum varðandi friðarumleitanir Donald Trump Bandaríkjaforseta á Úkraínustríðinu. Gústaf Níelsson sagði stjórnmálamenn marga ekki tengda við raunveruleikann og að Trump hefði ruglað hárgreiðslu margra evrópskra stjórnmálamanna. Gústaf segir frið verða að fara að komast á í Úkraínu, ekki gangi að halda þessu hryllilega stríði áfram.

Byrjað var á því að ræða ástandið á Íslandi. Gústaf Níelsson telur að margt bendi til þess að núverandi ríkisstjórn nái ekki að sitja út allt kjörtímabilið. Valkyrjurnar eru núna úti á miðju stjórnmálahafi og það eys yfir þær seltu, ráðherra farinn innan 100 daga. Gústaf telur að Ásthildur Lóa hafi verið svæld úr embættinu í því skyni að styrkja ríkisstjórnina en útkoman væri þveröfug og ríkisstjórnin veikari fyrir vikið.

Skattahækkanir kallaðar „leiðréttingar 

Gústaf Níelsson segir athyglisvert að sjá hvernig ríkisstjórnin hafi brugðist við með tilliti til þess sem lofað var í aðdraganda kosninganna. Fólki og fyrirtækjum var lofað því að ekki yrðu hækkaðir skattar, það hefur ekki staðist:

„Þegar menn eru farnir að kalla skattahækkanir leiðréttingar, þá spyr maður sig hversu langt á að leiðrétta svona almennt í þessu samfélagi? Stjórnin er ekki að fara vel af stað og fipast í mörgum málum og svo náttúrulega ofan á allt annað, þá var kjósendum lofað því, að Evrópusambandsaðild væri ekki á dagskrá en þær stöllur, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra eru bara komnar á hurðarhúninn í Brussel.“

„Það er svo margt sem er ógeðfellt sem verið er að gera í Brussel þessa dagana. Til dæmis þessi dómur yfir Le Pen sem er fráleitur að mínu viti og einungis gerður í þeim tilgangi að hindra að hún geti boðið sig fram til forseta. 

Bókun 35

Gústaf ræddi bókun 35:

„Það er komin ný kynslóð stjórnmálamanna sem lítur þannig á málin, að það sé enginn stjórnarkrárbundinn fyrirvari hvað varðar bókun 35….Ef að menn ætla að kasta frá sér fullveldinu og framselja það til Brussel, þá líst mér ekkert á framgang mála satt best að segja…. 

„Við ættum að athuga vel hvar við ætlum að hafa okkar rekkjuvoðir, við getum ekki sofið með liðinu í Brussel, það er alveg augljóst. 

Flotastöð fyrir Nató í Finnafirði og nýr flugvöllur á Melrakkasléttu

Gústaf Níelsson hefur áhyggjur af því hvað mikið sé talað um varnarmálin á Íslandi án þess að neitt sé gert í málunum. Fræðimenn og ýmis gáfumenni ræði jafnvel um að stofna eigi her á Íslandi. Hann segir varnarsamninginn við Bandaríkin hafi reynst Íslendingum vel og ef eitthvað ætti að gera sem raunverulega myndi efla varnir Íslands, þá væri það að bjóða Nató að reisa myndarlega flotastöð í Finnafirði og byggja flugvöll á Melrakkasléttu rétt þar hjá. Ísland er svo lítil þjóð en með mikilvæga hernaðarlega stöðu á Atlantshafi.

„Stöðva ber Úkraínustríðið sem allra fyrst“ segir Gústaf og bendir á að þjóðin hafi ekkert efni á að senda peninga og vopn þangað.

Talið barst að Evrópusambandinu og Gústaf segist ekki viss, hvort það hafi verið rétt hjá Finnum og Svíum að ganga svo skyndilega í Nató eins og raun ber vitni. Lítil mótstaða var hjá almenningi og raunveruleikafirrtir stjórnmálamenn notfærðu sér það fyrir eigin stríðsmarkmið í Úkraínu.

Austurríki sker sig frá öðrum löndum í Evrópu

Gústaf Níelsson bendir á þá staðreynd að Austurríki sker sig frá öðrum þjóðum a.m.k. í ESB og hafa látið stríðið í Úkraínu fram hjá sér fara. Stríðsæsingamennirnir eru í Þýskalandi og Frakklandi og svo þessi „skrýtni“ Starmer í Bretlandi. Gústaf segir einu stríðsduglegu herina vera í Póllandi og Tyrklandi og eiginlega ætti að láta Tyrki sjá um friðargæslu í Úkraínu.

Gústaf Níelsson segir stjórnmálamenn hafa farið út af sporinu, þeir ráði ekkert við vandann í Úkraínu og séu eins og skákmenn sem hafa dottið út af taflborðinu og farnir að spila Lúdó í staðinn.

Talið berst að Brussel og þeirri áráttu íslenskra stjórnmálamanna að vera í partýjum hjá Brusselhirðinni og hegða sér eins og drukknar mýs og segja svo: „Komið þið með köttinn!“ Burtséð frá því hvort menn eltast við partý hjá hirðinni eða eru edrú áhangendur Brusselvaldsins, þá ættu menn að gæta sín, því:

„Kötturinn drepur edrú mýs jafn mikið og þær drukknu.“

Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlýða á þáttinn:

Fara efst á síðu