
Jóhann Elíasson, viðskiptafræðingur BSc frá Háskólanum á Akureyri, rekstrarfræðingur frá Agder Distriktshøgskole í Noregi, iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands og stýrimaður (annað stig) frá Stýrimannaskólanum í Rvík. Hann hefur meðal annars skrifað „Upphaf og sögu ESB“ og í nýjustu færslu á blog.is gerir Jóhann að umtalsefni, hversu slælega þingmenn fylgja íslensku stjórnarskránni, þótt þeir hafi svarið eið að henni.
Jóhann skrifar að núna sé heldur betur komið að því að Alþingis-menn/konur fari að fara eftir stjórnarskránni og virði hana í hvívetna „eins og þeir hafa svarið að gera þegar sest er á þing og að sjá til þess að lög sem alþingi setur standist stjórnarskrána.“ Telur Jóhann að fækka beri þingmönnum úr 63 í 40 og að fara þurfi fram endurskoðun á EES-samningnum og að Schengen samkomulaginu verði sagt upp.
Misbrestur á að sett lög séu í samræmi við stjórnarskrána
Jóhann skrifar:
„Allt frá okkar fyrstu árum í skóla hefur okkur verið sagt að hin svokallaða þrískipting ríkisvaldsins sé grundvöllurinn að stjórnskipun lýðveldisins Íslands. Eins og allir vita skiptist valdið í: Löggjafarvald, Framkvæmdavald og Dómsvald.“
Jóhann rekur valdsviðin hver í sínu lagi og dregur í efa að ráðherrar eigi að hafa atkvæðisrétt á Alþingi og spurning „hvort þeir eigi yfirhöfuð nokkuð að eiga sæti þar.“ Segir hann störf Alþingis geta orðið skilvirkari ef ráðherrar myndu bara mæta einu sinni í viku eða sjaldnar í fyrirspurnatíma niður á þing. Síðan skrifar Jóhann um stjórnarskrá lýðveldisins:
„Það er mín skoðun að stjórnarskráin, sem slík sé mjög gott plagg og hefur hún þolað mjög vel tímans tönn en aftur á móti hef ég meiri áhyggjur af þeim sem eru á Alþingi og eiga að sjá til þess að þar sé unnið í samræmi við stjórnarskrána m.a. á að gæta þess að lög sem eru sett séu í samræmi við stjórnarskrána en á því vill nú vera misbrestur.“
„Áður en fólk fer að tala um að það vanti nýja stjórnarskrá er lágmark að sú stjórnarskrá sem er nú þegar til staðar sé virt. Það hefur verið alveg með ólíkindum að horfa upp á starfsemi þingsins og oft hefur það hvarflað að manni að þingið sé með öllu stjórnlaust, ég er alveg viss um að það væri búið að reka forseta þingsins fyrir stjórnleysi og handvömm ef hann væri að vinna í einkageiranum.“
Þjóðin blekkt með þingsályktunartillögu um umsókn Íslands að ESB
Jóhann gerir framhjáaðgerðir stórra mála eins og ESB-umsóknar Íslands sem gerð var sem þingsályktunartillaga til að hægt væri að sniðganga stjórnarskrána. Upphaflega var sagt um þingsályktunartillögur að þær væru aðeins um smámál en allir vita að umsókn vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um ESB-aðild var allt annað en smámál. Jóhann skrifar áfram:
„Í júní 2009 var samþykkt þingsályktunartillaga (1/137) um aðildarumsókn Íslands að ESB …. Þegar umsóknin kom til tals, „strandaði“ alltaf á því, að Jóhanna og flokksmenn hennar höfðu þá staðföstu trú, að þáverandi forseti lýðveldisins myndi aldrei skrifa undir þessa umsókn, sem þýddi að þá yrði þjóðaratkvæðagreiðsla og það væri alveg einsýnt að þar yrði umsóknin felld og þar með yrði umsóknin dauð. Þá datt einhverjum snillingi í hug (sagt er að sá snillingur hafi verið Össur Skarphéðinsson) að leggja aðildarumsóknina að ESB fram sem þingsályktunartillögu því þá þyrfti ekki að hafa áhyggjur af forsetanum. Hvort gjörningurinn væri brot á lögum væri seinni tíma vandamál.“
„Eftir þetta fóru mörg stærri mál í gegnum þingið sem þingsályktunartillögur. Alls hafa 1.287 mál farið í gegn sem þingsályktunartillögur og er það vel merkjanlegt hvað þessum málum hefur fjölgað mikið síðan 2009 og „þröskuldurinn“ á stærð málanna hefur hækkað mikið. Ég fór lauslega yfir þennan lista af þingsályktunartillögum frá upphafi og af þessum 1.287 þingsályktunartillögum eru 246, sem varða breytingar á „viðaukum“ EES samningsins og ég sem hélt að ekki væri hægt að breyta gerðum samningi jafnvel þó aðeins sé um að ræða viðauka. Ég er ansi hræddur um að margt athugavert kæmi í ljós ef allar þessar þingsályktunartillögur yrðu skoðaðar.“
Jóhann Elíasson bendir á að enn reyni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að afnema fullveldi ríkja í heilbrigðismálum á fundum sem eru fram undan og segir:
„Þarna er óumdeilt að um er að ræða framsal á valdi til erlendra aðila, sem er með öllu óheimilt samkvæmt stjórnarskránni. Ég veit ekki til þess að þetta mál hafi verið rætt á Alþingi … Ætla þingmennirnir að setja sig inn í málið EFTIR að búið er að skrifa undir og hvað á þá að gera?“
Bókun 35 er landráðafrumvarp sem verður að stöðva
Jóhann Elíasson endar pistilinn á eftirfarandi orðum:
„Nú reynir heldur betur á alla þá sem sitja á Alþingi Íslendinga. Nú er búið að leggja fram á Alþingi landráðafrumvarp sem nefnt er BÓKUN 35, það er ekki minnsti vafi að þetta felur í sér valdaframsal. Ég veit ekki betur en að allir sem setjast á þing sverji eið að stjórnarskránni og stjórnarskráin heimilar ekki valdframsal. Ég reikna nú ekki með að þingmenn eigi að rifja þennan eið upp við upphaf hvers þings, en kannski væri ekki vanþörf á því, þó ekki væri nema til að hressa upp á minni ráðherra og þingmanna sem virðist ekki vera vanþörf á.“