Kína fjarlægir krossa úr kirkjum og setur myndir af Xi Jinping í stað Jesús Krists og Maríu mey

Í nýrri skýrslu (sjá pdf að neðan) er lögð áhersla á viðleitni kínverska kommúnistaflokksins, CCP, til að ná fullri stjórn á kaþólsku kirkjunni og öðrum trúfélögum í Kína. Skal það gert með valdi svo hægt sé að útrýma trúarlegum þáttum sem stangast á við pólitískar reglur og markmið kommúnistaflokksins.

Greiningin, sem gefin var út í síðustu viku af bandarísku nefndinni um alþjóðlegt trúfrelsi USCIRF, heldur því fram að stefna CCP um „málvæðingu trúarbragða” (sinicization of religion) brjóti kerfisbundið gegn alþjóðlegum vernduðum réttindum til trúfrelsis. „Sinicization” sem almennt vísar til aðlögunar að kínverskri menningu, er notað til að þvinga trúarbrögðin undir pólitíska stefnuskrá CCP og marxíska skoðun á trúarbrögðum (ópíum fyrir fólkið).

Allir verða að skrá sig í trúarfélög undir stjórn kommúnista

Samkvæmt skýrslunni hafa kínversk yfirvöld fyrirskipað að krossar verði fjarlægðir úr kirkjum og í stað mynda af Kristi og Maríu mey komi myndir af Xi Jinping forseta. Stjórnvöld hafa líka ritskoðað trúartexta og neytt klerka til að boða hugmyndafræði kommúnistaflokksins og fyrirskipað að slagorð kommúnistaflokksins verði hent upp í kirkjum.

Til að aðlaga trúarbrögð að flokksræðinu og kommúnistaáróðrinum, þá krefjast stjórnvöld þess að trúarhópar skrái sig í ýmis „þjóðrækin trúfélög“ sem staðbundnar deildir þeirra. Kaþólska kirkjan verður þannig að skrá sig hjá kínversku kaþólsku þjóðræknissamtökunum, sem er undir stjórn opinberrar ríkisnefndar um trúarbrögð og samfylkingaratvinnuráðuneyti kommúnistaflokksins.

Litið er á alla aðra sem iðka trúarbrögð fyrir utan ríkissamþykktra félaga eru taldir vera „sértrúarsöfnuðir“ og eru háðir sérstökum lögum ríkisins um meðhöndlun sértrúarsafnaða. Hefur sú stefna leitt til fjöldahandtöku og fangelsun á kaþólikkum sem iðka trú sína neðanjarðar, þar sem prestum sem vinna fyrir stjórnvöld er ekki treystandi.

Samkomulag Vatíkansins gefur kommúnistaflokknum alræðisvald við tilnefningu biskupa

Asif Mahmood, framkvæmdastjóri USCIRF, bendir á að kommúnistaflokkurinn líti á neðanjarðar kaþólikka sem ógn vegna þess að þeir samþykkja ekki meint vald ríkisstjórnarinnar til yfirtöku á trúarbrögðum og trúarlegum málefnum. Hann útskýrir, að þótt sumir kaþólikkar kjósi að iðka trú sína samkvæmt lögum innan kaþólsku þjóðræknissamtaka ríkisins, þá séu þeir ekki frjálsir vegna harðsvíraðs eftirlits kommúnista.

Í skýrslunni er einnig hið meinta samkomulag Vatíkansins ár 2018 við kommúnistaflokk Kína um samstarf varðandi skipun biskupa gagnrýnt. Sagt er að kommúnistaflokkurinn hafi einhliða sett biskupa sem fylgja flokknum án tillits til samþykkis Vatíkansins. Einnig „hverfa” trúarleiðtogar sem eru ósammála kommúnistaflokknum til dæmis biskuparnir Peter Shao Zhumin og Augustine Cui Tai.

Nina Shea, forstöðumaður trúfrelsismiðstöðvar Hudson-stofnunarinnar, varar við því að kommúnistaflokkur Kína sé að reyna að slíta kaþólsku kirkjuna í Kína frá páfanum í Róm. Aðgerðir beinast einkum að biskupum vegna mikilvægs hlutverks í tengslum við Vatíkanið. Shea bætti við að samkomulag Vatíkansins og Kína hafi mistekist að vernda trúfrelsi og hafi í staðinn leitt til mikillar kúgunar. Er um að ræða eitt stærsta kúgunartímabil fyrir kínverska kaþólikka síðan á dögum Maó Tsetung.

Kommúnistaflokkur Kína sekur um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni

Markmið kommúnista að ná völdum yfir trúarbrögðum nær langt út fyrir raðir kaþólikka. Aðgerðir kommúnistaflokksins beinast þannig líka gegn mótmælendum, múslimum, taóistum, búddistum og kínverskum þjóðtrúarbrögðum. Meðal alræmdustu dæmanna er þvinguð fangavist úígúrskra múslima í „endurhæfingarbúðum” þar sem fangar eru þvingaðir til að afsala sér eigin tungumáli, menningu og trúarhefðum. Þessari meðferð er lýst sem „þjóðarmorði og glæpum gegn mannkyni.“ Vísað er til breytinga á trúarlegum textum og styttum sem tilheyra búddistum og taóistum. Aðgerðir kommúnistaflokksins miða að því að bæla niður hvers kyns vinnubrögð sem talin eru í andstöðu við markmið flokksins og viðkomandi verða að undirkasta sig hlýðni til að fylgja valdboðum flokksins.

Samningurinn frá 2018 milli Vatíkansins og Kína er enn leynilegur en áhrifin eru augljós. Með því að lögfesta samtök kaþólskra þjóðrækinna undir stjórn kommúnistaflokksins, vonaðist Vatíkanið til að hafa áhrif á starfsemina og að kaþólikkar í felum gætu komið fram. Joseph Zen, biskup emeritus í Hong Kong, heldur því fram að Vatíkanið hafi engu áorkað og glatað mikilvægum áhrifum í röðum kaþólikka í Kína.

Fara efst á síðu