Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, ávarpaði þingið 9. júlí og sagði að allar diplómatískar leiðir til að leysa stríðið milli Rússa og Úkraínu hefðu verið tæmdar. Hann staðfesti skuldbindingu sína að aðstoða Úkraínu í stríðinu gegn Rússum.
Yfirlýsingin kemur eftir að nýlegar friðarviðræður Rússa og Úkraínu í Istanbúl mistókust. Engin skref voru tekin til að binda enda á stríðið en samkomulag tókst um frekari fangaskipti.
Samkvæmt Guardian sagði Merz:
„Þegar glæpastjórn véfengir opinberan rétt annars lands til að hafa her og leggur áherslu á að eyðileggja stjórnmálafrelsi í allri heimsálfu Evrópu, þá mun alríkisstjórnin sem ég stýri gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir það.“
Athugasemdir Merz koma eftir að Vladimír Pútín sagðist vera tilbúinn fyrir þriðju lotu friðarviðræðna og lagði til að bæði löndin ræddu þau atriði sem enn eru „algerlega andstæð.“ Pútín vonast til að þessar viðræður geti fært þjóðirnar nær því að finna samningshæfa skilmála.
Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, vonast til að næsta viðræðulota verði beinn fundur milli Zelenskyj og Pútíns en Pútín hefur verið fjarverandi fyrri viðræður en lægra settir embættismenn sendir í staðinn. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, vinnur að sameiginlegum fundi Zelenskyj og Pútín og mögulega með aðkomu Donald Trumps forseta Bandaríkjanna sem segist hugsanlega geta tekið þátt í slíkum viðræðum. Pútín sagði 27. júní að það væri „alveg mögulegt“ að fundur milli hans og Donalds Trumps gæti átt sér stað.
Þrátt fyrir mikla diplómatíska spennu á milli Kænugarðs og Moskvu hafa diplómatísk samskipti verið í gangi. Merz virðist vera að hella olíu á eldinn en á meðan diplómatísk samskipti eru enn til staðar er Tyrkland reiðubúið að vinna að framgangi friðarviðræðna.
Merz gekk svo langt að fordæma þingmenn þegar hann staðfesti skuldbindingu sína gagnvart Úkraínu „jafnvel gegn þrýstingi frá vinstri og hægri mönnum sem styðja Rússa í þessu húsi.“
Stuðningur Þjóðverja við Úkraínu er mikilvægur fyrir Úkraínustríðið, þar sem Bandaríkin snúa sér að eigin hernaðarvígbúnaði. Trump hefur hins vegar fyrirskipað að endurnýjaðar verði birgðir Patriot-flauga sem Úkraína þarfnast gegn auknum eldflaugaárásum frá Rússlandi.
Alice Weidel, leiðtogi AfD (Alternative for Deutschland), gagnrýndi Merz fyrir að brjóta kosningaloforð á meðan hann héldi sig erlendis og léti sósíaldemókrataflokkinn stjórna innanríkismálum.
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði Þýskaland um að auka þátttöku sína í stríðinu og varaði við því að landið gæti endurtekið söguleg mistök sem leiddu til hruns Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni. Dmitry Peskov, talsmaður Kreml, fordæmdi einnig aðgerðir Þýskalands og sakaði landið um að keppa við Frakkland um að stigmagna stríðið.
Árásargjarn orðræða Merz gæti haft áhrif við samningaborðið, þar sem Rússar íhuga afleiðingar fjandskapar Evrópu og uppbyggingu alls vígbúnaðar. Rússland hefur hingað til verið staðráðið í að halda áfram þessum fjögurra ára átökum og óvíst að stríðshaukar Evrópu muni fá Pútín til að endurskoða ákvörðun sína.