Japönsk friðarsamtök gegn notkun kjarnorkuvopna fá friðarverðlaun Nóbels

Toshiyuki Mimakis, formaður japönsku Nihon Hidankyo friðarsamtakanna í Japan varð að klípa sig í kinnina, þegar hann frétti, að saamtök hans höfðu fengið friðarverðlaun Nóbels í ár (skjáskot SVT).

Friðarverðlaun Nóbels 2024 eru veitt japönsku samtökunum Nihon Hidankyo. Norska Nóbelsverðlaunanefndin tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi í gær föstudag. Japönsku samtökin Nihon Hidankyo vinna að heimi án kjarnorkuvopna og voru stofnuð af eftirlifendum kjarnorkusprengjuárásar Bandaríkjamanna á borgirnar Hírósíma og Nagasaki í seinni heimsstyrjöldinni.

Að sögn norsku Nóbelsnefndarinnar hafa þessi samtök stuðlað mjög að því að ekki verði gripið til kjarnorkuvopna í stríði. Jørgen Watne Frydnes, formaður norsku nóbelsnefndarinnar, sagði á blaðamannafundinum:

„Það er skelfilegt að í dag er verið að þrýsta á um notkun kjarnorkuvopna. Kjarnorkuveldin eru að nútímavæða og uppfæra vopnabúr sín. Ný ríki virðast vera að undirbúa sig fyrir að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Og hótað er með að nota kjarnorkuvopn sem hluta af áframhaldandi hernaði.“

Sjá tilkynningu Jørgen Watne Frydnes, formanns norsku nóbelsnefndarinnar, á myndskeiðinu hér að neðan:

Fara efst á síðu