Ísrael samþykkir friðaráætlun Trumps

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels hefur samþykkt friðaráætlun Bandaríkjanna og Donald Trumps forseta varðandi Gaza. Það eina sem er eftir er að Hamas samþykki áætlunina, ef ekki þá munu Bandaríkin styðja að Ísrael gangi endanlega frá Hamas og bindi enda á stríðið.

Trump og Netanyahu tilkynntu á sameiginlegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu (sjá myndskeið að neðan), að Ísrael hefði samþykkt friðaráætlunina. Hún er í 21 liðum og hafði áður verið kynnt fyrir hópi arabaríkja.

Samkvæmt fréttum í ísraelskum fjölmiðlum felur bandaríska áætlunin í sér grundvöll tveggja ríkja lausnar og að Hamas skuli sleppa öllum gíslum sem eftir eru innan tveggja daga og að hryðjuverkasamtökin skuli afvopnast. Ísrael mun sleppa hundruðum fanga og draga sig smám saman til baka frá Gaza.

Gaza á að verða hryðjuverkalaust svæði sem ekki lengur ógnar öðrum og svæðið verður endurbyggt. Lagt er til að svæðinu verði stjórnað af bráðabirgðastjórn án aðkomu Hamas. Alþjóðastofnun undir forystu Trumps og meðal annars fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, eiga að hafa eftirlit með þessu.

Að sögn Trumps fær Hamas 72 klukkustundir til að leysa gíslana úr haldi. Ekki er vitað, hvort hryðjuverkasamtökin samþykki áætlunina en ef þau muni ekki gera það, þá munu Bandaríkin veita Ísrael fullan stuðning til að „klára verkið.“

Blaðamannafundur í beinni:

Fara efst á síðu