Mikið hefur verið rætt um að bæði Kanada og Grænlendingar gætu orðið 51. og 52. ríki Bandaríkjanna. Sameinaðist Ísland Bandaríkjunum eftir það gæti landið orðið 53. ríki Bandaríkjanna. Um þá hugmynd hefur Viðar Sigurðsson á Akranesi gert stutta mynd, þar sem hann ræðir kosti þess fyrir Íslendinga að sameinast Bandaríkjunum í stað þess að fara í gröfina með ESB.

Viðar Sigurðsson frá Akranesi er lesendum Þjóðólfs kunnur eftir fyrra viðtal um rapp sem hann og 10 ára gamall sonur hans sungu gegn ranghugmyndum kynlífskennslu í barnaskólanum. Þjóðólfur náði tali af Viðari sem er í læknaheimsókn í Serbíu og því ekki alveg fullur heilsu í augnablikinu. Það aftraði samt ekki Viðari frá því að svara spurningum Þjóðólfs um nýju myndina hans.
Myndin er afskaplega vel gerð og þulur les upp á ensku um hvernig hlutirnir gætu verið ef Ísland væri 53. ríki Bandaríkjanna. Myndin er sýn þeirra möguleika til velsældar kjósi Íslendingar að halla sér að Bandaríkjunum í staðinn fyrir ESB. Í textanum segir þulurinn eftirfarandi (í lausri þýðingu):
Hefur þú einhvern tíma velt því fyrir þér hvernig það væri ef Ísland gengi í Bandaríkin?
„Ísland, sem 53. stjarnan? Hefur þú einhvern tíma velt því fyrir þér hvernig það væri ef Ísland gengi í Bandaríkin? Jæja, árið 2030 varð til saga. Ísland varð 53. ríki Bandaríkjanna og hóf þar með nýtt tímabil velmegunar og nýsköpunar.
Reykjavík breyttist í mikilvæga miðstöð fyrir viðskipti yfir Atlantshafið og myndaði óaðfinnanlega brú á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Sjávarútvegur á Íslandi náði nýjum hæðum með samningum við Kanada, Grænland og öll 50 ríki Bandaríkjanna. Það tryggði sjálfbæra velmegun og opnaði dyrnar fyrir reynda frumkvöðla sem stofnuðu ný fyrirtæki í sjávarútveginum sem gömlu kvótaeigendurnir höfðu áður sett skorður.
Markaðir eru aftur opnir í Rússlandi og gríðarlegur hagnaður á bandarískum viðskiptasamningum. En hlutirnir eru fleiri en viðskipti. Með háþróaðri varnartækni gegnir Ísland núna mikilvægu hlutverki við að viðhalda öryggi á Norður-Atlantshafi og draga verulega úr erlendum áhrifum á norðurslóðum.
Og þar sem Ísland er orðið hluti af bandarísku landamæraeftirliti, eru innflytjendaáskoranir úr sögunni. Sveitarfélögin hafa fengið vald til að móta menntastefnuna og boðið er upp á heimanám sem valkost við menntun. Tekið er á móti erlendum nemendum í íslenska háskóla. Þessi staðbundna nálgun tryggir að menntunarþörfum hvers sveitarfélags sé mætt af nákvæmni. Orkuiðnaðurinn á Íslandi hefur upplifað áður óþekktan vöxt með því að afnema hamlandi umhverfislöggjöf.
Með því að nýta miklar jarðhita- og vatnsaflsauðlindir sínar hefur Ísland, sem núna er stutt af bandarískum fjárfestingum, orðið leiðandi á heimsvísu í nýsköpun hreinnar orku. Umframorka er flutt út til Kanada og Grænlands og háþróuð sjálfbær tækni þróuð sem eflir efnahagslífið enn frekar.
Með efnahagslegri aðlögun að Bandaríkjunum njóta Íslendingar nú ótakmarkaðra atvinnutækifæra í öllum ríkjum og hafa núna skattfrjálsar tekjur allt að $150.000 (um 20 milljónir íslenskar kr.). Þetta hefur leitt til uppsveiflu í hagkerfinu sem færir öllum ný tækifæri og hagvöxt.
Bandaríkin starfa núna aftur samkvæmt stjórnarskrá sinni og Ísland sömuleiðis. Það tryggir jafnan rétt allra. Stjórnmálamenn geta ekki lengur fórnað stjórnarskrárbundnum réttindum almennings. Arfleifðinni er nýtt með opnum huga fyrir hvert skref sem tekið er inn í bjartari framtíð. Ferð Íslands sem 53. ríkisins er rétt að hefjast. Land elds og íss rís nú upp sem tákn fyrir seiglu, nýsköpun og framfarir.“
Innganga í ESB er hellulagður vegur til heljar
Viðar Sigurðsson varar eindregið við því, að Íslendingar gangi með í Evrópusambandið, því það er „hellulagður vegur til heljar“ eins og hann orðar það. Hann segir að íslenskir stjórnmálamenn sem vinni að því hörðum höndum að svíkja landsmenn með yfirtöku ESB á auðlindum landsins og þar með afkomu landsmanna, þurfi vægast sagt á einhverri endurhæfingu að halda. Viðar vill að Ísland skrúfi fyrir vók vitleysuna:
„Við þurfum að rífa niður VÓK-múrinn stein fyrir stein, þar til hann er með öllu horfinn.“
Viðari er tíðrætt um þær gjörólíku leiðir sem bandaríska þjóðin og sú íslenska stefna í. Í Bandaríkjunum er Trump að endurskipuleggja stjórnkerfi landsins til samræmis við upphaflegu stjórnarskrá Bandaríkjanna og auka athafnafrelsi og málfrelsi í öllu landinu. Það gerir hann með því að minnka ríkisumsvif sem flytur meiri völd til stjórna ríkjanna eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. Hann er með öðrum orðum að endurvekja grundvöllinn fyrir frelsi einstaklingsins, athafnafrelsinu og virkjun sköpunarkrafts Bandaríkjanna að nýju. Viðar segir:
„Hugsaðu þér að maður getur þénað samsvarandi 20 milljónir íslenskar kr. árlega án þess að greiða af þeim tekjuskatt! Í Bandaríkjunum er raunverulegur kapítalismi. Á Íslandi er sósíalkapítalismi sem er alls enginn kapítalismi.“
Hann segir að þegar búið verður að rífa niður VÓK-múrinn á Íslandi muni brjótast út fagnaðarlæti með flugeldasýningum sem leiðir hugann að öðrum sögufrægum múr sem rifinn var niður við mikinn fögnuð milli austur og vestur í Berlín.
Réttur frumbyggjans að verja eigin afkomu
„Fyrir Ísland er bara að skrúfa fyrir þessa vitleysu“ segir Viðar með skírskotun til mikils ójöfnuðar í fjölmiðlamálum, þar sem RÚV drottnar og aðrir miðlar gerðir háðir ríkinu með ríkisstyrkjum. Hann bendir á heilbrigðiskerfið sem ekki virkar. Það er ástæðan fyrir því að hann er staddur núna í Serbíu m.a. vegna nýrnakvilla. Að fá tannviðgerðir í leiðinni er bónus sem ekki er í boði á Íslandi. Það var athyglisvert að hlusta á frásögn Viðars Sigurðssonar sem er að feta sporin áfram í kvikmyndagerð og rapptónlist. Margt fleira bar á góma sem heyra má í viðtalinu hér að neðan. Hann sagði að lokum að frumbyggjar hefðu réttindi og þyrftu að standa á þeim. Þjóðólfur er því hjartanlega sammála.
Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlýða á samtalið: