Biskuparnir Agnes M. Sigurðardóttir og Guðrún Karls Helgudóttir gætu mögulega sótt um hæli í Rússlandi láti þær af „eyðandi viðhorfum” sínum.
Samkvæmt Big News Network hefur Rússland sett 47 lönd á lista yfir þjóðir með „eyðandi viðhorf“ sem stangast á við rússnesk gildi. Samtímis er opnað á þann valkost, að ríkisborgarar þessara ríkja sem vilja, geta sótt um hæli í Rússlandi.
Vladímír Pútín forseti Rússlands skrifaði undir tilskipun í síðasta mánuði sem gerir útlendingum sem deila hefðbundnum gildum Rússlands og eru ósammála þeirri „nýfrjálshyggju“ sem ríkisstjórnir þeirra kynda undir, kleift að sækja um landvist í Rússlandi.
Á föstudag birti Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, lista yfir lönd og landsvæði sem „innleiða stefnu sem kveður á um eyðileggjandi hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem stangast á við hefðbundin rússnesk andleg og siðferðileg gildi.”
Listinn var birtur á samráðsgátt rússnesku ríkisstjórnarinnar og telur upp eftirfarandi lönd og yfirráðasvæði:
„Ástralía, Austurríki, Albanía, Andorra, Bahamaeyjar, Belgía, Búlgaría, Bretland, Þýskaland, Grikkland, Danmörk, Írland, Ísland, Spánn, Ítalía, Kanada, Kýpur, Lettland, Litháen, Lichtenstein, Lúxemborg, Malta, Míkrónesía, Mónakó, Holland, Nýja Sjáland, Noregur, Pólland, Portúgal, Suður-Kórea, Rúmenía, San Marínó, Norður Makedónía, Singapúr, Bandaríkin, Taívan (kína) Úkraína, Finnland, Frakkland, Króatía, Svartfjallaland, Tékkland, Sviss, Svíþjóð, Eistland og Japan.”
Það vekur athygli að þrjú Nató ríki – Slóvakía, Ungverjaland og Tyrkland eru ekki með á listanum. Slóvakía og Ungverjaland eru einnig aðildarríki ESB. Flest nefndra ríkja voru áður á lista Rússlands yfir „óvinveittar“ ríkisstjórnir vegna fjandsamlegra viðskiptaþvingana, fjárkúgunar og brottrekstur rússneskra diplómata svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt tilskipun Pútín eru ríkisborgarar viðkomandi ríkja sem sækja um hæli í Rússlandi undanþegnir venjulegum innflytjendakröfum eins og að kunna rússneska tungu og þekkja sögu og lög Rússlands.