„Ætlarðu að segja mér að hann hafi verið dreginn fyrir dóm vegna þessa?“ Bandarískur lögfræðingur tjáir sig um mál Páls Vilhjálmssonar

Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur
Íris Erlingsdóttir bað bandarískan lögfræðing, ritstjóra (Senior Legal Editor) hjá WestLaw Publishing – Thomson Reuters, sem er heimsins fremsti útgefandi lagabókmennta og lögfræðigagna, að lesa yfir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Páls Vilhjálmssonar.
Íris: Páll var kærður fyrir þessi ummæli:
- “Samtökin 78 [S78] eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.“
- “Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi – BDSM. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.“
„OK… bíddu, en fyrir hvaða ummæli var hann kærður? Þessi? Já, en… ha? Fyrir hvað nákvæmlega var hann kærður? Er þetta það eina sem hann sagði? Ætlarðu að segja mér að hann hafi verið dreginn fyrir dóm vegna þessa?
Í Ameríku… ef einhver kærði vegna svona máls, yrði því hent út eins og skot. Sem í rauninni virðist vera það sem þessi dómari gerir. Það sem Páll sagði er ekki óskynsamleg skoðun, né er hún í eðli sínu móðgandi – eða smánandi, eða háðsleg, hvað þá ógnandi – gagnvart neinum hópi. Dómarinn segir að þetta sé hluti af lögmætri umræðu, lögmætum andmælum. Og ef Hæstiréttur tæki málið til meðferðar, er ég nokkuð viss um að Páll myndi vinna, vegna þess að auðvitað áttu rétt á að tjá skoðun þína um hluti, eins og ég skil þetta… jafnvel á Íslandi. Augljóslega er tjáningarfrelsi ekki ofarlega á ykkar lista í stjórnarskránni… – það er svolítið neðar á listanum ykkar yfir réttindi, en samt…
Dómarinn segir: ‘Eru sönnunargögn málsins að öðru leyti, að frátöldum pistli ákærða 13. september, 2023, frekar fátækleg.’ Dómarinn tók ákvörðun um trúverðugleika og kemst að þeirri niðurstöðu að Páll hafi ekki haft ásetning til að móðga neinn, né hæða eða smána, heldur var hann aðeins aðeins ósammála. Það sem ég er viss um að reitti S78 til reiði var orðið „tæling“ – það er álitið mjög slæmt. Þeir halda líklega „við erum bara að segja hlutina eins og þeir eru“ en dómarinn ákvað að nei, það væri ágreiningur um þetta og mjög skynsamlegur ágreiningur. Ég myndi segja að þú þyrftir að skoða aldur barnanna. Ég er viss um að þú gætir fengið fullt af vísindalegum gögnum til að styðja að þetta efni er óviðeigandi fyrir börn yngri en 12 eða 13 ára…
Það lítur út fyrir að dómarinn taki miðjuleiðina… Hann virðist segja að hann skilji að sumir gætu móðgast vegna þessa, en að Páll eigi fullan rétt á að tjá skoðun sína rétt eins og aðrir [S78] gera. Ég meina, í guðanna bænum… Ég skil ekki hvernig þetta komst á ákærustig, í alvöru. Í Ameríku yrði þessu hent út… eitt er ef Páll væri að kalla S78 nöfnum og saka þá um glæpi, en hann er ekki að gera það. Hann er að segja að þetta efni sé óviðeigandi fyrir börn og það er gott að hann segir það, vegna þess að mig grunar að svo sé. Það er fullkomlega viðeigandi að segja að það að sýna börnum á þessum aldri svona efni sé óviðeigandi af þessum ástæðum og eins og ég sagði, þú getur fengið vísindaleg gögn fyrir því…
Eina ástæðan fyrir því að þetta mál komst svona langt hlýtur að vera sú að íslenska ákæruvaldið er mannað aðgerðasinnum. Í Bandaríkjunum væri mjög óvenjulegt að saksóknari áfrýi sýknudómi eins og þessum, vegna þess að dómarinn var þarna – hann sá sönnunargögnin og tók ákvarðanirnar. Þegar héraðsdómari tekur ákvörðun um trúverðugleika, er hún nánast óhrekjanleg. Og dómarinn í þessu tilviki sagði, það er mín skoðun að það sem Páll sagði var ekki af illgirni. Hann sagði það sem hann trúir – að þetta sé ekki viðeigandi.
Hæstiréttur hefur ekki tíma fyrir svona rugl. Ákæruvaldið getur áfrýjað, en í Ameríku væri mjög óvenjulegt að ákæruvaldið áfrýi ákvörðun dómara á grundvelli trúverðugleikamats, sem þetta er. Dómarinn er mjög skýr varðandi það. Og þessi lög eru bara heimskuleg: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna… bla bla bla… vegna þjóðernisuppruna… litarháttar, kynþáttar… kynhneigðar eða kynvitundar…“ Svo, á Íslandi, ef einhver gerir grín að mér fyrir að vera svona hvítur, gæti ég kært? Rétt? „Hey, þú hlýtur virkilega að hata að fara út í sólina með svona hvíta húð, ha ha!“ Ó nei, þeir eru að „hæðast að mér“! Það eru svo mörg göt í þessu… Hvernig komst þetta í gegnum Alþingi? Auðvitað höfum við [í Bandaríkjunum] „skynsamlega manneskju“ staðal; það snýst ekki um hvað „fórnarlambinu“ [þeim sem „misgert“ er við] finnst, heldur hvað skynsamleg manneskja myndi álíta.
Annað atriði – ef ég væri dómarinn myndi ég spyrja, hvernig „hæddu, rógbáru, smánuðu eða ógnuðu“ ummæli Páls einhverjum vegna kynhneigðar eða kynvitundar þeirra? Að hverjum nákvæmlega var rógburðinum, smánuninni eða ógnuninni beint? Ákæruvaldið hlýtur að hafa látið einhvern bera vitni um þetta, ekki rétt? Meðlimir Samtakanna ’78 hljóta að hafa þurft að bera vitni fyrir réttinum, er það ekki? Þurfti ákæruvaldið ekki að sanna hversu hæddir, rógbornir og smánaðir einhverjir voru og hve mikið þeim var ógnað? [Ekki á Íslandi. Páll Vilhjálmsson var eini málsaðilinn sem bar vitni].
Eina ástæðan sem ég get hugsað mér fyrir því að ákæruvaldið myndi áfrýja er vegna þess að ákæruvaldið ykkar er fullt af aðgerðasinnum.“
Íris: Saksóknarinn sagði um Pál Vilhjálmsson: „… miðaldra karlar sem brjálast við lyklaborðið, verða að hljóta maklega málafjöld, fjárútlát og fangelsisvist.“
„Bíddu, saksóknarinn er að… að ógna hópi miðaldra karlmanna… byggt á aðild þeirra að… ó, miðaldra karlmenn eru greinilega ekki verndaður hópur á Íslandi. Er þessi saksóknari kjörinn? Hver réði hana? Þessi manneskja hefur augljóslega mjög slæma dómgreind. Eins og ég sagði, ég get ekki ímyndað mér að þessum dómi verði hnekkt. En hins vegar… Íslandi tekst alltaf að koma mér á óvart.“
Íris Erlingsdóttir er fjölmiðlafræðingur
