Hershöfðingi Bretlands: „Verðum að vera tilbúin í stríð innan þriggja ára“

Nýskipaður hershöfðingi breska hersins, Roland Walker hershöfðingi, segir að Bretland verði að hervæðast og vera tilbúið til að fara í stríð innan þriggja ára. Herforinginn heldur því fram, að Rússland, Kína og Íran séu helstu ógnir heims og að heimurinn sé orðinn „samfellt óstöðugri.“ BBC greinir frá því, að Walker hafi bætt því við, að stórstríð væri vissulega ekki óumflýjanlegt og að breski herinn hafi „nægan tíma“ til að undirbúa sig og þannig forðast átök.

Það sem er afgerandi að sögn hershöfðingjans er að skapa fælingarmátt með því að tvöfalda stríðsgetu hersins á næstu þremur árum og þrefalda fyrir 2030.

Eins og venjulega þá eru það Rússland, Kína og Íran sem ógna heimsfriðinum. Walker segir Rússa vilja hefna sín á Vesturlöndum fyrir að útvega Úkraínu vopn og peninga burtséð frá því hvernig stríðið fer.

„Það er alveg sama hvernig stríðið endar. Ég held að Rússar líklega veikari út úr því hlutlægt séð – eða þá alfarið. Þeir verða samt mjög, mjög hættulegir og vilja ná fram einhvers konar hefndum fyrir það sem við höfum gert til að hjálpa Úkraínu.“

Vill fá meira skotafl og geta skotið hraðar á skotmörk í meiri fjarlægð

Walker varaði enn fremur við því, að Kína ætli sér að endurheimta Taívan og að Íranar séu líklegir til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hershöfðinginn segir að ógn sem stafi frá þessum löndum verði sérstaklega alvarleg á næstu þremur árum.

Lausnin til að forðast heimsstyrjöld er að sögn herforingjans sú, að Bretar endurvopnist og nútímavæði her sinn fullkomlega. Lögð verði meiri áherslu á hátæknivopn, gervigreind og skotafl frekar en fjölda hermanna. Walker vill að her hans geti eyðilagt óvin sem er þrefalt stærri en Bretar með því að „skjóta hraðar og lengra“ en áður.

Um 75 þúsund hermenn eru í fastaher Breta í dag. Bretland eyðir 2,3 prósentum af vergri landsframleiðslu í varnarmál sem er yfir kröfu Nató um tveggja prósenta lágmark. Keir Starmer forsætisráðherra vill hækka útgjöld til hermála upp í 2,5 prósent.

Fara efst á síðu