Nýjasta rannsókn YouGov er ekki skemmtilegur lestur fyrir Keir Starmer forsætisráðherra í Downingstræti 10 eða Verkamannaflokkinn. Aðeins 54% þeirra sem kusu flokkinn í síðustu kosningum myndi kjósa flokkinn í dag. Umbótaflokkur Nigel Farage skorar hátt og er næst stærsti flokkur Bretlands og aðeins einu prósenti á eftir Verkamannaflokknum.
Í skoðanakönnuninni, sem er sú fyrsta eftir þingkosningarnar í fyrrasumar, er Verkamannaflokkurinn efstur með 26% fylgi. Það er hins vegar aðeins einu prósenti meira en Umbótaflokkur Nigel Farage „Reform UK“ fær sem núna nýtur stuðnings 25% Breta.
Íhaldsflokkurinn, Tories, þarf að sætta sig við þriðja sætið í könnuninni með 22% fylgi.
Helmingur fylgisins horfinn
Samkvæmt YouGov hefur Verkamannaflokkurinn tapað fylgi sjö prósent kjósenda síðasta árs til vinstri-frjálslyndra demókrata, sex prósent til vinstri grænna, fimm prósent til Umbótaflokksins og fjögur prósent til Íhaldsflokksins. Útkoman er ekkert annað en hrein hörmung fyrir Verkamannaflokkinn eftir aðeins sex mánuði við völd. Starmer gæti mögulega látið eins og ekkert sé þar sem hann er enn stærsti flokkurinn en samkvæmt könnuninni myndi aðeins rúmur helmingur eða 54% þeirra kjósenda sem kusu Verkamannaflokkinn síðasta sumar kjósa flokkinn aftur ef kosið væri í dag. Er því um algert fylgishrun að ræða.
Musk sakaður um að kynda undir uppreisn gegn Starmer
Að undanförnu hefur Elon Musk, eigandi X, stutt Umbótaflokkinn. Musk hefur ekki sparað gagnrýnina á ríkisstjórn Starmers sem ásakar Musk og X fyrir að kynda undir uppreisn í Bretlandi gegn ríkisstjórninni. Starmer hefur meðal annars látið handtaka Tommy Robinson sem í mörg ár afhjúpaði þöggun Starmers á glæpastarfsemi barnaníðingshringja í Bretlandi í starfi sínu sem sérstakur saksóknari bresku krúnunnar.
Margt getur gerst með fylgi stjórnmálaflokkanna í Bretlandi fram að næstu kosningum. Þar sem ekki eru hlutfallskosningar í Bretlandi er engan veginn víst að sá flokkur sem hefur mest fylgi kjósenda á landsvísu muni einnig ná meirihluta þingsæta í neðri deild breska þingsins.
Verkamannaflokkurinn skelfur
Verkamannaflokkurinn skelfur í grunninn eftir að hann tók við völdum síðast liðið sumar. Hagvöxtur er rýr og pólitískar ákvarðanir eins og að taka styrk til húsahitunar af ellilífeyrisþegum, auk þess að leggja svívirðilegan arfsskatt á bændur sem útrýmir stórum hluta þeirra, hafa ekki hlotið góðar viðtökur hjá bresku þjóðinni.
Ríkisstjórn Starmers skortir jarðtengingu. Hún styður hömlulausan áframhaldandi fólksinnflutning og gefur glæpamönnum grið til að halda áfram glæpastarfsemi í landinu. Fjölmörg einræðisleg afskipti lögreglu og annarra yfirvalda gegn gagnrýnendum ríkisstjórnarinnar að undanförnu sýna að hvorki málfrelsi né lýðræði er í miklum metum hjá vinstrimanninum Starmer eða sósíalistaflokki hans.