„Hatursorðræða“ og flatjarðarhyggja

Ímyndum okkur að allt í einu skyti upp kollinum félagsleg og pólitísk hreyfing sem
boðaði að jörðin væri flöt og að allar stofnanir, fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar og fyrirtæki
sammæltust athugasemdalaust um að boða þessa flatjarðarhyggju sem sannleika.

Og að allir ofangreindir yrðu ekki ánægðir fyrr en allir samþykktu að jörðin væri flöt og
allar tilraunir til að halda fram hinu gagnstæða gætu leitt til brottreksturs af
samskiptamiðlum, jafnvel atvinnumissis og lögreglurannsókna.

Að fyrrverandi utanríkisráðfrú vor, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir spyrði „Mannréttindaráð“ Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hvað „ríki, tæknifyrirtæki og samfélagið [ættu] að gera til að tryggja netöryggi fyrir“ flatjarðarhyggjueinstaklinga, til að „standa vörð um mannréttindi þeirra“, þ.e., til að vernda þá gegn hnatthyggjustaðreyndum.

Utanríkisráðfrúin spurði æðstupresta SÞ reyndar þessarar spurningar 20. júní, 2024. Hvað „ríkið, tæknifyrirtæki og samfélagið ættu að gera til að tryggja netöryggi fyrir LGBTQI+ einstaklinga, til að standa vörð um mannréttindi þeirra og vernda fólk gegn stafrænu ofbeldi og hatursorðræðu?“

Þ.e.a.s., hvað ættu Stóri bró og Stóra tækni að bralla saman til að banna óskilgreint athæfi – „hatursorðræðu“ – eins og að segja t.d. að jörðin sé ekki flöt; að það sé ekki hægt að skipta um kyn og að karlmenn geti ekki verið konur.

Ráðfrúin útskýrði ekki hvað fælist í hinu „stafræna ofbeldi“ og „hatursorðræðu“ gegn „LGBTQI+ fólki“ sem ógnar mannréttindum þess, en af eigin reynslu veit ég að „transfóbísk hatursorðræða“ getur verið allt frá alkunnum líffræðilegum staðreyndum (aðeins eru til tvö kyn; ekki er hægt að skipta um kyn) til hvaða staðhæfinga sem er sem særa „trans” tilfinningar lesenda og/eða ritskoðenda á íslenskum og erlendum fjölmiðlum.

Nefnd eru þrjú dæmi í 2. mgr. (mynd #1) um „takmarkanir sem fela í sér mismunun“ og að vinna yrði gegn „útbreiðslu slíkra stefnu(markandi aðgerða).“ Mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar (nema í Arabalöndum) sé „refsivert að sýna opinberlega ástúð samkynhneigðra“ eða „innleiða stefnu gegn alhliða kynfræðslu.“ Með takmörkunum „sem fela í sér mismunun“ – á ráðfrúin við t.d. mótmæli foreldra á Vesturlöndum gegn því að skólabókasöfn hafi á boðstólum bækur sem innihalda klám og óviðeigandi efni fyrir skólabörn? Eru mótmæli foreldra, sem í góðri trú héldu að börn þeirra fengju KYNfræðslu en uppgötvuðu að þau höfðu fengið KYNLÍFSfræðslu – alls konar fræðslu um alls konar kynlíf, stefna „gegn alhliða kynfræðslu“?

Ráðfrúin útskýrir ekki heldur hvaða löggjöf hafði áður „takmarkað mannréttindi fólks… vegna kynhneigðar og kynvitundar“ en staðhæfir að slík mannréttindabrot séu „ekkert nýtt.“ Né heldur nefndi hún dæmi um „þrengjandi lög“ sem að á undanförnum árum hafi aukist í „fjölda og breidd.“

Enginn vafi leikur á að mesta ógnin við réttindi kvenna og samkynhneigðra og geðheilsu ungmenna er „trans“ hugmyndafræði. Þessi froðufræði hefur haft slík forheimskandi áhrif í þjóðfélaginu að engum þótti athugavert þegar Alþingi samþykkti  heilan lagabálk sem byggir á óskilgreindum og óskilgreinanlegum hugtökum og gerði  óskilgreint athæfi refsivert.

Þingið ákvað með lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði (kynrænt brjálæði), að nauðsynlegt væri að landslög mæltu fyrir um „rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt.“

Eins og „upplifun“ mín af eigin hæð og augnlit og mín skilgreining á þeim.

„Kynvitund” („sexed soul“) er huglæg ákvörðun einstaklings byggð á því hve vel eða illa viðkomandi finnst hann eða hún samsamast kynbundnum staðalímyndum (stereótýpum).

Til að „tryggja að [upplifun einstaklinga af þeim sjálfum] … njóti viðurkenningar“ veita lögin fólki rétt til að breyta skráningu á kyni í þjóðskrá. Aldrei áður hefur Alþingi skipað stofnunum ríkisins að falsa opinber löggild skjöl svo þau séu í samræmi við ranghugmyndir borgaranna um þá sjálfa.

Fáum þótti athugavert þegar Alþingi ákvað litlu síðar að fangelsa mætti borgarana í tvö ár ef þeir brytu gegn samborgurum sínum með því að fremja hinn sívinsæla, óskilgreinda orðræðuglæp „hatursorðræðu” vegna „kynvitundar“ brotaþolans. Þ.e., vegna óskilgreinanlegra hugmynda – „upplifun einstaklings…og skilgreining hans“ – „brotaþolans“ um sig sjálfan, ekki skilgreiningar löggjafans!

„233. gr. a., alm. hgl.: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu [„hatursorðræða“ óskilgreint, óskilgreinanlegt] … vegna…kynvitundar [óskilgreinanlegt] eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Alm. hgl. nr. 19/1940.

Hjónabönd milli samkynhneigðra voru lögfest á Íslandi árið 2010 með breytingu á Hjúskaparlögum nr. 31/1993. Samkynhneigðir fögnuðu þessum áfanga, en aðgerðasinnar um allan heim gerðu sér fljótt grein fyrir að fátt er svo með öllu gott að ekki boði nokkuð illt: andlát gæsarinnar sem í áratugi hafði verpt gulleggjunum.

Gullgæsin var sett í öndunarvél og áður en nokkur gat sagt „cult“ hafði öllu velmeinandi fólki verið talin trú um að nýtt og glansandi „trans“ væri nákvæmlega það sama og samkynhneigð. Fjölmiðlar tróðu skottulæknisskilgreiningum og froðufræðifrösum ofan í almenning í illvígustu áróðursherferð mannkynssögunnar.

Þeir sem bentu á hið augljósa – að „trans“ væri ekki kynhneigð, að enginn hefði fundið þriðja „trans” fósturvísinn – voru úthrópaðir sem transfóbar, nasistar, fasistar, rasistar; reknir af samskiptamiðlum, misstu jafnvel vinnuna, vini og fjölskyldumeðlimi.

Engar rannsóknir, engin rök, ekkert – styður hugmyndina um meðfædda „kynvitund,“ hugtak sem hvergi hefur verið skilgreint á vitrænan hátt. Engin heila– blóð- eða önnur hlutlæg próf geta greint „kynvitund“ eða greint „trans“ einstakling frá einstaklingi sem ekki kennir sig sem „trans.“

LGB einstaklingar velja ekki kynhneigð sína. „TQI+“ og „trans fólk“ eru konur og karlmenn – gagnkynhneigðir, samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir einstaklingar sem hafa gripið til félagslegra og/eða læknisfræðilegra ráðstafana til að vera álitnir af gagnstæðu kyni, oftast til að draga úr því sem (a.m.k. þessa stundina) er kallað „kynami“ og mannréttindi þeirra, eins og okkar allra, eru vernduð í 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Vonandi verður ekki langt þar til Alþingismenn fara að leita að nógu djúpri minningaholu fyrir lagabálkinn sem vísar til kyns „sem [fólki] var úthlutað við fæðingu“ og annars fordæmalauss kjaftæðis. Og vonandi hugsa þeir sig tvisvar um áður en þeir stimpla lagabálka sem byggja á hugtökum sem hvorki þeir né aðrir skilja né heldur geta skilgreint.

„Kynvitund“ er aðeins til fyrir þá sem trúa á hana. Þeir sem telja að „venjuleg“ mannréttindi tryggð í 65. gr. Stjórnarskrárinnar séu ekki nógu góð fyrir „kynsegin“ fólk geta huggað sig við það að í ákvæðinu segir að allir njóti „mannréttinda án tillits til…trúarbragða…

Íris Erlingsdóttir
Höfundur er fjölmiðlafræðingur

Greinin var fyrst birt á útvarpsaga.is, 28. júlí 2024

Fara efst á síðu