Hannes Hólmsteinn er með hugmyndir varðandi konufrídaginn og mannréttindabaráttu kvenna: Er ekki kominn tími til að hætta þessari tilgangslausu fórnarlambaleit? Leggja niður jafnréttis- og kynjafræðiiðnaðinn og nota féð, sem þannig sparast, til að fjölga tækifærum ungs fólks til að koma yfir sig húsnæði og eignast fjölskyldur (t. d. með skattaívilnunum til barnafólks)?
Þjóðólfur tekur undir með prófessornum að hér er um tilvalda leið fyrir ungt fólk að mynda fjölskyldur og koma þaki yfir höfuðið og eins og Hannes Hólmsteinn bendir á, þá væri einnig upplagt að koma með skattaívilnanir til barnafólks. Pistill prófessorsins sem hann birti m.a. á facebook er hér að neðan:
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus skrifar:
Konur lifa í flestum löndum fimm árum lengur en karlar. Þær taka lítinn sem engan þátt í hernaði í stríðum og verða miklu síður fyrir vinnuslysum en karlar.
- Þær eru tveir þriðju þeirra, sem brautskrást frá Háskóla Íslands.
- Af þeim, sem stytta sér aldur, eru 15% konur, 85% karlar.
- Af þeim, sem leita sér meðferðar vegna ofdrykkju eða fíkniefnaneyslu, eru 20% konur, 80% karlar.
- Af þeim, sem sitja í fangelsum sakir alvarlegra glæpa, eru 5% konur, 95% karlar.
Þessar tölur voru mjög svipaðar alls staðar á Vesturlöndum, síðast þegar ég fletti þeim upp. Það er eitthvert launabil milli kvenna og karla, en það á sér eðlilegar skýringar. Konur hafa tilhneigingu til að velja störf, sem fara saman við barneignir og heimilisstörf (t. d. störf, sem geta verið hlutastörf, og störf, þar sem tekjumöguleikar skerðast óverulega við nokkurra ára fjarveru af vinnumarkaði), og þær eru ófúsari en karlar að vinna eftirvinnu og um helgar (og þetta telur Claudia Goldin, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og sérfræðingur á þessu sviði, skýra að langmestu leyti launabilið, en hún segist hins vegar eiga í erfiðleikum með að skýra, hvers vegna störf, sem krefjast eftirvinnu, séu betur launuð en önnur störf).
Á Íslandi eru forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann, forsetinn, ríkislögreglustjórinn, ríkissaksóknarinn og formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins allt konur. Nánast á öllum mælikvörðum um farsæld vegnar konum betur í lífinu en körlum. Konur þurfa ekki annað en bera fram ásakanir um áreitni frá körlum, þá eru þeir umsvifalaust reknir úr störfum, oft án nokkurrar rannsóknar.
Undan hverju eru þær að kvarta? Hvers eiga karlar að gjalda? Er ekki kominn tími til að hætta þessari tilgangslausu fórnarlambaleit?
Leggja niður jafnréttis- og kynjafræðiiðnaðinn og nota féð, sem þannig sparast, til að fjölga tækifærum ungs fólks til að koma yfir sig húsnæði og eignast fjölskyldur (t. d. með skattaívilnunum til barnafólks)?
