Græddi óhemju fé á því að falsa læknisvottorð til úkraínskra manna til að komast hjá herþjónustu

Stjórnarskrifstofur Khmelnytskyi héraðs í Úkraínu

Mikil spilling hefur komið í ljós í vesturhluta Úkraínu. Yfirmaður læknamiðstöðvar Khmelnytskyi-sýslu hefur verið handtekinn fyrir að hafa þegið háar fjárhæðir í skiptum fyrir að falsa læknisvottorð til úkraínskra karlmanna sem vildu komast hjá herþjónustu.

Tetyana Krupá, framkvæmdastjóri, var ábyrg fyrir læknisskoðunum á svæðinu, hún er einnig fulltrúi flokksins „Þjónn fólksins” í sýslunni sem er flokkur Volodymyr Zelensky forseta. Samkvæmt ungversku fréttaveitunni Kárpáti Igaz Szó að sögn Fria tider, þá uppgötvaðist hneykslið þegar Krupá var tekin með gríðarlega mikið af peningum á heimili sínu – samtals um sex milljónir dollara.

Við húsleitina fundu yfirvöld 5,24 milljónir dollara, 300.000 evrur og 5 milljónir úkraínskra hrinja í reiðufé auk skartgripa og annarra verðmæta. Krupá er einnig sögð hafa reynt að henda peningapoka með hálfri milljón dollara út um gluggann, þegar hún var handtekin.

Rannsóknin hefur einnig leitt í ljós að Krupá á 30 eignir í Khmelnytskyj, Lviv og Kænugarði, níu lúxusbíla, auk hótel- og veitingahúsa. Auk þess á hún eignir í Austurríki, Spáni og Tyrklandi og að auki 2,3 milljónir dollara á erlendum bankareikningum.

Tetyana Krupá er grunuð um að hafa safnað þessum auðæfum með því að krefjast fjár af mönnum sem leituðu leiða til að komast hjá því að vera sendir í hakkavélina á vígvellinum í austurhluta landsins. Gegn háum fjárgreiðslum falsaði Krupá læknisvottorð um fötlun sem viðkomandi gat sýnt til að komast hjá herþjónustu.

Falsaðar sjúkraskrár og listar með nöfnum þeirra sem komust hjá herþjónustu með fölsuðum vottorðum fundust á skrifstofu hennar. Allir karlkyns fjölskyldumeðlimir Krupá eru opinberlega skráðir sem fatlaðir og hefur þannig tekist að komast hjá herskyldu í Úkraínu.

Fara efst á síðu