Fantasíur eru frábærar. Góðar fantasíur víkka mannlega reynslu þeirra sem taka þátt af fúsum og frjálsum vilja. Góðar fantasíur glæða sköpunargleði, eru grundvöllur fyrir stórfenglegar listir og bókmenntir og gott kynlíf. Þær brúa bilið á milli hins ófullkomna nútíma og hinnar fullkomnu framtíðar. Góðar fantasíur leyfa okkur að upplifa reynslu sem væri óörugg eða ólögmæt ef hún væri framkvæmd í raun. Góðar fantasíur teygja á takmörkunum okkar sem manneskjur.
Fantasíur eru abstrakt leikvöllur mannlegra rannsókna. Þegar lítil stúlka fer í háa hæla móður sinnar og lýsir því yfir að hún sé kona, er hún að kanna fantasíu um framtíð sína sem fullorðin manneskja. Þegar lítill drengur klæðist skikkju, hleypur um garðinn og hrópar, „ég er að fljúga,“ er hann að kanna fantasíu um að tjá kraft ofurhetju. Það er dásamlegt að dvelja í skapandi „öruggu rými“ til að halda utan um ímyndaða útgáfu af því sem er kannski eða kannski ekki mögulegt í raun.
Skaðlegar fantasíur
Sumar fantasíur eru skaðlegar. Fantasían um endalaust fjármagn er rótgróin í stjórnkerfum vestrænna þjóða. Mörg okkar trúa á fantasíu um ráðvanda leiðtoga og ritskoðara sem vita betur en við sjálf hvernig greina á „góða“ orðræðu frá „hættulegri,“ sem stjórnvöld verða að vernda okkur gegn.
Vandamálið við þessar fantasíur er að þær skortir raunveruleikatengsl. Þær eru, í raun, staðgengill raunveruleikans og í sumum tilfellum afneitun veruleikans. Þær eru sjúklegar. Skapandi fantasíur ráðast ekki á raunveruleikann. Þær fegra hann. Þær kanna á öruggan hátt útjaðra veruleikans sem kunna að vera of hættulegir til að rannsaka í raun.
Annað vandamál við sjúklegar fantasíur er að þær skortir oft samþykki. Iðulega eru aðrir einstaklingar þátttakendur í þeim án þess að hafa veitt samþykki sitt.
Þegar of lítill greinarmunur er gerður á fantasíu og raunveruleika, glatast veruleikinn. Þegar unglingsstúlka skiptir út háum hælum móður sinnar fyrir brjóstbindi og trúir því að hún sé orðin strákur, hefur hún misst tengslin við raunveruleikann. Þegar drengurinn með skikkjuna klifrar upp á þak og stekkur niður, er hann ekki að faðma fantasíu heldur eigin glötun. Þessi fantasíuleikur er ekki dásamlegur, heldur sjúklegur og skelfilegur. Og hann ræður ríkjum á öllum sviðum nútíma menningar.
Börn eru þvinguð til að taka þátt í fantasíu um að strákar geti orðið stelpur og stelpur geti orðið strákar. Þegar sex ára skólastelpa þarf að nota „hún/hennar“ eða „þau/þeim“ til að vísa til bekkjarbróður síns, er vesalings barnið þvingað til að taka þátt í sjúklegri furðusögu.
Sýndarveruleiki 24/7
Einu sinni voru fantasíur tjáðar í kvikmyndum. Fjölskyldur gátu flúið hversdagsleika daglegs lífs með því að horfa á myndina og svo snúið aftur heim, til raunveruleikans. Síðar komu fantasíurnar inn á heimilið í gegnum sjónvarp, sem minnkaði muninn enn meir á fantasíu og raunveruleika. Nú er sýndarveruleikinn stöðugt til staðar í gegnum snjallsíma. Það er ómögulegt að forðast hann. Fantasía hefur tekið við af raunveruleikanum á öllum tímum sólarhringsins nema þegar við erum sofandi. Við höfum gert hið óraunverulega að „normi.“ Árangurinn er menning af sjúklegum fantasíum sem gegnsýrir alla þætti lífs okkar. Þeir sem ekki vilja vera þátttakendur í þessu sjúkræði hafa ekkert val. Þeir eru þvingaðir til að vera hluti af því vegna þess að þeir verða að lifa innan þess.
Að vera þvinguð til að taka þátt í sjúklegum fantasíum veldur einstaklingum og samfélaginu ómældu tjóni. Við skuldum okkur sjálfum og samfélagi okkar þá ábyrgð að hafna því sem er bæði falskt og skaðvænlegt. Kurteisi við sjúka einstaklinga og stofnanir, sem þrífast á sjúklegum fantasíum, mun steypa okkur öllum í glötun.

Íris Erlingsdóttir
Höfundur er fjölmiðlafræðingur