Gengur illa að gera allan heiminn að einu sósíalísku ríki

Gústaf A. Skúlason skrifar:

Fyrir fimm árum síðan skrifaði ég grein með fyrirsögninni „Samið um útópíu sósíalismans“ sem Morgunblaðið birti. Greinin hófst með þessum orðum:

„Talsmenn ríkisstjórnarinnar dylja fyrir þjóðinni, að með staðfestingu samþykktar um réttindi farandfólks (Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration), er ekki aðeins verið að skuldbinda landsmenn til að innleiða markmið sáttmálans á Íslandi, heldur hafa skilmálar tveggja annarra sjálfstæðra samþykkta verið staðfestir í leiðinni sem hvergi er greint frá. Annars vegar skuldbindingar ríkisins gagnvart flóttamönnum (Global Compact for Refugees) (3.gr.) og hins vegar Agenda 2030 (18. gr.) sem er útópía sósíalismans um paradís á jörðu ár 2030. SÞ vill komast þangað með skattahækkunum á þeim „efnameiri“ og fjárfærslum til þeirra „efnaminni“. Það eru því samtals þrjár samþykktir í þessum eina pakka sem kenndur er við réttindi farandfólks.“

Með samþykki sínu staðfesti ríkisstjórn Íslands þá kenningu „að ekkert ríki geti sjálft tekið á málefnum innflytjenda“ (15. gr.) og lokaði á að þjóðin gæti stjórnað því, hverjum hleypt er inn í landið. Núna fimm árum síðar, sjá allir landsmenn hvílíkur skaði hefur hlotist af þessum samþykktum og allur málaflokkur fólksinnflutninga í skötulíki vinstri stefnunnar, sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þurfa réttilega að gjalda fyrir eins og aðrir valdhafar.

Sjálft Kommúnistaávarpið læðist með veggjum

Ég athugaði markmið Sameinuðu þjóðanna, sem hanga uppi hjá öllum stjórnendum á Vesturlöndum til áminningar um stjórnarstefnu ríkisins og skrifaði:

„Skattfé er mokað í gagnslausa skriffinnsku, orðavaðal og útópíu vinstri manna sem setur komandi kynslóðir í áhættubönd sem enginn veit hvað kostar. Fyrir utan að vera stjórnarskrárbrot gæti þessi stólahégómi orðið dýrkeyptari en Icesave. Agenda 2030 er þvílíkt loforðamoð að sjálft Kommúnistaávarpið læðist með veggjum. Hin nýja sjálfskipaða öreigastjórn Íslands lofar á næstu 12 árum að:

• útrýma hungri og fátækt í heiminum

• skapa jafnan aðgang allra jarðarbúa að fjármagni og náttúruauðlindum

• afnema allar niðurgreiðslur landbúnaðarafurða

• helminga umferðarslys og andlát í umferðinni

• útrýma kúgun kvenna

• útvega öllum jarðarbúum ríkisfang, fæðingarvottorð og persónuskilríki

• útvega öllum jarðarbúum innanhússsalerni

• tvöfalda orkuafköst heims

• skapa 7% árlegan hagvöxt í þróunarlöndunum

• skapa fulla atvinnu fyrir alla jarðarbúa að meðtöldum unglingum og fötluðum

• koma á sömu launum fyrir sömu vinnu

• vernda réttindi farandverkafólks og kveninnflytjenda

• tryggja hærri launaaukningu hjá 40% íbúum heims með lægstu launin en hjá öðrum

• eyða öllum slumhverfum og útvega húsnæði handa öllum jarðarbúum

• greiða 100 milljarða dollara árlega eftir 2020 til þróunarlandanna vegna loftslagsbreytinga

• stöðva allar ólöglegar fiskveiðar í heiminum 2020 og setja lög um heimsstjórn fiskveiða

• auka tekjur þróunarlanda með nýjum sköttum

• auka stöðugleika heims með sameiningu stjórnmála í samræmda stefnu

• styðja Agenda 2063 fyrir Afríkusambandið

• framfylgja öllum markmiðum og loforðum pakkans

• gera refsivert að gagnrýna innflytjendur og kenna fjölmiðlum að fjalla rétt um málin.“

ISO gæðastaðlar verkfæri fyrir markmið Agenda 2030

191 lönd hafa samþykkt Agenda 2030 en það gengur hægt að uppfylla markmiðin. Yfirstjórn gæðastaðla ISO styður þessa draumsýn og er ein af þeim alþjóðlegu aðilum sem ramma inn markmið glóbalismans að afnema fullveldi þjóðríkja, stjórnarskrár þeirra og sjálfstæð stjórnvöld. Markmiðið er að koma á heimsstjórn yfir alla þætti mannlífsins þar sem skautað verður fram hjá einstaklingnum, sérkennum og völdum þjóðríkja.

ISO veitti meðal annars World Economic Forum vottorð fyrir „sjálfbær störf“ á fundum sínum í Davos í janúar 2018. WEF foringinn Klaus Schwab þakkaði fyrir og sagði:

„Stefna vettvangsins hefur alltaf verið að svara alþjóðlegum áskorunum í tengslum við okkar eigin fundi. Ég er stoltur af því, að við höfum fengið vottun samkvæmt ISO 20121 fyrir hið stranga og yfirgripsmikla ferli sem felst í því.“

Nýjar leiðbeiningar ISO til hraða vinnu við að ná markmiðum Agenda 2030

Þannig eru stjórnendur ISO sjálfir, sem aðgreina fyrirtæki sem ekki borga fé til að uppfylla skilmálana samkvæmt gæðastöðlunum frá þeim risafyrirtækjum sem eru glóbalistum innan handar, orðnir hluti af „alþjóðlegri yfirstjórn“ glóbalismans. ISO í Svíþjóð, Svenska Institutet för Standarder, SIS, segir í fréttatilkynningu 12. september 2024:

„Núna verður auðveldara fyrir fyrirtæki og stofnanir bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera að leggja sitt af mörkum til sjálfbærnimarkmiða SÞ. Í dag setur ISO, ásamt þróunaráætlun SÞ, UNDP, alþjóðlegar leiðbeiningar til að auka vinnuhraðann við að ná heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun (SDGs). Leiðbeiningarnar eru ókeypis.“

Hér má lesa meira um þessar ISO-leiðbeiningar.

Ritskoðun eitt af framgangsríkari málum Agenda 2030

Á meðan illa gengur að gera allan heiminn að einu sósíalísku ríki, þá eru ýmsir þættir komnir vel á veg. Að „gera refsivert að gagnrýna innflytjendur og kenna fjölmiðlum að fjalla rétt um málin“ virðist að minnsta kosti á Íslandi hafa náð fótfestu hjá ríkisfjölmiðlum RÚV og áróðursmiðlum fjármálasvindlara sem stálu fé af landsmönnum í bankahruninu 2008. Vinstri stjórn Bjarna Benedikssonar hefur innleitt breytingu á haturslögum sem meðal annars fávísir en löglærðir aðilar hafa notað gegn saklausum meðborgurum sem þurfti að kássast á og einnig til að hóta heiðarlegum blaðamönnum sem eru að upplýsa um sannleikann.

Fósturvísamálið er skýrt dæmi um þessa valdníðslu en þau hjónin Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason hafa mátt sæta fáheyrðri valdníðslu með frelsisskerðingu og opinberri sviptingu mannorðs hjá fjölmiðlum sem vinna fyrir hið opinbera. Aðför var einnig gerð að Halli Hallssyni öðrum stofnanda Þjóðólfs fyrir að skrifa um fósturvísamálið. Í framhaldinu meinar Landsspítalinn starfsmönnum sínum að sjá Þjóðólf á vef spítalans.

Agenda 2030 mótmælt víða um heim

Hvað svo sem gerist á Íslandi, þá hefur fólk á sinn hátt risið gegn valdníðslu glóbalista og er skemmst að minnast bændauppreisnarinnar í vor og sumar um gjörvalla Evrópu gegn Agenda 2030. Áframhald þeirra illu afla sem stóðu að baki Agenda 2030 er undir fólki komið, hvort láta eigi þessa ógæfu dynja yfir eða að taka til höndum og stöðva þessa óárans þróun sem minnir einkum á tilkomu bolsévismans í Sovétríkjunum í den.

Stjórnmálaskalinn hefur þokast svo langt til vinstri, að Alheims sósíalistabandalagið sem Samfylkingin á aðild að er komin í skó bolsévíka og Komintern og vill gegnum allsherjar stríð hrifsa til sín völdin.

Þú arma þjóð, hvenær, hvenær fær hjarta þitt að slá frjálst og fullvalda?

Fara efst á síðu