Gamla vinstri stefnan gengur ljósum logum

Á nýju ári koma ný viðfangsefni. Ekki er hægt að kvarta undan fréttaleysi þessa dagana. Ný ríkisstjórn tók við völdum á Íslandi fyrir jól og sýnist mönnum sitt hvað um bæði stefnuyfirlýsingu hennar og yfirlýsingar einstakra ráðherra um að „hlýða kalli þjóðarinnar um breytingar“ eins og sagt er. En hverjar eru þær breytingar sem þjóðin sækist eftir? Úrslit kosninganna þurrkuðu út VinstriGræna og Pírata sem stjórnmálaflokka á Alþingi. Þjóðin sýndi þannig skýrt að hún er fullsödd af vinstri stefnu. Hverjar eru þá breytingarnar sem Valkyrjustjórnin vill gera sem forsætisráðherrann segir að sé ákall íslensku þjóðarinnar? Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru eru greinilega ekki þær breytingar sem þjóðin vill eftir hatrammar deilur við Evrópusambandið sem beið í lægra haldi fyrir Icesave. Til að ræða þessi mál fékk Þjóðólfur til liðs við sig Gústaf Níelsson sem ræddi við nafna sinn Skúlason um óskalista og stefnuyfirlýsingu nýju ríkisstjórnarinnar.

Gústaf Níelsson telur að vókið og öfgafemínisminn hafi ekki horfið heldur hafi flutt sig inn í ríkisstjórnarflokkana og að þjóðin sitji í raun og veru uppi með vinstristjórn núna. Hann telur að stjórnmálamenn láti hagsmuni almennings víkja fyrir eigin hagsmunum og minnir á hinn forna málshátt:

„Enginn múr er svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann.“

Nafnarnir komu víða við í þessu samtali og voru Evrópumálin hluti af því enda Níelsson á Spáni en Skúlason í Svíþjóð. Fréttamaður Þjóðólfs lýsti miklum vonbrigðum með Eyjólf Ármannsson hinn nýja ráðherra Flokks fólksins sem áður var mikill baráttumaður gegn bókun 35 og orkusambandi ESB en setur svo þau mál niður í skúffu, þegar hann verður ráðherra. Greinilega var hann keyptur til að svíkja málstaðinn. Orkumálin á Íslandi eru í lamasessi eftir áralanga skemmdarstarfsemi sem komið hefur í veg fyrir vatnsaflsvirkjanir. Gústaf Níelsson segir svo kallaðar „rammaáætlanir“ eiginlega vera til að tefja fyrir framkvæmdum:

„Við erum með handónýtt dreifikerfi í raforku í landinu og það er alltaf að koma betur og betur í ljós. Rammaáætlun er ekkert annað en leikur til tafa.“

Samkomulag geðveikinnar

Gústaf Níelsson sagði að Parísarsamkomulagið sem Ísland er aðili að sé „samkomulag geðveikinnar“ og koltvísýringur sé ekkert vandamál nema í höfðum stjórnmálamanna. Lýsti hann því sem hvert mannsbarn fékk að læra hér áður fyrr að koltvísýringur er undirstaða ljóstillífunar og gróðurs sem aftur gefur frá sér súrefni sem mannfólkið og dýrin anda að sér. Áhrif á koltvísýring af mannavöldum er um 3% og koltvísýringur er er hluti þeirrar náttúru sem gefur öllum líf.

Hrossatað var orkugjafi áður fyrr

Gústaf Níelsson bendir á að nýverið sé farið að klassa hrossatað sem stórhættulegan úrgang sem þurfi að afhenda Sorpu og greiða gjald fyrir. Allir sem eitthvað þekkja til sveitar vita að í gamla daga, þegar fátækt ríkti var tað frá búgripum eins og hestum, kúm og kindum skorið í flögur sem voru þurrkaðar og hægt að nota sem eldivið á köldum vetrum. Einnig tekur jörðin og gróðurinn vel við sér af þeirri aukanæringu sem „sérfræðingar hamfarahlýnunarinnar“ segja stórhættulega umhverfinu í dag. Bændur meginlandsins hafa svarað slíkum reglugerðum: Þeir fóru til Brussel og sprautuðu kúamykju á byggingar Evrópusambandsins sem er mátulegt á það fólk sem sem í dag hegðar sér eins og hirðfólk konunga til forna. Það versta er að ekkert bítur á þessa stjórnmálamenn sem bara hugsa um peninginn sem þeir fá í vasann og hafa fyrir löngu gleymt almenningi.

Nýja ríkisstjórnin tekur sérstaklega fram að hamfarahlýnun sé ofarlega á blaði og hún tekur við búi, þar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að greiða enn hærri gjöld til Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum. Þar hafa Vinstri Grænir verið framarlega í flokki eins og sjá má á því, að fyrrverandi forsætisráðherra fær feitt embætti hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun SÞ, WHO, eftir að henni mistókst að verða forseti á Íslandi.

Vindorkuáætlunin er algjört flopp

Nýja ríkisstjórnin fylgir lygavefnum um hamfarahlýnun og lýsir því yfir að lögfesta eigi byggingu vindmylla. Var töluvert rætt um vindmyllur og tilvist þeirra sem „græna lausn“ í orkumálum. Raforkuverð hefur farið með himintunglum og ekkert lát á hækkunum eftir að Svíþjóð gekk með í orkusamband ESB. Í Svíþjóð hefur verið birt skýrsla þar sem arðsemi flest allra vindmylla var tekið fyrir og útkoman var sláandi fyrir „grænu umskiptin.“ Greinarhöfundar komast að eftirfarandi niðurstöðu eftir að hafa yfirfarið fyrri rannsóknir til öryggis og vegna allra umræðna:

„Með auknum gagnagrunni miðað við fyrri greiningar breytast gögn okkar fyrir árin 2017-2022 einnig að vissu leyti. Hins vegar sjáum við engin veruleg frávik. Sú niðurstaða að um langvarandi óarðbæran iðnað er ræða stendur því óhögguð.“

Gústaf Níelsson segir vindorkuáætlun ríkisstjórnarinnar vera algjört klúður eða flopp eins og hann orðar það. Hann bendir á að erlendir peningamenn sækist eftir byggingu vindmylla á Íslandi í fyrsta lagi:

„Þjóðin kallar eftir því að farið verði í orkuframkvæmdir en ekki að lagt verði af stað í óarðbær vindmylluævintýri.“

ESB með einungis 10% af viðskiptum í heiminum

Gústaf Níelsson bendir á að ESB sé einungis með 10% heimsviðskipta og því tímaskekkja að ætla að skuldbinda Ísland sem þjóð við Evrópusambandið. Fréttaritari Þjóðólfs benti á stríðsæsing ESB sem heldur áfram að dæla peningum í stríð sem almenningur í aðildarríkjunum vill að verði stöðvað. Nýja ríkisstjórnin mun halda áfram með klappstýruhlutverk Íslands fyrir mannsslátrun og eyðileggingu Úkraínu. Gústaf Nielsson segir:

„Ísland er lítil þjóð og getur lítil sem engin áhrif haft á heimsmálin.“

Gústaf segir að þótt þjóðin hafi þurrkað út vinstrið í alþingiskosningunum, þá hafi það bara flutt sig inn í Samfylkinguna sem muni valda hinum unga formanni Samfylkingarinnar miklum vandræðum „þar sem hún er ekki vinstri manneskja.“

„Þjóðin fékk því í raun og veru vinstristjórn núna.“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan:

Fara efst á síðu