Það er á fleiri stöðum en Íslandi sem forsætisráðherrann sem jafnframt er formaður sósíaldemókrataflokksins veður upp í hné vegna hneykslismála kollega síns. Í Danmörku hefur einn af lykilmönnum danska jafnaðarmannaflokksins, fyrrverandi viðskiptaráðherra Danmerkur, Henrik Sass Larsen, verið ákærður fyrir vörslu barnakláms. Hann er einnig sakaður um að hafa verið með bannaða barnakynlífsdúkku samkvæmt Berlingske Tidene.
Ákæran varðar yfir 6.200 myndir og 2.200 myndbönd af grófu barnaníði. Ráðherrann fyrrverandi neitar alfarið sök. „Ég hef aldrei skaðað börn“ segir hann í yfirlýsingu samkvæmt Berlingske.
Sass Larsen reyndi lengi að halda nafni sínu leyndu í málaferlunum en núna hefur lögmaður hans tilkynnt að hann muni ekki lengur fara fram á nafnleynd eftir að stærstu fjölmiðlar í Danmörku sögðu frá málinu og nafngreindu Henrik Sass Larsen.
Danmörk í uppnámi – ein versta tegund glæpa
Málið vekur uppnám í Danmörku þar sem Sass Larsen hafði áður leiðandi stöðu í ríkisstjórninni og innan Jafnaðarmannaflokksins.
Samkvæmt DR er Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmörku „hneyksluð“ vegna þessara alvarlegu ásakana á hendur flokksbróður sínum og fyrrverandi viðskiptaráðherra. Frederiksen segir í viðtali við DR:
„Það er afar, afar átakanlegt það sem komið hefur í ljós. Þetta er alvarleg ákæra fyrir einhverja verstu glæpi sem hægt er að fremja gagnvart öðrum.“
„Ég hugsa fyrst og fremst um þau börn sem hafa verið misnotuð, þar sem nauðganir, líkamsárásir og kynferðislegt ofbeldi hafa átt sér stað. Þetta er hræðilegur markaður sem er eftirspurnardrifinn og þess vegna eru allir á Christiansborg hneykslaðir á þessu að mér meðtalinni.“
Hefur aldrei áður heyrt neitt þessu líkt
Mette Fredriksen segist aldrei áður hafa heyrt neitt í líkingu við barnaklámsákæruna á hendur kollega sínum sem einnig er sakaður um að hafa verið með bannaða barnakynlífsdúkku í fórum sínum. Hún segist ekki geta lagt sig í sakamál sem forsætisráðherra landsins.
Mette Frederiksen og Henrik Sass Larsen störfuðu daglega saman á Christiansborg í nokkur ár meðal annars sem ráðherrar í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt. Henrik Sass Larsen var viðskiptaráðherra 2013-2015 en Mette Frederiksen var skipuð atvinnumálaráðherra 2011 og dómsmálaráðherra ár 2014.