Friðarfundur Pútíns og Trumps ætti að vera í Reykjavík

Í komandi samningaviðræðum um frið í Úkraínu hefði Reykjavík verið kjörinn fundarstaður líkt og hinn heimsfrægi fundur Ronald Reagans, forseta Bandaríkjanna og Mikhaíl Gorbatsjevs, leiðtoga Sovétríkjanna sem haldinn var í Höfða 11. til 12. október 1986. Sú alþjóðahyggja sem vinstri menn hafa innleitt á Íslandi og margir falla flatir fyrir hefur í staðinn eyðilagt haldgóða ímynd Íslands sem friðsamlegs ríkis. Íslendingar hafa undirkastað sig árásarstefnu ESB, lokað sendiráði Íslands í Moskvu og yfirvöld eyða dýrmætu fé stritandi landsmanna í vopnakaup fyrir Úkraínu.

Í dag eru það Serbía og Sviss sem bjóða fram fundaraðstöðu fyrir komandi friðarfund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Vladimir Pútin, forseta Rússlands. Euronews greinir frá því að bæði Sviss og Serbía hafi lýst yfir áhuga á að halda slíkan fund.

Spurt hefur verið hvort Sviss geti haldið fundinn þar sem Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur gefið út handtökuskipun á Pútín. Sviss telur hins vegar að hægt sé að gera undantekningu frá reglunni og veita tryggingar fyrir því að handtakan verði ekki framkvæmd.

Hinn hreinskilni forseti Serbíu, Aleksandar Vučić, telur Serbíu vera ákjósanlegasta staðinn fyrir fund Pútíns og Trumps. Hann segir:

„Trump er hvergi eins vinsæll í heiminum og í Serbíu. Pútín er einnig mjög vinsæll hér.“

Vučić bendir einnig á að Serbía sé eitt af fáum löndum sem ekki er meðlimur í neinum alþjóðlegum hernaðarbandalögum.

Fara efst á síðu