Franska forsetahöllin um kjaftshögg Birgittu: „Afslappað augnablik“

Emmanuel Macron, 47 ára, fékk óvænta gjöf frá eiginkonu sinni, Brigitte, 72 ára, þegar flugvél forsetahjónanna lenti í höfuðborg Víetnam, Hanoi. Hann virðist hafa verið neyddur til að taka á móti hörðum hnefa konu sinnar beint í andlitið. Það sem hann vissi ekki var að allt var tekið upp á myndband (sjá X að neðan).

Myndband frá AP fréttastofunni sýnir forsetann fyrir innan hurð flugvélarinnar þegar hún opnast. Í sömu andrá skellur hnefi eiginkonunnar beint í andlit Frakklandsforseta. Macron bar sig samt furðu vel og veifaði til myndavélanna fyrir utan.

Samkvæmt Daily Mail fer ekki á milli mála að konan var í uppnámi. Þegar forsetahjónin ganga síðan niður stigann á flugvélinni til móts við formlega móttöku frá víetnömskum gestgjöfum, þá neitar Brigitte að þiggja útréttan arm eiginmanns síns.

Forsetaskrifstofa Macrons hélt því fram í fyrstu að myndskeiðið væri falsað en neyddist síðar til að staðfesta að það væri ekta. Samkvæmt Élysée-höllinni var þetta „afslappað augnablik“ þar sem parið var að „grínast“ hvort við annað.

Önnur heimild í fylgdarliði forsetans segir augnablikið sýna „samheldni“ forsetahjónanna en öfl sem styðja Rússland hafi notað tækifærið og ráðist að forsetanum með því að dreifa myndbandinu.

Opinber heimsókn Frakklandsforseta til Víetnam er sú fyrsta í vikulangri ferð hans um Suðaustur-Asíu. Þar mun Macron reyna að koma Frakklandi á framfæri sem „áreiðanlegum“ mótvægisaðila gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Á fyrsta degi ferðarinnar undirritaði hann samninga við VietJet og Airbus um kaup á 20 A330 flugvélum og hélt ræðu þar sem hann kallaði eftir „heimsskipan byggða á alþjóðalögum.“

Fara efst á síðu