Fósturvísamálið – hin hliðin

Einhverjir hafa kannski tekið eftir því, að myndbönd og annað efni um hið svo kallaða fósturvísamál hefur verið fjarlægt af síðum Þjóðólfs. Það er ástæða að baki sem hér verður greint frá. Þegar Hallur Hallsson og Gústaf Skúlason ákváðu að stofna Þjóðólf fyrir um rúmu hálfu ári, þá kom Hallur Hallsson með fósturvísamálið sem hann sagði vera stærsta hneykslismál Íslandssögunnar. Af virðingu fyrir reyndum blaðamanni sem skartaði sögu um stofnun fjölmiðla tók ég þá ákvörðun að fara á fullu í það mál og tók upp sex viðtalsþætti við hjónin Hlédísi Sveinsdóttur og Gunnar Árnason.

Þættirnir og skrif okkar Halls um málið hafa birst hér á Þjóðólfi, sem ég hef núna fjarlægt að mestu. Hjónin Hlédís og Gunnar fengu vettvang til að segja einhliða og óritskoðaða sögu sína sem engir aðrir fjölmiðlar fyrir utan Mannlíf hafði fjallað um áður.

Saga fósturvísahjónanna í stuttu máli

Saga hjónanna er í stuttu máli sú, að þau leituðu til tæknifrjóvgunarfyrirtækisins Art Medica 2008 í því skyni að eignast barn með tæknifrjóvgun sem því miður gekk ekki eftir. Voru 50 egg tekin og 29 fósturvísar skapaðir. Hjónin nýttu 10 fósturvísa og 19 voru settir í frystingu. Hjónin ásökuðu síðan læknana Guðmund Arason og Þórð Óskarsson, eigendur Art Medica, um að hafa stolið þessum 19 fósturvísum þeirra og selt öðrum í hagnaðarskyni.

Þegar Hlédís Sveinsdóttir lá á spítala mörgum árum síðar var athygli hennar vakin á óeðlilegum heimsóknum í sjúkraskrá hennar og fóru hjónin þá að grennslast fyrir hverju það sætti. Stóðu þau í nokkurra ára baráttu við Landsspítalann sem gerði ýmis alvarleg mistök í afhendingu innskráningarlista sjúkraskrár til þeirra sem endaði með því að þau fengu næstum fullgildan innskráningarlista yfir fjölda lækna og annarra sem fóru í sjúkraskrá Hlédísar. Standa hjónin enn í erfiðleikum við að fá afhentar sjúkraskrár fyrir önnur tímabil frá Landsspítalanum.

Hlédís og Gunnar lögðu mikla vinnu í að skilgreina og rekja einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem þau sáu að höfðu farið í sjúkraskrána. Þau sköpuðu „eigin lista“ yfir hugsanlega foreldra sem höfðu eignast börn á svipuðum tíma og hugsanlegt væri að hefðu keypt stolna fósturvísa þeirra af læknum Art Medica. Í kjölfarið hófu hjónin síðan með aðstoð lögfræðings að senda viðkomandi fólki bréf með ósk um dna-rannsókn til að fá úr því skorið hvort þau börn gætu verið þeirra lífbörn.

Í kjölfar þessara bréfa kærði lögfræðingur fósturvísafyrirtækisins og foreldra barnanna hjónin til lögreglunnar með kröfu um að hjónin yrðu sett í nálgunarbann. Þar var ekki um að ræða allan hópinn sem Hlédís sendi dna-rannsóknarbeiðni en engu að síður meiri hluta þeirra sem fengu bréfin. Voru hjónin sett tvívegis í nálgunarbann, vopnaleyfi afturkallað af Gunnari og þriðja bannið rætt sem einnig tók til Halls Hallssonar blaðamanns og aldrei varð úr.

Eftir því sem leið á samtölin við hjónin tók ég eftir tilhneigingu þeirra til að bæta stöðugt við frásögnum um aðra hluti til dæmis viðskipti, stjórnmálaákvarðanir og annað sem fjarlægðist kjarnaspurninguna um hina horfnu fósturvísa. Höfðu hjónin tilhneigingu til að skilgreina athafnir annarra, helst þeirra ríku og frægu, út frá fósturvísunum 19. Ég benti þeim á að þau væru að flækja málið og taka athyglina frá kjarna málsins: grunsemdinni um afbrot læknanna. Þau sátu við sinn keip og héldu áfram að spinna fósturvísasöguna, þar til trúverðugleiki þeirra brást gjörsamlega, þegar þau komu með þá kenningu, að Hlédís Sveinsdóttur væri barnabarnabarn Kristjáns tíunda Danakóngs og í raun hálfsystir ef ekki tvíburasystir Friðriks núverandi konungs Danmerkur!

Hallur Hallsson

Ég útskýrði fyrir þeim að hvorki ég né Hallur Hallsson hefðum áhuga á að ljá þessu máli þeirra lið og tók af þeim loforð um að hætta kóngakenningunni – sem þau sviku. Þá tilkynnti ég þeim að okkar samstarfi væri lokið og breytti heimasíðu Þjóðólfs og tilkynnti Halli Hallssyni um það. Skömmu síðar hringdi Hallur í mig og sagðist ekki vilja vera með lengur í sameiginlegu verkefni okkar Þjóðólfi og hvarf á braut. Í byrjun samstarfsins gaf ég því möguleika að við Hallur yrðum ágætis teymi í baráttunni gegn glóbalizmanum. Ég játa að fenginni reynslu að ég finn ekki til mikillar eftirsjá að Hallur fór. Ég hef við engan annan en sjálfan mig að sakast að hafa sýnt honum traust í svo haldlitlu máli.

Veikleikar í málflutningi fósturvísahjónanna

Mál hjónanna Hlédísar og Gunnars er reist á of mörgum óstaðfestum fullyrðingum til að geta talist trúverðugt. Hér eru nokkur dæmi:

  • Ónafngreindur „uppljóstrari“ víkur sér að Gunnari úti á götu með upplýsingar um málið.
  • Ónafngreindur huldumaður í heilbrigðisþjónustunni er sagður hafa tekið dna próf á einu fósturvísabarni sem hafi sannað að þau væru lífforeldrar þess
  • Ónafngreindur ofbeldishrotti birtist Gunnari allt í einu í London með hótunarskilaboð um að skaða Hlédísi ef þau hættu ekki ásökunum sínum um stolna fósturvísa
  • Ónafngreindir „löglærðir aðilar“ í Bandaríkjunum sagðir bakhjarlar og veita ráðgjöf um háttsemi hjónanna til að leita réttar síns.
  • Ónafngreindir „barnasálfræðingar“ í Bretlandi sagðir bakhjarl hjónanna
  • Ónafngreindur fulltrúi danska konungshússins kom með skilaboð um konungsblóð í æðum Hlédísar
  • Eiginn tilbúinn listi yfir fólk sem fullyrt er að hafi lífbörn hjónanna
  • Fullyrðingar um lífforeldra án dna-rannsóknar og til og með morðásökun
  • Hjónin vilja ekki fara dómstólaleiðina með kæru á lækna Art Medica sem þau saka um að hafa stolið fósturvísunum

Hvernig á ég sem foreldri að bregðast við ef ég fæ kröfu um að láta dna-rannsaka barnið mitt af því að fólk úti í bæ segjast hugsanlega vera foreldrar barnsins?

Allir foreldrar geta spurt sig þessarar spurningar: Hvernig myndi ég bregðast við ef ég fengi einn daginn bréf frá lögfræðingi með beiðni um dna-rannsókn á barninu mínu til að athuga hvort að mér ókunnugt fólk séu foreldrar þess?

Ég veit hvernig ég myndi bregðast við. Þegar reiðin væri runninn yfir slíkri ósvífni myndi ég leita til lögfræðings til að athuga hvernig ég gæti brugðist við slíkri árás á einkalífið. Það er réttur þeirra foreldra sem kærðu Hlédísi og Gunnar sem leiddi til nálgunarbanns þeirra hjóna. Ég hef einnig séð kurteisislegt svar frá öðrum sem frábiðja sér slíkan þvætting þar sem þau eigi sín börn á eðlilegan máta og hafi aldrei verið í neinum samskiptum við neinn um að prófa neina fósturvísaleið.

Allt þetta hunsa hjónin sem sýna með málflutningi sínum að þau þurfa ekki á dna-prófum að halda þrátt fyrir kröfur um slíkt. Þau hafa sjálf ákveðið einhliða, hvaða fólk á að hafa keypt stolna fósturvísa þeirra af Art Medica. Þegar litið er á listann kemur í ljós að nöfnin tengjast valdhöfum og efnamiklum einstaklingum, enginn venjulegur Jón þar á meðal. Annað sem er eftirtektarvert er að samkvæmt Hlédísi og Gunnari, þá er nær 100% nýting á horfnum fósturvísum þeirra. Í eðlilegu ferli þarf nokkrar tilraunir með fleiri fósturvísum til að tryggja að árangur náist.

Kenning fósturvísahjónanna

Hlédís Sveinsdóttir skrifar á Facebook 9. janúar s.l. um málið:

„Okkur hjónum hafa borist upplýsingar um að ástæða þess að hlutaðeigandi brotamenn stálu ófæddum börnum okkar hjá ART-Medica þegar við vorum að reyna að eignast börn, búa til fjölskyldu, hafi verið vitneskja umræddra brotamanna um að ég, Hlédís Sveinsdóttir, sé langafabarn Christians X. konungs! Og að sú vitneskja hafi borist brotamönnum frá Kára Stefánssyni og Íslenskri erfðagr.“

Gunnar Árnason skrifar 15. janúar s.l. á Facebook:


„Þau sem leika aðalhlutverkið í stuldi á ófæddum börnum okkar hjóna hjá ART-Medica, eru mikið til sömu aðilar og léku aðalhlutverkin í bankahruninu hérlendis 2008! Umræddur stuldur var skipulagður á árunum þar á undan og hrint í framkvæmd vorið 2008! Í því skyni að troða sér inn í konungsfjölskyldur í Evrópu með börnin, okkar líf-börn, sem ‘aðgöngumiða’ ! Þetta er gjörsamlega sturlað fólk sem við er að eiga.“

Kenning þeirra hjóna er því fullsköpuð þessi: Útrásarvíkingarnir sem settu Ísland á hliðina 2008 skipulögðu stuld á fósturvísum þeirra hjóna sem þeir vissu ekkert um að væru til eða yrðu nokkru sinni til. Ránið var síðan framkvæmt árið 2008 en fósturvísarnir voru framleiddir á þriggja ára tímabili fram til 2010. Eftir rán útrásarvíkinganna bjuggu þeir til börn úr þeim svo hægt væri að gera tilkall til dönsku krúnunnar, titla og arfs.

Hvernig gat mér yfirsést svo einfalt mál í byrjun?

Þjóðólfur er ekki vettvangur slúðurs

Þar sem Þjóðólfur hefur engan áhuga á því að vera ábyrgðarlaus slúðurmiðill, þá hef ég fjarlægt allt efni um málið. Tími þeirra hjóna að glansa með einhliða frásögn sína er lokið á þessum miðli. Ef einhverjir hafa orðið fyrir hnjaski vegna málsins sem saklausir eru, þá eru viðkomandi beðnir velvirðingar. Það var aldrei meiningin að særa neinn með því að skjóta skjólshúsi yfir hjónin smá stund og færa þeim vettvang til að segja sína sögu. Þess vegna skrifa ég þessa grein svo eigið mannorð og Þjóðólfs fari ekki í gröfina vegna málsins.

Betra sem sakamálasaga, leikrit eða spennumynd?

Hjónin hafa þróað kenningu sem gæti eflaust orðið handrit að sakamálasögu, leikriti eða spennumynd. Sum atriði hjónanna eru trúverðugri en önnur til dæmis hvað var allt þetta fólk að gera inn í sjúkraskrá Hlédísar? Þáttur læknanna sem fluttu með sér þekkingu tæknifrjóvgunardeildar Landsspítalans yfir í Art Medica sem skipti um nafn og er núna tengt alþjóða risum. Önnur atriði eru frekar persónulegar tilfinningar sem auka á skuggaspil rökkurlandsins eins og deilur Hlédísar við Kára Stefánsson en hún teiknaði húsið hans og sameiginlegt hatur hennar með blaðamanninum á Akureyri á Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins.

Það sem byrjaði sem grunur um stolna fósturvísa breyttist í frásögn um dönsku konungsfjölskylduna og að Hlédís væri langafabarn Kristjáns X. Danakonungs. Sú saga á ekkert skylt við horfna fósturvísa eða umhyggju fyrir hugsanlegum lífbörnum út í bæ. Í slíkum skuggaskiptum getur engin heiðarleg blaðamennska þrifist. Þjóðólfur vill ekki vera á þeim stað og setur því endanlega punkt fyrir þetta mál.

Gústaf Skúlason

Fara efst á síðu