Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar vill að Svíar taki upp evruna, þrátt fyrir að sænska þjóðin hafi áður hafnað henni með miklum meirihluta. 56% sögðu nei, 42% sögðu já í atkvæðagreiðslu árið 2003 þar sem 83% atkvæðisbærra Svía greiddu atkvæði. Hugmyndir hans hafa mætt mikilli gagnrýni og eykur hættu á klofningi ríkisstjórnarinnar en margir Svíþjóðardemókratar, Móderatar og Kristdemókratar vilja viðhalda sænsku krónunni. Flokkur fólksins ræður sér ekki fyrir kæti en sá flokkur hefur alla tíð verið talsmaður ESB og evrunnar.
Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar hefur opnað á umræður um að innleiða evruna í Svíþjóð. Í næstu viku verða Móderatar með landsfund sem mun ákveða uppleggið en þingkosningar eru í Svíþjóð á næsta ári. Sænska Dagblaðið segir að tillaga Kristersson hafi mætt mikilli gagnrýni – ekki síst frá hans eigin ríkisstjórn. Arvid Hallén frá hugveitunni Oikos, sem tengist Svíþjóðardemókrötum, varar við afleiðingunum:
„Svíþjóð á alls ekki að skipta út krónunni fyrir evru. Það grefur bæði undan efnahag Svíþjóðar og sjálfstæði okkar og fullveldi. Við myndum í reynd missa stjórnina – ekki aðeins á peningamála- og gjaldmiðilsstefnunni heldur einnig á ríkisfjármálastefnunni. Þetta er grundvallar árás á stjórnun í höndum almennings.“
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hunsuð
Árið 2003 höfnuðu Svíar evrunni með miklum meirihluta. Forsætisráðherrann segist virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en vill taka málið upp nýju þrátt fyrir það. „Það væri skrýtið ef við í Svíþjóð ræðum ekki líka þá spurningu sem verið er að ræða í allri Evrópu.“ Kristersson neitar að ný þjóðaratkvæðagreiðsla sé á borðinu.
Sænska krónan er sterkari en hún hefur verið í langan tíma og hefur styrkst um 5% gagnvart evrunni. Innflutningur hefur orðið ódýrari og sænsku heimilin fá meira fyrir peninginn. Margir benda á að Svíþjóð myndi með upptöku evrunnar gefa frá sér efnahagslegt sjálfstæði landsins af frjálsum vilja. Seðlabanki ESB í Frankfurt stjórnar evrusvæðinu og Seðlabanki Svíþjóðar því í reynd óþarfur ef landið gengur með í evrusamstarfið.