Fórnarlömbin heiðruð – Öll Svíþjóð sýnir aðstandendum stuðning sinn

Í dag sameinuðust allir Svíar í þögulli mínútu klukkan 12.00 frá nyrstu strönd til þeirrar syðstu, frá vestri til austurs. Bílaumferðin stöðvaðist, samgöngur stöðvuðust, allir Svíar litu upp þar sem þeir voru og minntust þessa voðaverks sem gerðist í fyrri viku, þegar fjöldamorðingja tókst að komast inn í skóla í Örebro og taka líf tíu manns auk sín sjálfs. Sænski fáninn blakti í hálfa stöng. Kirkjuklukkum var hringt. Þjóðin safnaðist saman í þögn.

Á torginu í Örebro söfnuðust þúsundir manna við hátíðlega athöfn til að sýna fórnarlömbunum virðingu sína og eftirlifandi samúð og styrk í þeirri djúpu sorg sem ríkir í kjölfar þessarar myrku stundar, þeirra verstu í sögu voðaverka í Svíþjóð. Það var hátíðlegt, virðulegt og táknaði framar öllu þann styrk og þá samstöðu sem gefur von um að öll þessi líf hafi ekki verið tekin til einskis. Lífið heldur áfram. En á mismunandi hátt, þeir sem hafa misst móður, systkini, föður eða barn munu aldrei fá ástvini sína aftur. Aðrir hafa fengið hryllilega áminningu um ástandið sem er orðið brothætt, þegar ódæðismaður getur framið fjöldamorð ofan á dagleg sprengjuódæði og skotárásir.

Þúsundir söfnuðust saman á torginu í Örebro til að sýna þeim myrtu virðingu sína og aðstandendum samstöðu sína í djúpri sorg. Flutt voru tónverk og landshöfðinginn og bæjarstjórinn fluttu ræður. Þetta var afar áhrifaríkt og virðulegt og stutt í tárin. Sýnt í beinni útsendingu í sænska sjónvarpinu (skjáskot SVT).

Svíþjóð í dag er ekki sú sama og fyrir fjöldamorðin. Fjöldamorðin í Örebro munu fá víðtækar afleiðingar í lengri tíma í framtíðinni. Flest fórnarlömbin voru innflytjendur sem voru að byggja upp sitt nýja líf í Svíþjóð með drauma um bjartari framtíð. Ein þeirra sem var myrt var fjögurra barna móðir, morðinginn tók móður barnanna frá þeim. Sumir aðstandendur þeirra myrtu vilja ekki að fjölmiðlar birti nöfn þeirra en nokkur nöfn hafa þegar verið birt eftir að kennsl voru borin á öll fórnarlömbin.

Kertaljós í keri, eitt af ótalmörgum, við minnislund fórnarlambanna í Örebro.

Leikkonan Parwin Hoseinia las upp ljóðið „Þegar orðin eru búin“ sem Michael Josef Horvath hafði ort sérstaklega fyrir minnisstundina. Hér að neðan í mjög lausri þýðingu en kannski nægjanlega til að miðla broti af þeim tilfinningum sem fyllt hafa andrúmsloftið í Svíþjóð undanfarna viku:

Hvað er eitt líf?

Hvað er eitt líf?

Líf er logi sem brennur.
Líf er að stjórna blænum
í lungun og aftur út.
Líf er kall,
líf er orð.
Líf er nafn.

Þeir sögðu: Lærðu tungumálið.
Þeir sögðu: Málið er lykillinn.
Þeir sögðu: Lykillinn að lífinu
og orðin streymdu gegnum æðar þínar.
Þegar orðin höfðu fyllt allar æðar
svo þær loguðu af innlifun,
þá voru hendur þínar heitar
eins og eftir hitasótt.

Þú varðst hluti af Svíþjóð
og hluti af Örebro. Með umboðsmann,
snittuborð, svörtu kaffi, svartrjúpu og samúð.
Líf þitt voru andartökin þín.
Líf þitt voru börnin þín.
Líf þitt voru brauðhleifarnir sem þú bakaðir.
Bænirnar sem við báðum
í öll skiptin sem við gengum ganginn.

En í þetta sinn var gangurinn án gólfs.
Hyldýpið blasti við.
Þeir sögðu: Horfið ekki niður.
Ég varð að þrýsta höndum mínum á axlir þínar
svo síðustu orðin rynnu ekki út.
Samt tæmdist vaxið í þykka kertakerinu.

Þrátt fyrir að orðin liggja dreift
í drífum á gólfinu sem er ekki til,
þá verðum við núna að rísa aftur á fætur.
Við verðum stöðugt að kveikja ný ljós
við Campus Risbergska
og í hjörtum okkar; í leikskólanum,
Kornablóminu og skurðstofunni USÖ.
Í Menningarhverfinu og Vestur Stó.

Því við erum Örebro.
Við erum tónverk, lúta
með titrandi strengi þúsund ára tóna
sem fundust áður en
mál okkar var ritað.

Núna verðum við að halda höndum saman,
handalaus ef svo ber við.
Því núna eru orðin búin.








Fara efst á síðu