Formaður regnbogalækna nauðgaði átta sjúklingum

Læknirinn Christian Abi-Khalil, 38 ára, (á mynd ofan) var lofaður fyrir baráttu sína gegn hommafóbíu. Hann var opinber fulltrúi LGBTQ+ samtakanna og hefur verið ákærður fyrir níu nauðganir gegn átta ungum karlkyns sjúklingum í Uppsala. Hann gat haldið áfram að starfa sem læknir jafnvel eftir að hafa verið rekinn vegna kæra um kynferðisofbeldi.

Samkvæmt ákærunum er talið að brotin hafi átt sér stað á tímabilinu maí 2021 – október 2024 meðal annars á heilsugæslustöðinni Samariterhemmet í Uppsala og í eitt skipti í Stokkhólmi. Nokkur fórnarlambanna eru sögð hafa orðið fyrir þvinguðum munnmökum meðan á læknismeðferð stóð og önnur fórnarlömb hafa borið vitni um að læknirinn hafi strokið kynfæri þeirra.

Gunnar Brodin saksóknari telur að ekkert í lýsingu fórnarlambanna sé læknisfræðilega réttlætanlegt. Hann segir í viðtali við sænska Læknablaðið:

„Þetta snýst í grundvallaratriðum um að læknirinn hefur svalað og fullnægt eigin kynþorsta.“

Christian Abi-Khalil er þekktur sem formaður Regnbogalæknanna, Rainbow Doctors, samtaka samkynhneigðra lækna. Hann var virkur opinber fulltrúi LGBTQ+ samtakanna í mörg ár. Hann stofnaði hópinn „Samkynhneigða eyjan“ og vann að því að stofna nýlendu samkynhneigðra. Hann sagði í viðtali við QX, blað samkynhneigðra í Svíþjóð árið 2013:

„Við gætum orðið þau fyrstu í heiminum að stofna „nýlendu samkynhneigðra“ hvort sem það væri frístaður, fast búseta eða griðastaður. Við höfum lengi barist fyrir tilvistarrétti okkar og virðingu og gerum enn af fullum krafti í dag.“

Læknirinn ásakaði nýlega starfsfólk baðhússins Fyrishov um hatursáróður gegn samkynhneigðum eftir að starfsmenn komust að því að ýmsir samkynhneigðir notuðu baðhúsið fyrir kynlíf, gengu um með reisn og áreittu aðra baðgesti kynferðislega.

Þrátt fyrir að hafa fengið kvartanir frá sjúklingum árið 2024 var lækninum leyft að halda áfram störfum þar til honum var loksins sagt upp störfum í desember. Á meðan hann var í leyfi frá störfum tókst honum einnig að fá nýtt starf sem héraðslæknir í Stokkhólmi án þess að haft væri samband við fyrri vinnuveitanda hans.

Regnbogalæknirinn hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í febrúar og neitar allri sök. Verjandi hans neitar að tjá sig um málið. Sum fórnarlambanna hafa að sögn alveg misst traust á heilbrigðisþjónustunni.

Fara efst á síðu