Finnska ríkið verður að greiða sem nemur 20 – 30 milljónum króna eftir að hafa sent menn um borð í skipið Eagle S í fyrra. Þetta er niðurstaða dóms sem féll í dag. Og finnskir skattgreiðendur gætu neyðst til að greiða milljarða til viðbótar vegna atviksins.
Á jóladag í fyrra slitnaði annar af tveimur jafnstraumsstrengjum, Estlink 2, yfir Finnlandsflóa milli Finnlands og Eistlands. Olíuskipið Eagle S hafði nýlega farið yfir strenginn þegar hann slitnaði og því lék grunur á að skipið hafði eitthvað með slitna strenginn að gera.
Eagle S lagði upp frá hafnarborginni Ust-Luga í Rússlandi sama morgun. Finnska strandgæslan fór á móti skipinu á alþjóðlegu hafsvæði og skipaði því inn í finnska landhelgi. Þegar þangað var komið var finnskum sérsveitarlögreglumönnum halað um borð úr þyrlu í skipið við dramatískar aðstæður.


Sýknaðir af finnskum dómstól
Þrír af mönnunum um borð í Eagle S, georgíski skipstjórinn og tveir stýrimenn skipsins frá Georgíu og Indlandi, voru fluttir til finnska meginlandsins, þar sem vegabréf þeirra voru gerð upptæk og þeim bannað að ferðast. Skipið var loksins látið laust úr prísundinni mörgum mánuðum síðar, eftir að nýrri áhöfn hafði verið flogið til Finnlands.
Rannsóknin sýnir að akkerið á Eagle S hafði losnað og það dregist eftir sjávarbotninum, krækst í Estlink-strenginn sem slitnaði. Engar vísbendingar eru um að áhöfn skipsins hafi vísvitandi skemmt rafmagnsstrenginn, en yfirmennirnir vissu að læsingarbúnaður akkerisins var bilaður, en þeim tókst ekki að laga hann.
Í miðjum ágúst höfðaði vararíkissaksóknari Finnlands mál gegn þessum þremur áhafnarmeðlimum sem voru kærðir um alvarlegt skemmdarverk og truflun á póst- og fjarskiptaumferð. Sakborningarnir þrír neituðu slíkum glæp og héldu því fram að Finnland skorti lögsögu í málinu, þar sem atburðurinn átti sér stað á alþjóðlegu hafsvæði.
Héraðsdómstóllinn í Helsinki komst að sömu niðurstöðu. Dómstóllinn tilkynnti að málinu yrði vísað frá vegna skorts á lögsögu í Finnlandi. Þar sem saksóknara hefur ekki tekist að sanna að um vísvitandi skemmdarverk hafi verið að ræða, heldur um sjóslys eins og getið er í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, þá verður að rannsaka alla vanrækslu varðandi búnað skipsins annað hvort á Cookseyjum, þar sem skipið er skráð, eða hjá dómstóli í heimalöndum áhafnarmeðlimanna.
Krafa á finnska ríkið upp á fleiri milljarða króna
Eigendur Estlink, sem eru í raun finnska og eistneska ríkið, höfðu vonast eftir verulegum skaðabótum upp á tugi milljóna evra frá skipafélagi Eagle S, Caravella FZ LLC. Núna neyðist finnska ríkið í staðinn að greiða tugi milljóna króna í málskostnað skipafélagsins.
En verðmiðinn stoppar ekki þar. Lögmaðurinn Herman Ljungberg, sem er lögmaður Caravella FZ LLC, segir að skjólstæðingur hans eigi kröfu á finnska ríkið vegna tjóns upp á tugi milljóna evra eða jafngildi fleiri milljarða íslenskra króna. Ástæðan er sú að farmur Eagle S skemmdist, þegar skipinu var haldið í gæslu í finnskri lögsögu í marga mánuði.
Ljungberg sakar einnig finnska ríkið um að hafa „rænt“ Eagle S. Það er sama orðræða og Rússland notar varðandi aðgerðir Vesturvelda gegn skipum á leið til og frá landinu. Skipið Eagle S hefur verið greint sem eitt af hundruðum skipa í svo kölluðum „skuggaflota“ Rússlands. Herman Ljungberg segir við finnska Yle:
„Það verður að rannsaka, þegar lögreglan fór um borð í skipið. Við höfum þegar kært það á fyrri stigum en því vverið vísað frá.“

Hinir þrír ákærðu: Davit Vadatchkoria, skipstjóri og stýrimennirnir tveir: Robert Egizaryan och Santosh Kumar Chaurasia. (Skjáskot Yle).