23. janúar sl. birti stjórn Samtakanna ´78 fordæmingu á aðgerðum Bandaríkjastjórnar til verndar konum og börnum í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum geta karlar sem lýsa því yfir að vera konur ekki lengur troðið sér inn í búningsherbergi kvenna, kvennasalerni eða tekið þátt í kvennaíþróttum. Hugmyndafræðingar transismans halda því fram að hægt sé að ímynda sér hvaða kyn maður er og að til séu fleiri en tvö kyn. Hóta Samtökin 78 íslenskum yfirvöldum og almenningi með því að hinsegin fólk muni flytja sem flóttafólk frá Bandaríkjunum og búsetja sig á Íslandi vegna hins hræðilega manns, Donald Trump, sem bandaríska þjóðin kaus til forseta.
Rúmum mánuði síðar, þann 25. febrúar birtist frétt á heimasíðu S78 og þar vitnað í frétt á vef Sameykis sama dag:
„Heildarsamtök launafólks, BSRB, ASÍ, BHM og KÍ taka undir yfirlýsingu Samtakanna ’78 og hvetja stjórnvöld til að taka afgerandi stöðu gegn nýlegri tilskipun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um tvö kyn. „Með tilskipuninni afneitar forsetinn tilvist trans og intersex fólks og gerir réttindi þeirra að engu, réttindi sem barist var ötullega fyrir í langan tíma,“ segir í yfirlýsingu ASÍ, BSRB, BHM og KÍ. Yfirskrift yfirlýsingarinnar er: Mannréttindabrot verða ekki liðin.“
Í yfirlýsingu heildarsamtakanna til stuðnings við S78 segir:
„Framkoma, ákvarðanir og stefnumótun valdhafa erlendis geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið bakslagi og mikilli afturför í jafnréttismálum, líka hér á landi. Ef við veitum ekki viðspyrnu og sýnum hvers megnug við erum er voðinn vís. Heildarsamtök launafólks styðja yfirlýsingu Samtakanna 78 og hvetja stjórnvöld til að taka afgerandi afstöðu gegn nýrri tilskipun Bandaríkjaforseta um tvö kyn.“
Að vinstri menn hafa gert spurningu um kyn að pólitík sýnir, hversu rökþrota þeirra málstaður er. Halda mætti að þetta fólk þekki ekki til nýlegs úrskurðar til dæmis Hæstaréttar Bretlands sem staðfestir það sem allir vissu, að kyn skilgreinist út frá líffræðilegu kyni en ekki út frá kynvitund eða kynleiðréttingapappírum. Sú sjálfsgreining, sem S78 hefur fengið verkalýðshreyfinguna til að styðja, tryggir því engin lagaleg réttindi og er alls engin brot á neinum mannréttindum heldur þvert á móti tryggir mannréttindi fremst kvenna.
Hatur á Bandaríkjastjórn undir forystu Donald Trumps virðist einkenna þennan málflutning allan og Trump greinilega í sömu sporum á Íslandi eins og Páll Vilhjálmsson blaðamaður og bloggari og Eldur Smári Kristinsson, formaður samtakanna 22. Sameiginlegt hjá þessum þremur herramönnum er að fullyrða að kynin séu bara tvö og fyrir það á núna að etja íslensku ríkisstjórninni gegn þeirri bandarísku. S78 töpuðu nýlega hatursmáli gegn Páli Vilhjálmssyni og fram undan er hatursmál þeirra gegn Eldi Smára.
Ástæða er til að árétta fullyrðingu heildarsamtakanna varðandi valdhafa erlendis sem gilda einnig hérlendis, að „framkoma, ákvarðanir og stefnumótun valdhafa geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið bakslagi og mikilli afturför í jafnréttismálum.“ Þar má til dæmis ræða jafnrétti í viðskiptum Bandaríkjanna og Íslands en Ísland var nýlega sett í flokk með ESB og 15% tollar settir á vörur frá Íslandi til Bandaríkjanna.
Áður voru tollar frá Íslandi 10% og núna eru valdhafar yfir sig hneykslaðir og undrandi á framkomu Bandaríkjaforseta við Ísland. Ef Samtökin 78 og verkalýðshreyfingin ásamt ESB-grímum íslensku ríkisstjórnarinnar halda árásum sínum áfram á forseta Bandaríkjanna og Bandaríkjastjórn má alveg eins búast við að Trump hækki tolla á vörur frá Íslandi upp í 25% eða meira.
Er ekki kominn tími til að stöðva hatursáróður transhugmyndafræðinnar sem eyðileggur svo mikið fyrir landsmönnum?