Fico: Zelensky skaðar ESB meira en Rússland

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, gagnrýnir Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, harðlega eftir að tilkynnt var að Úkraína hætti að flytja rússneskt gas um gasleiðslufr Úkraínu frá 1. janúar 2025. Frá þessu greinir Remix News.

Ákvörðun Zelensky var tekin án samráðs við viðkomandi Evrópuríki og mun valda miklu tjóni fyrir efnahag ESB að sögn Fico. Fico skrifar á Facebook:

„Með því að stöðva gasflutninginn er Zelenskyy forseti að valda milljarða tapi fyrir ESB, þar á meðal Slóvakíu. Það mun draga enn frekar úr samkeppnishæfni sambandsins. Svo virðist sem mikilmennum ESB sé sama. Aðalatriðið er að slavarnir haldi áfram að drepa hvern annan í því óraunhæfa markmiði að veikja Rússland.“

20% meiri sala á jarðgasi Rússa til Evrópu

Fico skrifar að stuðningur ESB við Úkraínu verði að vera skynsamlegur og ekki leiða til „sjálfseyðandi athafna“ eins og hann orðar það. Zelensky hafnaði öllu tillögum um lausn málsins. Þrátt fyrir allar refsiaðgerðir ESB gegn Rússum, þá jókst útflutningur Rússa á jarðgasi til Evrópu um tæp 20% á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024 miðað við árið áður. Rússar fluttu út um 50 milljarða rúmmetra af jarðgasi til Evrópu á þessum tíma.

Robert Kaliniak, varnarmálaráðherra Slóvakíu, bendir á að ástandið á vígvellinum sýni ekki að Úkraína eigi möguleika á að endurheimta þau svæði sem Rússar hafa lagt undir sig. Kaliniak segir í viðtali við TA3:

„Það er hagur Slóvakíu að vopnahléi verði tafarlaust komið á. Það ryður brautina fyrir friðarviðræður.“

Fico hefur áður gagnrýnt afstöðu ESB til Úkraínustríðsins og segir Úkraínu vera fórnarlamb í valdatafli stórveldanna. Hann segir Slóvakíu muni stöðva raforku til Úkraínu sem svar við banninu á gasflutningi gegnum Úkraínu til Slóvakíu. Um fimmtungur af raforkuinnflutningi Úkraínu kemur frá ESB og fimmtungur þess frá Slóvakíu. Hluti raforkunnar er framleiddur í túrbínum knúnum með jarðgasi.

Fara efst á síðu