Evrópusambandið tekur yfir sjávarútveg landsmanna

Núna þegar valkyrjurnar hafa sannað fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að þær eru fullgildir fulltrúar ESB í yfirtöku sambandsins á sjávarútvegi Íslendinga, þá er innlimunarferli Íslands aftur komið á fulla ferð. Fulltrúar sjávarútvegs voru þeir sem harðast stóðu gegn svikamyllu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og hlé var gert á aðlögunarferlinu, þegar stjórnin missti allt niður um sig í ICESAVE. Þjóðaratkvæðagreiðslur þess tíma voru um hvort ESB leiðin yrði farin eða leið sjálfstæðrar þjóðar valin. Þjóðin valdi fullveldið og hafnaði alræði ESB. Það var gæfuspor sem bjargaði landinu á þeim tíma frá því að verða Kúba norðursins eins og lýðskrumarar Samfylkingarinnar hótuðu með. 

Núna hefur Brussel-ódýrið lært af reynslunni og er inni á gafli stjórnarráðsins. Þjóðin á eftir að vakna upp við vondan draum, þegar fólk gerir sér grein fyrir því, að harkan gegn útgerðar- og sjómönnum var inntökuprófið fyrir yfirtöku ESB á íslenskum sjávarútvegi.

Viljayfirlýsing íslenska stjórnarráðsins með ESB um „aukið samstarf í málefnum hafsins og sjávarútvegi“ fylgir klassískum yfirlýsingum undirsáta sem selja út land sitt til Brusselskrímslisins. Rauði þráðurinn er pólitísk yfirlýsing um fullkomna undirgefni við alræði ESB og loforð um sviptingu sjálfsákvörðunarréttar viðkomandi ríkis við aðild. Þetta er forsendan fyrir „samstarfinu“ að viðkomandi falli fyrst á kné og tilbiðji skrímslið svo áheyrn verði veitt. 

Að sjálfsögðu gefur Brusselskrímslið valkyrjunum kraft. Lítil þjóð á miðju Atlantshafi hefur ekki bolmagn til að standast heri skriffinna sambandsins. Það er leikur Davíðs gegn Golíat. Ríkisstjórnin gerir allt sem hún getur til að eyðileggja efnahagslífið og sundra þjóðinni til að almenningur gangi laskaðri til leiks í baráttuna um Ísland sem fram undan er. 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er vikið að þeim ofsa sem ríkisstjórnin hefur haft frammi gagnvart þjóðinni í veiðigjaldamálinu:

„Varla verður hjá því komist að setja ákafann og ofsann í ríkisstjórninni í lok þings í samhengi við áform ríkisstjórnarflokkanna um að þvinga Ísland inn í aðlögunarviðræður við Evrópusambandið og í framhaldi af því alla leið inn í sambandið, þvert á raunverulegan vilja landsmanna. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins kom auga á þetta þegar hún sagði við flokksmenn í lok síðustu viku: „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í gær að þetta mál [veiðigjaldamálið] væri „orrustan um Ísland“. En orrustan um Ísland hefst ekki fyrr en á næsta ári, þegar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ætlar að þröngva okkur inn í Evrópusambandið.“

Þetta eru orð að sönnu. Orð utanríkisráðherrans táknar afstöðu hennar að núna verði hægt að ganga frá kaflanum um sjávarútvegsmálin sem inngangan strandaði á í tíð Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra.

Aðildarviðræðurnar eru sem sagt í fullum gangi.

Viljayfirlýsing Hönnu Katrínu Friðrikssonar, atvinnuvegaráðherra er staðfesting á því, þátt fyrir orðavaðal um annað.

Fara efst á síðu