Sagt er að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi einangrast í heiminum vegna stríðsins í Úkraínu. En í raun eru það leiðtogar Evrópu sem hafa einangrast og glatað virðingu sinni í heiminum segir Lars Bern í viðtalsþætti Swebbtv. Lars Bern segir skoðun sína á því, hvernig Vesturlönd hafa meðhöndlað stríðið í Úkraínu og Rússland: „Þeir sem reynt hafa að einangra Rússland hafa í staðinn einangrast sjálfir.“
Samkvæmt Bern er Donald Trump að reyna að fá Rússa til að binda enda á stríðið áður en Pútín hefur lokið því sem hann vill ná fram, svo að mannorði Bandaríkjanna verði bjargað. En það virkar ekki.
Yfirráð Bandaríkjanna byggjast á því að heimurinn beri virðingu fyrir þeim. En því fleiri misheppnuð afskipti þeirra er af stríðum, þeim mun minni virðingu og mannorð eiga þeir eftir. Lars Bern segir:
„Það er enginn vafi á því að Pútín hefur tekist þessi aðgerð án þess að fá allan heiminn á móti sér. Þvert á móti er hann kannski mikilvægasti leiðtoginn í heiminum í dag.
Í hinum vestræna heimi er talað um að Pútín sé einangraður. En ef það er einhver leiðtogi í heiminum í dag sem ekki er einangraður, þá er það Pútín. Hins vegar má tala um evrópska leiðtoga sem eru algjörlega einangraðir frá umheiminum. Þeir njóta hvergi virðingar.“
Lars Bern telur að Donald Trump sé líka á leiðinni í einangrun. Bern segir Trump halda að Bandaríkin njóti svo mikillar virðingar í heiminum að hann geti fjárkúgað hvern sem er – eins og Indland – en það virkar ekki.
„Hann stundar fjárkúgun allan tímann. Hann beitir Rússa refsiaðgerðum og telur sig geta þrýst á þá til að gefa eftir sem hefur mistekist. Það sama er með Indland. Hann gerir þetta við land eftir land. Nú þrýstir hann á Danmörku vegna þess að hann vill stjórna Grænlandi. Hann gerir þetta allan tímann. Stærsta klúðrið er að hann tapaði Indlandi til Kína sem er grafalvarlegt fyrir Vesturlönd.“