Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra Georgíu (á mynd) , segir að margir stjórnmálamenn ESB hafi fjarlægst evrópsk gildi og þeir ættu að skammast sín og umgangast Georgíu af gagnkvæmri virðingu í stað þess að vera með fjárkúgun og íhlutun.
Það er greinilegt að Jón er ekki sama og séra Jón. Fjöldi ESB stjórnmálamanna, aðgerðasinnar og aðrir hafa flykkst til Tbilisi til að efna til mótmæla gegn rétt kjörinni stjórn Georgíu. Aldrei minnast vestrænir fjölmiðlar á að það séu stjórnmálaleg afskipti og alvarleg íhlutun erlendra aðila sem reyna að koma í veg fyrir vilja kjósenda í Georgíu. Núna kemur ESB og heimtar með frekju að yfirvöld kjósi upp á nýtt í Georgíu! Hvernig myndu Íslendingar bregðast við því, ef ESB skipaði þeim að kjósa upp á nýtt af því að niðurstaða kosninganna samræmdist ekki stefnu ESB?
Í ályktun ESB (sjá pdf að neðan) er stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn sakaður um að hafa notfært sér „ótta í landinu við stríð“ í kosningabaráttunni og „hafa grafið undan evró-Atlantshafsstefnu landsins og snúið landinu í staðinn að Rússlandi.“ Segir að um kosningasvik hafi verið að ræða og að „kosningarnar endurspegli ekki sannan vilja georgísku þjóðarinnar.“
ÖSE segir kosningarnar réttmætar
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE hefur lýst því yfir, að kosningarnar í Georgíu hafi „almennt verið vel skipulagðar og framkvæmt á skipulegan hátt“ en hafi einkennst af „spennuþrungnu andrúmslofti.“ ÖSE hefur alls ekki vísað niðurstöðum kosninganna á bug eins og ESB velur að gera. Sigurvegarinn, flokkurinn Georgíski Draumurinn fékk 54% atkvæða en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn Samfylking til breytinga fékk aðeins 11%
Kjörstjórn Georgíu vísar ásökunum um kosningasvik á bug sem rógburðarherferð og segir að fullyrðingar sem verið sé að dreifa séu í raun „sögusagnir, tilhæfulausar ásakanir og falsupplýsingar.“
Í ályktun ESB er nokkrum sinnum vísað til yfirlýsinga Salomé Zurabishvili, forseta Georgíu sem fordæmdi kosningarnar. Zurabishvili forseti hefur táknrænt hlutverk svipað og Svíakonungur en er orðin að oddvita georgísku stjórnarandstöðunnar vegna áróðurs fyrir ESB. Kjörtímabili hennar líkur eftir rúma viku og kjósa á um nýjan forseta 14. desember en stjórnarandstaðan leggst gegn því.
Salomé Zurabishvili, forseti Georgíu, ásamt Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.
Ríkisstjórn Georgíu frestar aðildarviðræðum við ESB í fjögur ár
Samkvæmt AP mun Georgía fresta aðildarviðræðum við ESB í fjögur ár. Vitnað er í ummæli Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra landsins á fimmtudag, þar sem hann ásakar ESB um „fjárkúgun og íhlutun.“ Stjórnarandstaðan brást ókvæða við gagnrýni á ESB og hljóp út á götu til að kynda undir óeirðir gegn ríkisstjórninni. ESB samþykkti Georgíu sem umsóknarríki í desember 2023.
Forsætisráðherrann fordæmdi kröfu ESB um endurkosningu og segir það móðgun frá ESB gagnvart kjósendum í Georgíu og mikil skömm fyrir Evrópusambandið. Hann sagði:
„Við munum halda áfram á vegferð okkar að Evrópusambandinu en munum hins vegar ekki leyfa neinum að beita okkur fjárkúgun og íhlutun sem er algjör óvirðing við land okkar og samfélag.“
Hér að neðan má sjá óeirðir í Tbilisi sem vestræn öfl taka þátt í og minna mjög á valdaránið í Úkraínu 2014:
‼️ In #Tbilisi, at a protest in front of the Parliament against the suspension of European integration, the police used force against the protesters
— NEXTA (@nexta_tv) November 29, 2024
The Interior Ministry used special means against the protesters. The police used pepper spray, water cannons and batons, Ekho… pic.twitter.com/PiP3IawhIh
Ályktun ESB: