Hæstiréttur Svíþjóðar afnemur aldagamalt málfrelsi Svíþjóðar vegna lagakröfu ESB.
Hæstiréttur Svíþjóðar hefur dæmt lög ESB æðri stjórnarskrá Svíþjóðar sem tryggt hefur prent- og málfrelsi frá 1766. Á grundvelli þeirra laga hafa sænsk yfirvöld haft upplýsingaskyldu til dæmis í afbrotamálum og hafa verið starfandi gagnabankar eins og Lexbase og Verifiera um slík mál, þar sem almenningur og blaðamenn geta farið inn og kynnt sér málin. Dómur hæstaréttar þýðir að slíkir upplýsingabankar fá ekki lengur að birta slík mál og starfsemi réttarfarskerfisins og yfirvalda verður sveipað myrkri gagnvart blaðamönnum og almenningi.
Með dómi sínum víkur Hæstiréttur Svíþjóðar stjórnarskrá Svíþjóðar til hliðar sem óæðri gagnvart lögum ESB sem kölluð eru General Data Protection Regulation, GDPR, eða Almenna persónuverndarreglugerðin.
Í nýjum fordæmisgefandi dómum gegn tveimur gagnabönkum í umsjá Trobar AB og fréttastofunnar Siren, dæmir hæstiréttur að upplýsingar í gagnabönkunum stríði gegn prersónuverndarlögum ESB. Þar með fellur upplýsingaskylda yfirvalda úr gildi sem á sænsku er kölluð offentlighetsprincipen og er stjórnarskrárbundin upplýsingaskylda ríkis og sveitarfélaga til að almenningur og blaðamenn geti fylgst með opinberum málum. Gildir það um opinber mál önnur en þau sem skráð eru með þagnarskyldu.
Blaðamenn nota gögn við rannsóknarstörf
Gagnabankar hafa safnað saman upplýsingum og tekið smágjald fyrir leitarþjónustu í gagnaverum sínum. Oft er það blaðamenn sem nýta sér þjónustuna í rannsóknarverkefnum. Atvinnurekendur notfæra sér einnig þjónustuna til að kanna hvort einstaklingar hafi gerst brotlegir við lög áður en nýir starfsmenn eru ráðnir. Sömuleiðis athuga sumar konur hvort nýi kærastinn hefur hreina sakaskrá eða ekki.
Gagnabankinn Lexbase hefur yfir 700 þúsund notendur og upplýsingaskylda ríkisins er útfærð á margvíslegan hátt í lagabálkum Svíþjóðar. Petter Asp, einn af dómurum hæstaréttar segir í útskýringu með dómnum:
„Hæstiréttur metur málið þannig að það kerfi sem löggjafinn hefur komið á (í Svíþjóð) samræmist ekki persónuverndarlögum ESB. Dómstóllinn túlkar því sænsku lögin á þann hátt sem gerir mögulegt að tekið sé tillit til persónuverndarlaga (ESB) við beitingu laga um upplýsinga- og þagnarskyldu.“
Reiðarslag fyrir málfrelsið
Gunnar Axén hjá gagnabankanum Verifiera segir í viðtali við Dagens Industri:
„Þetta er reiðarslag gegn prent- og málfrelsinu. Núna verður gríðarlega erfitt fyrir blaðamenn að vinna rannsóknarstörf meðal annars á afbrotamönnum.“
Ákvörðun hæstaréttar felur í sér:
- Bann við birtingu dóma með nöfnum, kennitölum eða heimilisföngum.
- Bann við að bjóða upp á leitarmöguleika í lagalegum gagnagrunnum.
- Bann við að vara við ef tiltekinn einstaklingur kemur fram í lagaskjölum.
Ríkið tekur völdin – blaðamenn hringja viðvörunarbjöllum
Í Trobar AB-málinu var fyrirtækinu meinað að nota dómsskjöl í gagnagrunni þess. Hæstiréttur vísaði í persónuverndarreglugerð ESB og taldi að virða bæri að vettugi meginreglu sænsku stjórnarskrárinnar um aðgang almennings. Nils Funcke sérfræðingur í rit- og málfrelsi lítur alvarlegum augum á afleiðingar af dómi hæstaréttar. Hann segir í viðtali við ríkisútvarp Svíþjóðar:
„Fjölmiðlar sjá oft hluti sem yfirvöldum yfirsést. Það geta til dæmis verið stjórnmál, afbrotamenn sem reka fyrirtæki og mótorhjólahópar. Slík blaðamennska hefur mikla samfélagslega þýðingu.“
Baráttumenn fyrir málfrelsi, blaðamenn og ýmsir úr viðskiptalífinu kynna sér núna dóm hæstaréttar til að skilja hverjar afleiðingarnar verða fyrir stjórnarskrárbundin upplýsingalög Svíþjóðar.
Það sem var áður sjálfsagður hlutur – að hafa eftirlit með valdhöfum og afbrotamönnum – verður ekki lengur framkvæmanlegt. Lög ESB þrengja aðgang að upplýsingum og Svíþjóð hlýðir mótstöðulaust.