Eru Bandaríkin og Rússland á leiðinni í þriðju heimsstyrjöldina?

Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands situr fyrir svörum bandaríska blaðamannsins Tucker Carlson (skjáskot X).

Tucker Carlson heldur áfram að vekja máls á sjónarmiðum sem rótgrónir fjölmiðlar reyna að þegja í hel. Hann fór aftur til Moskvu og í þetta sinn til að taka viðtal við utanríkisráðherra Rússlands. Tucker reið beint á vaðið og spurði Lavrov hvort Bandaríkin og Rússland væru á leiðinni í þriðju heimsstyrjöldina.

Tucker Carlson hafði áður tekið viðtal við Vladimir Pútín forseta Rússlands í febrúar sem vakti heimsathygli, því blaðamenn rétttrúnaðarins þora ekki að gera neitt nema það sem glóbaliztarnir leyfa.

Er hætta á heimsstyrjöld?

Þungamiðja viðtalsins var hin spennuþrungna staða á milli Bandaríkjanna, Nató og Rússlands en ríkisstjórn Bidens hefur notað hvert tækifærið til að stigmagna stríðið og margir óttast að það muni leiða til opinna stríðsátaka á milli Nató og Rússlands. Carlson opnaði viðtalið með spurningunni:

„Eru Bandaríkin í stríði við Rússland?“

Þessu svaraði Lavrov neitandi og sagði Rússa vilja viðhalda góðu sambandi við nánustu nágranna sína og önnur lönd um allan heim. Það sem hefur gert Rússum erfiðara fyrir er útþensla Nató í Austur-Evrópu upp að landamærum Rússlands. Að auki hefur Nató aukið viðveru í Austur-Asíu og samstarf við Japan og Ástralíu.

Tvöfalt siðgæði Bandaríkjamanna

Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands gagnrýnir Bandaríkin fyrir hræsni í heimspólitíkinni. Sem dæmi má nefna að umfangsmikil átök hafa verið hafin í Írak, Afganistan, Líbíu og Kosovo þar sem Bandaríkjamenn reyna að hagnast á margvíslegum hátt. Bandaríkin fordæmdu þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga um að tilheyra Rússlandi en aðskilnaður Kosovo frá Serbíu var talinn lögmætur.

Að sögn Lavrov ráða Bandaríkin Úkraínustríðinu og Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, hefur ekkert að segja um friðarviðræður. Viðtalið við Sergej Lavrov utanríkisráðherra Rússlands gefur einstaka innsýn í afstöðu Rússlands til heimsmálanna og þess sem er að gerast. Hlýða má á allt viðtalið hér að neðan:

Stríðsfyrirsagnir fjölmiðla

Gömlu fjölmiðlarnir einblína á yfirlýsingu Lavrovs um að Rússar séu „tilbúnir að grípa til allra ráða“ til að forðast ósigur. Nýlega sýndu Rússar getu nýrrar eldflaugar sem fer á tíföldum hljóðhraða. Lavrov segir:

„Þeir verða að skilja, að við eru reiðubúnir að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir að þeim takist það sem þeir kalla „strategískur ósigur Rússlands.“ Þeir berjast fyrir því að halda yfirráðum í heiminum. Yfir öllum löndum, svæðum og heimsálfum. Við berjumst fyrir lögmætum öryggishagsmunum okkar.“

Gáleysislegt hugarfar

Það sem Lavrov á við með „strategískum ósigri“ er að Vesturlönd vilja takmarka alþjóðleg áhrif Rússlands, auka viðveru hersins í nágrenni Rússlands og efla yfirráð Nató og Bandaríkjanna í heiminum. Samkvæmt Lavrov eru Bandaríkin að reyna að stigmagna stríðið í Úkraínu. Lavrov segir að núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna sýni af sér gáleysislegt hugarfar.

„Rússar vilji forðast notkun kjarnorkuvopna en með þeirri stigmögnun sem bæði Joe Biden Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafa knúið fram, þá gæti allt alveg eins endað með kjarnorkustríði.“

Ögrar völdum Bandaríkjanna

Lavrov segir að metnaður Rússa sé „fjölpólaheimur“ sem þýðir að fleiri lönd hafi jafna skiptingu valds og áhrif til samræmis við meginreglur SÞ um „jafnrétti“ ríkja. Eins og staðan er núna vilja Bandaríkin stjórna allri heimsskipun og neyða alla aðra til að samræmast henni.

Sú stefna sem Vesturlönd fylgja um þessar mundir, stríðsáróður og mikil endurnýjun vopna, mun aðeins leiða til fleiri og stærri átaka um allan heim að mati Lavrovs.

Fara efst á síðu