Er það hlutverk Íslands að ákveða dagskrá Bandaríkjaforseta?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fer mikinn í Morgunblaði gærdagsins og segir það „skrítið þegar Rúss­ar og Banda­ríkja­menn setj­ast niður í Sádí-Ar­ab­íu að ræða um Úkraínu og ör­yggi Evr­ópu.“ Hún er hæstánægð með sterkan vilja ESB og skipar Íslendingum að vera „fullir þátttakendur í þeirri heild sem er að myndast.“

Síðast þegar sterkur vilji ríkti í Evrópu var það undir forystu Þýskalands sem endaði í blóðbaði seinni heimsstyrjaldarinnar. Enn á ný þéttast raðirnar þeim megin og kannski lýsir það best allri viðkvæmni við gagnrýni varaforseta Bandaríkjanna á lýðræðisskorti Þýskalands en þar er reynt að endurtaka herbragð Hitlers sem fékk stuðning annarra flokka til að banna kommúnistaflokkinn á sínum tíma. Í dag er það flokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland sem stjórnmálaelítan reynir að útiloka frá þátttöku í kosningunum á sunnudaginn.

Evrópuher undir þýskri stjórn ekki lausnin

Vance gagnrýndi einmitt aðkomu ESB að ógildingu kosninganna í Rúmeníu af því að „vitlaus“ forsetaframbjóðandi vann í fyrri umferð kosninganna. Vance fannst það óhuggulegt að fyrrum hátt settur embættismaður ESB hefði lýst því yfir að ESB ætlaði sér að halda áfram á þeirri braut. Sama tilfinning finnst í brjóstum margra íbúa meginlandsins.

Ef að raðir ESB þéttast á þann hátt, að Evrópuher verður stofnaður með fulltingi Þjóðverja, þá verður sama maskína ræst og tókst næstum að eyðileggja alla Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Verði sú leið farin verður eyðileggingin í þriðju heimsstyrjöldinni svo mikil að álfan gæti verið óbúanleg mannfólki í 100 þúsund ár. Það er sú heildarmynd sem blasir við, ef valkyrjurnar fjórar með Von der Leyen í fararbroddi fá að vaða áfram á skítugum skónum í álfunni og Þorgerður vill að Íslendingar verði „fullir þátttakendur í.“

Hvað er það sem ekki stemmir frú Þorgerður?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sýnir af sér þvílík hortugheit og fábjánahátt að hún stekkur á stall og skammar Bandaríkjaforseta fyrir að halda fundi án síns leyfis. Gorgeirinn hæfir valdmennsku ESB vel en engan veginn lítilli þjóð eins og Íslandi og er landsmönnum til mikillar skammar.

Það sem ekki stemmir er að utanríkisráðherra Íslands telur það vera í sínum verkahring að ákveða dagskrá og fundarhöld Bandaríkjaforseta. Enginn íslenskur kjósandi hefur greitt atkvæði um þá stefnu sem Gunnarsdóttir færir fram. Enginn á Íslandi kýs þann sem fer í Hvíta húsið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er aumur fulltrúi landsmanna en þeim mun betri fulltrúi fyrir glóbalizta og útrásarvíkinga sem snúið hafa aftur og gera núna innrás gegn eigin þjóð.

Guð varðveiti íslenska þjóð og bjargi henni frá því að verða fullir þátttakendur í heildarheimsku Þorgerðar Katrínar og valkyrjustjórnarinnar.

Fara efst á síðu