Enköping verður flutningamiðstöð Nató í þriðju heimsstyrjöldinni

Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að Nató byggi flutningamiðstöð í Enköping sem er um 80 km vestur af Stokkhólmi. Þaðan verða herflutningar á Norðurlöndum og frá Norður-Ameríku samhæfðir ef stríð skellur á, að því er sænska sjónvarpið SVT greinir frá. Gert er ráð fyrir að Enköping verði miðstöð fyrir hergagnaflutninga og flutning herliðs til Finnlands og Eystrasaltsríkjanna við árás Rússlands.

Sænski varnarmálaráðherrann Pål Jonson sagði við SVT:

„Við gegnum mikilvægu hlutverki í fælingar- og varnarstarfsemi Nató á sænsku yfirráðasvæði okkar.“

Flutningamiðstöðin mun bera ábyrgð á starfssvæði sem nær yfir Norður-Ameríku, Bretland og Norðurlönd. Um 70 manns munu starfa hjá Nató. Pål Jonson segir:

„Svíþjóð hefur mikilvæga landfræðilega stöðu innan Nató og geta okkar til að flytja hergögn og starfsfólk verður mjög mikilvæg.“

Höfuðstöðvarnar munu sjá um flutninga á deildarstigi – allt að 20.000 hermenn – sem og flutning á eldsneyti, skotfærum og varahlutum.

Í stríðsástandi er búist við að hermenn frá Norður-Ameríku ferðist þvert yfir Svíþjóð til að ná til Finnlands og Eystrasaltsríkjanna. Jonson segir:

„Það má ​​sjá fyrir sér að við stöndum frammi fyrir versnandi öryggisástandi og þurfum skyndilega að færa mikið magn af herbúnaði og starfsfólki frá vestri til austurs. Þessi miðstöð mun gera það auðveldara.“

Yfirhershöfðingi Svíþjóðar, Michael Claesson, leggur áherslu á að Svíþjóð muni ekki einungis bera ábyrgð á flutningum:

„Við munum að sjálfsögðu ekki setjast í helgan stein og eingöngu fást við flutninga, við munum af fullum krafti taka þátt í beinum varnaraðgerðum.“

Nató-herstöðin verður staðsett innan núverandi svæðis sænska hersins í Enköping, þar sem höfuðstöðvar hersins eru. Svipaðar herstöðvar eru staðsettar í Hollandi og Ítalíu, en höfuðstöðvar Nató fyrir flutninga eru í Ulm í Þýskalandi.

Fara efst á síðu