Ekki hægt að vera gestur í eigin landi

Þjóðólfur náði tali af Arnari Þór Jónssyni, formanni Lýðræðisflokksins, eftir alþingiskosningarnar. Miklar hreyfingar voru í þessum þingkosningum eins og þjóðin veit. Vinstri grænir náðu ekki inn á þing. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur töpuðu og Píratar einnig. Ef eitthvað er ljóst, þá er það að þjóðin hafnaði því stefnuleysi sem einkennt hefur ríkisstjórn miðju-hægri-vinstra samflots sem setti valdastólana ofar hag landsmanna. Arnar Þór Jónsson varar við því að hugsanleg ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins muni ekki leysa grundvallarvanda lýðveldisins með spilltu stjórnarfari og festuleysi.

Arnar Þór varar við veikum stjórnmálamönnum í stjórn landsins sem gefa eftir fyrir erlendum alþjóðastofnunum sem seilast til áhrifa um innanríkismál og vilja komast yfir auðlindir landsmanna eins og Evrópusambandið stefnir að. Þá bætir ekki úr skák að hafa yfirlýsta ESB-sinna í ríkisstjórn, þótt þeir segjast vilja fara hægt vegna andstöðu þjóðarinnar við ESB. Samfylkinguna þekkja þeir sem muna eftir fjármálahruninu 2008 og Icesave baráttunni í kjölfarið.

Gjörbreyttur raunveruleiki á alþjóðlegum vettvangi

Arnar Þór taldi upp stofnanir eins og SÞ, WHO, ESB og Nató og telur fráleitt, að stjórnmálamenn hafi sett þjóðina í þá stöðu að taka afstöðu í styrjöldum annarra. Ísland hafi áður fyrr verið þekkt fyrir frið og meðal annars var haldinn friðarfundur Gorbatjov og Reagan á Íslandi sem lyfti upp Íslandi sem landi sem léti gott af sér leiða í heiminum. Því miður er búið að eyðileggja þann orðstír í dag með vopnakaupum til Úkraínu. Arnþór segir:

„Mín varnaðarorð í kosningabaráttunni allri miðaði að því að reyna að vekja Íslendinga til vitundar um þá háskalegu samþjöppun valds sem er að eiga sér stað fyrir augunum á okkur. Því miður eru íslenskir kjósendur alveg sofandi gagnvart þessu…..Raunveruleikinn er algjörlega gjörbreyttur á alþjóðlegum vettvangi.“

„Samsæriskenningarsmiðir“ höfðu rétt fyrir sér

Arnar ræddi um málfrelsið og segir það alvarlegt þegar stofnanir eins og Nató vilja takmarka málfrelsið. Fréttaritari benti á nýlega grein tveggja Nató-sérfræðinga í Svíþjóð sem mæla með almennri ritskoðun á samfélagsmiðlum. Arnar greindi þá frá nýrri skýrslu sem búið er að leggja fram á Bandaríkjaþingi, þar sem eftir á er komist að því, að þeir sem voru kallaðir „samsæriskenningarsmiðir“ í Covid-faraldrinum og urðu fyrir aðkasti og tjóni eru núna „sýknaðir“ og sagðir hafa haft rétt fyrir sér allan tímann.

„Við erum á mjög krítískum tímapunkti. Ekki bara Íslendingar heldur allur hinn vestræni heimur. Vissulega eru Íslendingar í sérlega viðkvæmri stöðu. Sérstaklega á meðan við höfum þessa lélegu stjórnmálamenn sem í rauninni beygja sig og bukta fyrir erlendum stofnunum að því er virðist án nokkurra andmæla, efasemda eða spurninga.“

„Dónaskapur“ að vilja tala sitt eigið tungumál í eigin landi

Arnar lýsir þriggja ára ferð sinni með aðkomu að þjóðmálunum. Fyrst hjá Sjálfstæðisflokknum sem varaþingmaður, síðan í framboði til embættis forseta og næst með stofnun Lýðræðisflokksins. Hann hrósar liðsmönnum Lýðræðisflokksins og segist vonast til þess að sú góða og óeigingjarna barátta sem fólkið sýndi haldi áfram í þágu þjóðarinnar. Hins vegar íhugar Arnar Þór að taka sér frí um einhvern tíma sem hann á verðskuldað inni eftir þriggja ára stanslausa baráttu. Hann varar við hversu hratt hlutirnir ganga fyrir sig á Íslandi og nefnir eitt dæmi:

„Ég var í sjoppu úti á landi í vikunni sem er rekin af N1 og er þar ávarpaður á ensku af starfsmanni og allt samtalið fór fram á ensku. Ég spurði kurteisislega, þegar ég var að borga, hvort það kæmi ekki til umræðu hjá fyrirtækinu, að starfsfólkið gæti til dæmis boðið góðan daginn eða bara sagt orðið kaffi á íslensku. Og þá var mér svarað með þjósti, að viðkomandi hefði engan áhuga á að læra íslensku. Þetta væri tungumál sem henni fyndist ekki fallegt og hún væri bara hér til að vinna sér fyrir peningum. Ég tek það fram að ég var mjög kurteis í þessu samtali en hún sagði að það væri dónalegt af mér að vera að spyrja, hvers vegna starfsmaður íslensks fyrirtækis á Íslandi vildi ekki læra tvö til þrjú orð í íslensku.“

Mörg fleiri mál báru á góma. Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlusta á viðtalið:

Fara efst á síðu