Einn frægasti grínisti heims rís upp gegn pólitískri rétthugsun

Breski grínistinn vinsæli John Cleese gagnrýnir pólitíska rétthugsun harðlega í viðtali við þýskt dagblað. Hann telur pólitíska rétttrúnaðinn vera nútíma form af púrítanisma. Hann er einn í röð margra frægra persóna sem hafa gagnrýnt valdhafana að undanförnu.

John Cleese er einn vinsælasti og frægasti grínisti heims. Cleese hefur orðið heimsfrægur fyrir þátttöku sína í breska grínhópnum Monty Python og sjónvarpsþættina Fawlty Towers. Á seinni árum hefur hann látið meira að sér kveða í réttindamálum og í baráttu gegn ritskoðun og hefur meðal annars neitað verkefnum, þar sem handrit hafa þurft að fara gegnum nálaraugu pólitíska rétttrúnaðarins. Hann segir grínleikinn jarðaðan ef fara á að fyrirmælum pólitískrar rétthugsunar.

Gagnrýnir pólitíska rétthugsun í þýsku blaði

Nú ræðst Cleese á pólitíska rétthugsun í þýska dagblaðinu Die Tagespost. Að sögn Cleese líkist pólitísk rétthugsun hreintrúuðum púrítönum sem telja jólaköku vera syndsamlega. Clees segir:

„Að leita uppi eitthvað sem einhver sagði fyrir sjö árum og reka hann fyrir það, það er andstæða góðvildar og kærleika til náungans. Það er einnig andstæða hvers kyns mannsæmandi og mikilvægrar grundvallarreglu hins frjálslynda lýðræðis.“

Cleese telur, að pólitísk rétthugsun hafi kannski byrjað með góðum ásetningi en að hún hafi skapað hræðilegt samfélag. Hann segir einnig, að húmorinn geti verið tæki til að takast á við vandamálið með pólitíska skoðanakúgun rétthugsunarinnar.

Það er ekki í fyrsta skipti sem Cleese andmælir pólitísku ofurvaldi. Í eitt skiptið neitaði hann að ritskoða brandara um transkynhneigða sem var að áliti rétttrúnaðarins talinn svo neikvæður að stroka átti brandarann burtu úr handritinu.

Fara efst á síðu