„Ég mun ekki gefast upp“ – Le Pen á útifundi með tugþúsundum stuðningsmanna

Marine Le Pen ætlar ekki að draga sig í hlé eftir dóminn sem á að koma í veg fyrir að hún geti boðið sig fram til forseta Frakklands. Þúsundir manna komu saman um helgina á Place Vauban torginu í miðborg Parísar til að sýna stuðning sinn og mótmæla pólitískum réttarhöldum yfir Le Pen.

Útifundurinn var haldinn til að styðja við Marine Le Pen, sem nýlega var dæmd í fjögurra ára fangelsi og fimm ára bann við kjörgengi, segir í frétt Le Figaro. Le Pen hefur áfrýjað dómnum.

Ekkert réttlæti

Marine Le Pen gagnrýndi dómskerfið harðlega í ræðu sinni. Hún sagði málið snúist um stjórnmál í stað réttlætis:

„Þetta er ekki lögfræðilegur dómur, þetta er stjórnmálaleg ákvörðun sem treður ekki aðeins réttarríkið fótum heldur einnig lýðræðið.“

LePen sagði markmiðið vera að fjarlægja hana úr stjórnmálum með „röskun á lýðræðislegri allsherjarreglu.“

Líkir við baráttu Martin Luther King

Le Pen hvatti stuðningsmenn sína til að halda áfram að berjast – en á friðsamlegan hátt. Hún sagði:

„Leið okkar verður aldrei hin ofbeldisfulla. Við veljum friðsælu leiðina eins og séra Martin Luther King gerði.“

Hún segir baráttuna snúist um hag almennings, að verja réttindi hins almenna Frakka.

Þeir hafa vakið frönsku þjóðina

Jordan Bardella, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, tók einnig til máls. Hann telur dóminn vera „árás á lýðræðið“ og sagði:

„Þeir vildu þagga eina rödd en vöktu frönsku þjóðina í staðinn.“

Marine Le Pen sakaði valdhafa um að nota réttarkerfið til að mola sundur stjórnarandstöðuna:

„Þetta snýst um að ofsækja stjórnmálaandstæðinga, eyðileggja stjórnarandstöðuflokka og halda völdum á sama tíma og landið er keyrt áfram á barmi glundroðans.“

Fara efst á síðu