Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins og fv. forsetaframbjóðandi, birti eftirfarandi ljóð á facebook síðu sinni. Ljóðið EF eftir Rudyard Kipling í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þjóðólfur birtir þetta frábæra ljóð hér sem fjallar um ráð föður til sonar síns til umhugsunar og innri lífsgleði:
Ef þú átt ró, er aðrir æðrazt hafa
og uppnám sitt og vanda kenna þér,
ef traust þín sjálfs er vaxið allra vafa,
og veiztu þó, að hann á rétt á sér,
ef kanntu í biðraun þoli þínu að halda
og þreyta án lygi tafl við grannans róg,
og láta ei heiftúð hatur endurgjalda,
en hafa lágt um dyggð og speki þó, –
Ef draumum ann þitt hjarta og hönd þín dáðum
ef hugsun fleygri verðugt mark þú átt,
ef sigri og hrakför, blekkingunum báðum,
Þú brugðizt getur við á sama hátt,
ef sannleik þínum veiztu snápa snúa
í snörur flóna, en bugast ekki af því,
og lítur höll þíns lífs í rústamúga,
en lotnu baki hleður grunn á ný, –
Ef treystist þú að hætta öllu í einu,
sem ævilangt þér vannst, í hæpið spil,
og tapa – og byrja á ný með ekki neinu
og nefna ei skaðann sem hann væri ei til,
ef færðu knúið hug og hönd til dáða,
er hafa bæði þegar lifað sig,
og þú átt framar yfir engu að ráða,
nema aðeins vilja, er býður: Stattu þig! –
Ef höfðingi ertu í miðjum múgsins flokki
og málstað lýðsins trúr í konungsfylgd,
ef hóf sér kunna andúð þín og þokki,
og þó ertu ávallt heill í fæð og vild,
ef hverri stund, er flughröð frá þér líður,
að fullu svarar genginn spölur þinn,
er jörðin þín og það, sem lífið býður,
og þá ertu orðinn maður, sonur minn!
Rudyard Kipling: (þýð. Magnús Ásgeirsson)
Þetta ljóð Kiplings er í miklu uppáhaldi hjá hinum viðkunnalega leikara Sir Michael Caine og má heyra hann lesa ljóðið á ensku á myndskeiðinu hér að neðan: