Skólaskylda er fyrir öll börn á Íslandi sem náð hafa sex ára aldri eða verða sex ára á árinu. (Mynd: Grunnskólar Akureyrarbær).

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og sjúkraliði, ötul baráttukona fyrir mannréttindum, – sérstaklega kvenna og barna, skrifar grein á netmiðilinn akrueyri.net um hugsanlegt brot Akureyrarbæjar á persónuréttindum skólabarna. Í samningi bæjaryfirvalda við lífskoðunarfélagið Samtökin 78 lofa bæjaryfirvöld Samtökunum 78 aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum um skólabörn jafnvel án samráðs við foreldra barnanna. Foreldrarnir í Drenglyndi telja það stangast á við persónuverndarlög og ákvæði grunnskólalaga.
Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Hópurinn Drenglyndi á Akureyri samanstendur af foreldrum leik- og grunnskólabarna og kennurum. Markmið hópsins er að vekja athygli foreldra bæjarstjórnarmanna og skólafólks á því sem hefur misfarist á Akureyri.net með samningi sveitarfélagsins við lífsskoðunarfélagið Samtökin 78.
Það fór um meðlimi hópsins þegar þeir lásu samning Akureyrarbæjar við lífsskoðunarfélagið. Ekki bara vegna þeirra milljóna sem renna til samtakanna heldur líka vegna klausu sem virðist stangast á við persónuverndarlögin.
Í samningnum kveður á um, að baráttu- og hagsmunasamtökin fái aðgang að upplýsingum um skólabörnin í bænum, jafnvel viðkvæmum.
Drenglyndi óskaði eftir lögfræðiaðstoð til að senda kvörtun til Persónuverndar vegna hugsanlegra brota á persónuverndarrétti skólabarna og segir m.a. í henni;
„Trúnaður Samtakanna 78“ en með því er greinilega gert ráð fyrir því að einhverjum óþekktum og nafnlausum meðlimum lífsskoðunarfélagsins séu afhentar persónuupplýsingar af hálfu grunnskólanna eða fræðsluyfirvalda bæjarins um þau börn sem þar eru við nám. Þá er samkvæmt samningsákvæðinu um leið opnað á frekari meðferð og vinnslu tilgreindra persónuupplýsinga af hálfu meðlima fyrrgreinds lífsskoðunarfélags. Svo sem vikið verður að nánar hér á eftir telja umbj. m. tilgreint samningsákvæði í andstöðu við ákvæði umgetin persónuverndarlög nr. 90/2018 svo og tiltekin ákvæði grunnskólalaga nr. 91/2008.
Aðgang að gögnum
Í samningnum segir að lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 gæti haft aðgang að gögnum og upplýsingum sem teljast persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 90/2018. Síðan segir, að öll gögn þ.á.m. persónuupplýsingar og aðrar upplýsingar sem lífsskoðunarfélagið hefur aðgang að í gegnum Akureyrarbæ teljast trúnaðarupplýsingar.
Á það skal minnt, að persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar þar sem börn eru síður meðvituð um réttindi sín, áhættur og afleiðingar í tengslum við vinnu slíkra upplýsinga.
Í kærunni stendur m.a.;
Næst er þess hér að geta að ljóst er að með samningsákvæðinu er opnað á miðlun og meðhöndlun persónuupplýsinga ótiltekins og að öðru leyti óafmarkaðs fjölda grunnskólabarna af hálfu umrædds lífsskoðunarfélags, Samtakanna 78, á því landfræðilega gildissvið sem samningurinn tekur til. Enginn greinarmunur er heldur gerður í samstarfssamningnum á til að mynda almennum persónuupplýsingum annars vegar og viðkvæmum persónuupplýsingum hins vegar en mun strangari skilyrði eru gerð til miðlunar eða afhendingar og annarra vinnslu síðargreindu upplýsinganna að lögum, sbr. einkum 9. gr. og 11. gr. PUL sbr. og 27. gr grunnskólalaga.
Spurningar vakna
Margar spurningar vakna. Af hverju þurfa baráttu- og hagsmunasamtök aðgang að upplýsingum skólabarna, jafnvel viðkvæmum? Hver er tilgangur með slíkum upplýsingum? Hvað ætlar lífsskoðunarfélagið að gera með slíkar upplýsingar? Hver tekur á móti upplýsingunum? Eru foreldrar meðvitaðir að upplýsingar um barn þeirra sé sett í hendur lífsskoðunarfélags sem boðar að kynin séu fleiri en tvö og að foreldrar hafi getið sér til um kyn eigin barns?
Drenglyndi spyr líka bæjaryfirvöld
Hvað gefur ykkur rétt til að afhenda baráttu- og hagsmunafélagi trans hugmyndarfæðinnar upplýsingar um skólabörn bæjarins? Í hvaða tilgangi eru slíkar upplýsingar gefnar? Af hverju er ekki minnst á samþykki foreldra um afhendingu gagna um eigin börn? Fer bærinn að lögum um réttindi barna þegar svo opið ákvæði um afhendingu gagna er annars vegar?
Í lögum um persónuvernd stendur;
2. að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi; frekari vinnsla í sagnfræðilegum, tölfræðilegum eða vísindalegum tilgangi telst ekki ósamrýmanleg að því tilskildu að viðeigandi öryggis sé gætt.
Reynist það rétt, að þetta sé brot á persónuverndarlögum, er spurning á hverjum var brotið? Hve mörgum? Af hverju?
Hver ber ábyrgð
Ljóst er, sé grunur foreldra á rökum reistur verða menn að spyrja hver ber ábyrgðina? Bæjarstjórnarmenn samþykktu og hreyktu sér af þessum samningi eins og þeir hefðu gullgæsina gripið.
Hvað með fræðslufulltrúa, yfirmenn sviða, nefnda, kennara, persónuverndarfulltrúi bæjarins eða bæjarstjórann? Einhver ábyrgur?
Enginn skólastjóri hefur andmælt ákvæðinu í samningnum, enginn skólastjóri hefur sett sig upp á móti samningum. Ábyrgð skólastjóra hlýtur að vera einhver!
Eða ætla allir að yppta öxlum og segja; ,,Ekki benda á mig.“
Vita foreldrar almennt að upplýsingar um barn þeirra stendur lífsskoðunarfélaginu Samtökunum 78, sem eru hagsmuna og baráttusamtök trans hugmyndafræðinnar, til boða óski þau eftir því eða upplýsingarnar jafnvel bornar á borð fyrir þau?
Drenglyndi lýsir yfir verulegum áhyggjum af hugsanlegu broti bæjarins á persónuverndarlögunum gagnvart börnum.
Vaknið foreldrar.
F.h. Drenglyndi
Helga Dögg Sverrisdóttir er grunnskólakennari og sjúkraliði.