Dómari Sameinuðu þjóðanna hélt konu í þrælahaldi á heimili sínu

Lydia Mugambe er dómari á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur verið dæmd fyrir að hafa neytt unga konu að gerast þræll sinn. Saksóknarar sögðu að Lydia Mugambe „nýtti sér stöðu sína“ yfir fórnarlambinu og kom í veg fyrir að hún gæti haldið fastri vinnu samtímis sem hún neyddi hana til að vinna sem þernu og passa börnin ókeypis.

Hinn 49 ára gamla Mugambe starfaði einnig sem hæstaréttardómari í Úganda. Hún var fundin sek um að hafa brotið bresk innflytjendalög, skipulagt ferðalög til að misnota og neyða aðra til þrælkunar og fyrir samsæri um að hræða vitni. Endanlegur dómur fellur í konunglega dómstólnum í Oxford þann 2. maí.

Í myndefni sem lögreglan í Thames Valley birti (sjá að neðan), virtist Mugambe hneyksluð, þegar lögreglumaður útskýrði að hún væri handtekin samkvæmt lögum um nútímaþrælkun. Hún sagði við lögreglumanninn:

„Ég er dómari í mínu landi, ég hef meira að segja friðhelgi. Ég er ekki glæpamaður, ég er með diplómatískan passa.“

Caroline Haughey KC, saksóknari, sagði við kviðdómendur meðan á réttarhöldunum stóð:

„Lydia Mugambe hefur misnotað meint fórnarlamb sitt, notfært sér skilningsleysi hennar á réttindum sínum til rétt launaðrar vinnu og blekkt hana um tilganginn að koma til Bretlands.“

Saksóknarinn fullyrti að Mugambe, sem var í doktorsnámi í lögfræði við háskólann í Oxford, hefði verið í samstarfi við John Leonard Mugerwa, aðstoðaryfirlögreglustjóra Úganda, sem skipulagði ferð unga þrælsins til Bretlands.

Saksóknarinn sagði að parið hafi leikið „mjög óheiðarlegan leik“ þar sem aðstoðaryfirlögreglustjóri Úganda fékk opinberan styrk fyrir ferð þrælsins til Bretlands. Mugambe var einnig fundin sek um að hafa hrætt þrælinn til að láta ákæru á hendur sér falla niður.

Sýndi þrælnum „eintóma ást og umhyggju“

Dómararnir fengu að heyra að Mugambe hafði í hyggju að „fá einhvern til að gera líf hennar auðveldara og með sem minnstum kostnaði fyrir sjálfa sig.“ Mugambe sagðist „alltaf“ hafa komið fram við þræl sinn af ást, umhyggju og þolinmæði.

Samkvæmt heimildarsíðu Mugambe á SÞ var hún skipuð dómari SÞ í maí 2023, þremur mánuðum eftir að lögregla var kölluð á heimilisfang hennar í Oxfordshire. Eftir að þrælahald Mugambe var kært til lögreglu reyndi Mugambe að sniðganga réttarhöld með því að halda því ítrekað fram að hún hefði diplómatíska friðhelgi vegna stöðu sinnar. SÞ hefur afsalað allri friðhelgi sem Mugambe kann að hafa notið sem dómari SÞ.

Byggt á frétt BBC um málið.

Fara efst á síðu