Ríkisstjórnin er óvinur alþýðunnar númer eitt. Hún hefur tekið þjóðina í gíslingu í bullandi áframhaldandi innleiðingarferli í ESB á bak við tjöldin og núna eru lögð á ráðin að festa og dýpka völd djúpríkisins á kostnað lýðræðislega kjörinna embættismanna.
Andrés Magnússon blaðamaður Morgunblaðsins ritar prýðilega grein um fremur óhugnanlega nýja skýrslu sem birtist tveimur árum eftir og tugum milljónum króna yfir áætlun. Katrín Jakobsdóttir pantaði skýrsluna sem vill kyrkja völd stjórnmálamanna á Íslandi og efla það sem sumir kalla E-flokkinn, hinn ókjörna embættismannaflokk sem núna ætlar að innsigla eigin völd úr höndum stjórnmálamanna.
Embættismenn fái aukið skjól
Embættismennirnir telja að embættismannakerfið sé faglegt og traust, en skilja þurfi betur milli stjórnmála og stjórnsýslu. Lagt er til að skipunartími embættismanna lengist úr fimm árum í sjö, að sjálfstæði þeirra gagnvart ráðherrum verði aukið, að stakir ráðherrar velji ekki hæfisnefndir, umsækjendur geti notið nafnleyndar, að sett verði á fót miðlæg mannauðsskrifstofa þeirra en þrengt að aðstoðarmönnum ráðherra.
Mbl. greinir frá því að skýrslan hafi kostað 21 milljón krónur:
– Forsætisráðuneytið segir beinan kostnað af skýrslunni 21.442.707 kr., en 84% þess eða 18.108.750 kr. voru greiðslur til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, sem annaðist rannsóknir og ritun hluta hennar, skv. tímaskýrslum. Þá fékk Gunnar Helgi Kristinsson 660.000 kr. fyrir kafla um Svíþjóð. Starfandi embættismenn fengu ekki þóknun fyrir störf sín, en rýni og heimildaskrá kostaði 955.000 kr. og prentun 945.445 kr.
„Kjölfesta“ í hringiðu lýðræðisins
Andrés Magnússon skrifar:
„Skýrslan fjallar því í reynd ekki aðeins um starfsskilyrði embættismanna, heldur um sjálfa valddreifinguna innan framkvæmdarvaldsins, þar sem aukið sjálfstæði embættismanna gagnvart ráðherrum virðist markmiðið, sem endurspeglast í flestum tillögum hópsins.
Allt ber það að sama brunni, að embættismennirnir vilja fá aukið skjól fyrir hinni lýðræðislegu tilsjón kjörinna embættismanna, en undirtónninn er sá að tempra þurfi hið lýðræðislega vald.“
Íslendingar búa við ofvöxt ríkisbáknsins sem full þörf er á að skera niður, því fyrr því betra og áður en að hinir ókjörnu hafa endanlega kastað út stjórnarskránni úr ráðuneytum landsins. Vilji hinna ókjörnu er að tryggja eigin hag sem svo verður innsiglaður sem andlitslaus her ESB á Íslandi.
Báknið burt!
ESB embættismenn í djúpríki íslenskrar stjórnsýslu ásamt siðlausum, fjandsamlegum kjörnum embættismönnum eru óvinur almennings númer eitt á Íslandi. Þjóðin á að losa sig við slíka flokka og velja í staðinn þá sem hafa það á stefnuskrá sinni að moka flórinn og koma valdafíklum ríkisjötunnar út á götu.
